Eyrir Invest styður Stork Technical Services og Fokker til áframhaldandi vaxtar


Eyrir Invest fjárfestir