Afkoma annars ársfjórðungs 2012

Mikill vöxtur og lægri framlegð á öðrum ársfjórðungi


  • Tekjur á 2. ársfjórðungi 2012 námu 186,5 milljónum evra, sem samsvarar 15,2% aukningu samanborið við sama tímabil árið 2011 [161,9 milljónir evra].
  • EBITDA var 18,6 milljónir evra, sem er 10,0% af tekjum [Q2 2011 leiðrétt: 20,9  milljónir evra].
  • Rekstrarhagnaður (EBIT) var 12,2 milljónir evra, sem er 6,5% af tekjum [Q2 2011 leiðrétt: 15,0 milljónir evra].
  • Hagnaður eftir skatta nam 7 milljónum evra [Q2 2011: 0,2 milljónir evra[1]]. Hagnaður á hlut (e. basic EPS) var 0,96 evru sent [Q2 2011: 0,03].
  • Sjóðstreymi er áfram traust og hreinar vaxtaberandi skuldir voru 262 milljónir evra í lok fjórðungsins samanborið við 248,8 milljónir evra í lok 2. ársfjórðungs 2011.
  • Staða pantanabókar Marel er áfram góð í lok fjórðungsins og nemur 182,6 milljónum evra samanborið við 169 milljónir evra í lok annars ársfjórðungs 2011.

 

9% EBIT framlegð á fyrri hluta ársins

  • Tekjur námu 371,3 milljónum evra á fyrri hluta árs 2012, sem er 17,7% aukning samanborið við sama tímabil árið 2011 [1H 2011: 315,4 milljónir evra].
  • Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 33,3 milljónum evra á fyrri hluta árs, sem er 9% af tekjum [1H 2011 leiðrétt: 32,1 milljón evra].
  • Hagnaður eftir skatta nam 20,1 milljón evra á fyrri hluta árs [1H 2011: 9 milljónir evra[2]].

 

Velta Marel á öðrum ársfjórðungi var góð og nam 186,5 milljónum evra, sem er 15,2% aukning samanborið við sama tímabil árið 2011.  Rekstarhagnaður var 6,5% af veltu á öðrum ársfjórðungi sem er undir markmiði félagsins um 10-12% á árinu.  Minni hagnað má rekja til aukins kostnaðar við framkvæmd ýmissa verkefna, aukinna umsvifa í kjölfar áframhaldandi vaxtar og óhagstæðri samsetningu seldra vara. Sé litið á fyrstu sex mánuði ársins er rekstrarhagnaður (EBIT) 9% af veltu og rekstrarmarkmið félagsins er óbreytt 10-12%.

 

Á öðrum ársfjórðungi er skipting tekna eftir landssvæðum í góðu jafnvægi.  Stór verkefni voru í Brasilíu, Tyrklandi, Bandaríkjunum, Suður-Afríku og Rússlandi. Tekjuskipting á milli fisk-, kjúklinga- og frekari vinnslu er jafnframt góð.

 

Theo Hoen, forstjóri:

“Við erum ánægð með að tekjurnar halda áfram að vaxa og að staða pantana er góð. Við höfum  lagt áherslu á að afkoman geti sveiflast milli ársfjórðunga eins og raunin varð á síðasta ársfjórðungi. Marel hefur vaxið um 18% frá fyrra ári og EBIT framlegð er 9% það sem af er ári.

 

Markaðsstaða Marel er sterk þar sem góð landfræðileg dreifing og nýsköpun eru lykilþættir. Það er skýrt markmið okkar að skila 10-12% EBIT framlegð á árinu.“

 

Góð staða pantanabókar

Á öðrum ársfjórðungi var góður gangur í nýjum pöntunum (þjónusta meðtalin), en virði þeirra nam 179,6 milljónum evra samanborið við 168,8 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi 2011. Vöxt má einkum rekja til nýrra pantana á stórum vinnslukerfum sem innihalda fjölbreyttar vörur og má þar nefna nýtt flökunarkerfi fyrir lax  sem nýtur mikillar velgengni hjá viðskiptavinum Marel vegna verðmætaaukningar sem þeir geta náð fram. Einnig er góð eftirspurn eftir nýjum vörum á borð við AeroScalder (affiðrun með lofti) í kjúklingaiðnaði.

 

Afkoma annars ársfjórðungs 2012

Lykiltölur úr rekstri – helstu tölur í þúsundum evra

Rekstrarreikningur   2. ársfj.   2. ársfj.   Breyting   Jan-Jún   Jan-Jún   Breyting
Á samstæðugrunni - Samanburðartölur eru leiðréttar 1) 2012   2011   í %   2012   2011   í %
                           
                           
  Tekjur     186.469    161.854            15,2     371.333    315.391           17,7
  Framlegð       62.277      57.883               7,6     130.269    116.800           11,5
     Framlegð sem hlutfall af tekjum              33,4              35,8                   -                 35,1              37,0                  -  
                           
  Rekstrarhagnaður (EBIT)       12.210      14.959          (18,4)       33.330      32.080              3,9
     EBIT sem hlutfall af tekjum                 6,5                 9,2                   -                    9,0              10,2                  -  
                           
  EBITDA       18.570      20.942          (11,3)       45.971      44.265              3,9
     EBITDA sem hlutfall af tekjum              10,0              12,9                   -                 12,4              14,0                  -  
                           
  Hagnaður á samstæðugrunni         6.988           229     2.951,7       20.057        9.004        122,8
  Hagnaður sem hlutfall af tekjum                 3,7                 0,1                   -                    5,4                 2,9                  -  
                           
  Mótteknar pantanir 2)     179.619    168.822               6,4     365.039    329.579           10,8
  Pantanabók                   182.561    168.981              8,0
                             
                             
  1) Samanburðar tölur frá 2011 hafa verið leiðréttar fyrir 11,1 milljón einskiptiskostnaði tengdum lífeyriskuldbindingum.  
  2) Þjónustutekjur meðtaldar.                          
                             
Sjóðstreymi                          
                             
                             
  Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta       9.787        7.377           23.297      21.492      
                             
  Handbært fé frá rekstri         4.902        2.709           14.499      11.171      
  Fjárfestingar       (9.016)       (5.602)         (16.201)     (10.841)      
  Fjármögnun       (8.719)       (9.693)           (9.591)     (32.557)      
  Nettó aukning (minnkun) á handbæru fé     (12.833)     (12.586)         (11.293)     (32.227)      
                             
Efnahagur                          
                             
                             
  Nettó vaxtaberandi skuldir                 261.988    248.795      
  Veltufé 3)                 117.890      78.649      
                             
  3) Viðskiptakröfur, birgðir, verk í vinnslu og lánardrottnar.                  
                             
Kennitölur                          
                             
                             
  Veltufjárhlutfall               1,3   1,3      
  Lausafjárshlutfall               0,9   0,8      
  Fjöldi útistandandi hluta í þúsundum               730.709   735.569      
  Markaðsvirði hlutafjár í milljónum evra miðað við gengi í loktímabils   697,1   532,1      
  Arðsemi eiginfjár               10,5%   5,2%      
  Hagnaður per hlut í evru sentum   0,96   0,03       2,76   1,23      
  Skuldsetningarhlutfall 4)               2,63   2,76      
                             
  4)  Nettó vaxtaberandi skuldir / leiðrétt EBITDA síðustu 12 mánaða.              
                                         

 

Markaðir

Kjarnastarfsemi Marel beinist að fjórum greinum matvælaiðnaðarins: Vinnslu á kjúklingi, fiski, kjöti og frekari vinnslu.

Kjúklingur: Pantanir voru aftur með ágætum á öðrum fjórðungi þessa árs, þar sem stórar pantanir komu frá Evrópu, Rússlandi, Kóreu, Tyrklandi og Brasilíu. Það var áfram góð nýting hjá framleiðslueiningum fyrirtækisins. Á meðal stærstu pantana þessa fjórðungs voru tvö mikilvæg verkefni í nýjar verksmiðjur: fullbúin verksmiðja í Rússlandi til úrvinnslu á andakjöti og ný háhraða vinnslustöð fyrir holdakjúkling í Tyrklandi þar sem nýja Aeroscalder-tæknin var hluti af verkefninu. Við fengum mikilvæga pöntun frá Brasilíu þar sem við leystum af hólmi fjölda Nuova-véla, sem notaðar eru til að taka innan úr alifuglum, og auk þess barst stór viðbótarpöntun frá Kóreu.

Fiskur: Við fundum fyrir miklum áhuga á Marel-búnaði á sjávarútvegssýningunni í Brussel í apríl. Fjölmargir gestir komu við á Marel básnum og nokkrir samningar voru gerðir. Pantanir á öðrum ársfjórðungi stóðust almennt væntingar, sérstaklega á stærri kerfum. Marel lauk við uppsetningu á mörgum umfangsmiklum kerfum og vinnslutækjum bæði fyrir lax og bolfisk á ársfjórðungnum. Á meðal þeirra voru uppsetningar á hinum nýju MS 2730 flökunarvélum fyrir lax og á nýju stöðluðu flæðilínunni. Útlitið fyrir næstu ársfjórðunga er talið gott.

Kjöt: Almennt hefur verið rólegt yfir öðrum ársfjórðungi. Viðskiptavinir okkar keppa á fremur lágri framlegð og finna fyrir áhrifum offramboðs á svínakjöti í Evrópu, ásamt því að búa við erfitt fjárhagslegt og efnahagslegt umhverfi. Þar af leiðandi erum við að finna fyrir töfum á fjárfestingum frá viðskiptavinum okkar. Hins vegar er mikið um tilboðsgerð í verkefni og þau umsvif tengjast helst  Norður-Evrópu, Bandaríkjunum og Kyrrahafssvæðinu. Framleiðendur hafa sérstakan áhuga á hinu einstaka StreamLine kerfi okkar, sem gefur þeim tækifæri til að bæta birgðastjórnun í úrbeiningarsal, en tryggir á sama tíma rekjanleika vörunnar og betri vinnuvistfræðilegar lausnir fyrir starfsfólk. Í Póllandi erum við að nálgast lok stærsta Case Ready verkefnis fyrir nýja verksmiðju sem Marel hefur tekið þátt í til þessa. Við erum áfram bjartsýn á ný verkefni í framtíðinni.  

Frekari vinnsla: Á fyrri helmingi ársins 2012 hafa heildarpantanir verið samkvæmt áætlun, sem helst má rekja til þess að fyrirtæki í frekari vinnslu vilja auka framleiðslugetu sína með fullbúnum línum. Marel tók nýlega á móti stórri pöntun á hinu nýja og afkastamikla Cook-Smoke-Link kerfi sem byggir á CoExtrusion-tækni (hátæknibúnaði til pylsugerðar). Svo virðist sem það sé vaxandi áhugi á vörum okkar, sem er sérstaklega áberandi í Mið-Evrópu og Mið-Austurlöndum, þó verulega hafi hægt á ákvarðanatöku. Til að bregðast við auknum umsvifum á undanförnum ársfjórðungum höfum við nú flutt iðnaðarsetur fyrir frekari vinnslu í nýja byggingu í Boxmeer. Í Bandaríkjunum hefur sölu- og þjónustunet  fyrir kjöt og frekari vinnslu verið samþætt, sem þýðir að nú eru fleiri sölustjórar fyrir smærri svæði og því er markaðsnálgunin öflugri. Við vinnum nú ötullega að kynningu á fjölmörgum nýjungum á seinni hluta ársins.

 

Nýsköpun

Nýsköpun og þróun er jafnvægislist á milli skammtíma- og langtímamarkmiða. Innan Marel er notast við ýmis konar markmið. Á meðal skammtímamarkmiða er uppfærsla á vörum þar sem fengist er við margar „smærri“ endurbætur sem upprunnar eru frá starfsmönnum í þjónustu og samskiptum við viðskiptavini, í því skyni að halda núverandi vörum uppfærðum. Gott dæmi um þetta er nýleg markaðssetning á nýju stjórn- og flutningskerfi fyrir AMF-bringuflökunarkerfið fyrir fuglakjöt. Það er hannað til að bæta nýtni og stöðugleika í flökunarferlinu.

Hvað varðar markmið rannsókna og þróunar til meðallangs tíma, eru nýjar vöruhugmyndir þróaðar á grundvelli fyrirliggjandi tækni. Til dæmis brúar hugmyndin um ídýfingarkælingu bilið á milli algjörrar loftkælingar, sem er raunin í flestum evrópskum vinnslustöðvum, og fullrar kælingar með ídýfingu í vatn, sem er ríkjandi í flestum öðrum heimshlutum. Nota má vatnskælingu með ídýfingu til að auðvelda umskipti yfir í loftkælingu á ákveðnum mörkuðum eða til að bæta úr skorti á rými á öðrum. Á sama hátt er hið nýstárlega SK 14-430 Poultry Skinner hannað til að fjarlægja skinn af kjúklingabringum, heilum leggjum og lærum með mestu nýtni sem fyrirfinnst á markaðnum og án vatnsnotkunar.

Verkefni sem unnin eru með langtímamarkmið í huga taka yfirleitt mörg ár. Þau leiða af sér nýjar tæknihugmyndir sem svara óuppfylltum þörfum eða gera fyrirliggjandi tækni úrelta. Smartweigher og Innova-tækjavöktunin tilheyra þessum flokki. Smartweigher sameinar alla þekkingu Marel á hreyfanlegri vigtun í frábæra og einfalda lausn fyrir háhraðavigtun á afurðum sem hanga á keðju. Hún hæfir mörgum mismunandi línum í vinnslustöðvum fyrir alifuglakjöt. Innova-tækjavöktunin stuðlar að hámörkun nýtingartíma vinnslu og gerir stjórnendum kleift að taka nákvæmar ákvarðanir er lúta að rekstri.

 

Rekstrarhagkvæmni

Kostnaðaraðhald

Þrátt fyrir bakslag vegna kostnaðarauka við ýmis verkefni leggur Marel áfram ríka áherslu á kostnaðaraðhald og hagræðingu. Mörg verkefni eru í gangi til að straumlínulaga reksturinn og lækka kostnaðargrunn félagsins varanlega þrátt fyrir aukin umsvif eins og vaxtarstefna Marel gerir ráð fyrir.

 

Sjóðstreymi

Handbært fé, fyrir fjármagnsliði og skatta, var jákvætt um 9,8 milljónir evra samanborið við 7,4 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi 2011. Hækkun veltufjár stafar af auknum umsvifum í rekstri, en þó má sjá mælanlegan árangur af umbótavinnu í þessum efnum.

 

Fjármögnun

Efnahagsreikningurinn er traustur og nettó vaxtaberandi skuldir félagsins námu 262 milljónum evra í lok annars ársfjórðungs samanborið við 254,2 milljónir í lok fyrsta ársfjórðungs 2012. Rekstur félagsins er vel fjármagnaður þrátt fyrir fjárfestingu í framleiðsluhúsnæði og búnaði til að takast á við frekari vöxt. Sjóðspottur (e. cash pooling) er eitt af umbótaverkefnum Marel sem þegar hefur skilað sér í lægri vaxtakostnaði.

 

Horfur

Vel gengur að framfylgja stefnu Marel um framtíðarvöxt og félagið er bjartsýnt á að ná markmiði um 10-12%  rekstrarhagnað af veltu þrátt fyrir minni hagnað á öðrum ársfjórðungi. Þrátt fyrir ríkjandi óvissu í hagkerfum heimsins, benda greiningar til þess að áfram verði nokkur vöxtur á matvælamarkaði. Marel metur aðstæður á kjúklinga- og fiskmörkuðum góðar en horfur eru lakari til skemmri tíma í kjötiðnaði. Engu að síður má gera ráð fyrir að afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar á heimsvísu, sveiflna í pöntunum og tímasetningar stærri verkefna.

 

Kynningarfundur 26. júlí 2012

 

Marel boðar til kynningarfundar um afkomu félagsins fimmtudaginn 26. júlí kl. 8:30 í húsnæði félagsins að Austurhrauni 9, Garðabæ. Fundinum verður einnig netvarpað: www.marel.com/webcast.

 

Birtingardagar fyrir reikningsárið 2012

  • 3. ársfjórðungur 2012                                                     24. október 2012
  • 4. ársfjórðungur 2012                                                     30. janúar 2013

 

Frekari upplýsingar veita:

Helga Björk Eiríksdóttir, fjárfesta- og almannatengill. Símar: 563 8543 og 853 8543.

Erik Kaman, fjármálastjóri. Sími: 563 8072 .

Sigsteinn Grétarsson, aðstoðarforstjóri. Sími: 563 8072.


 

 

 

Um Marel
Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja Íslands og er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi. Fyrirtækið starfrækir skrifstofur og dótturfyrirtæki í meira en 30 löndum, auk 100 umboðsmanna og dreifingaraðila.
 
Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:
Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar.
 

 

 


 

 

[1] Þ.m.t. er einskiptiskostnaður tengdur samningi um nýtt fyrirkomulag lífeyrissjóðsmála sem nam 11,1 milljón evra.

 

 

[2] Sjá neðanmálsgrein 1.

 

 


Attachments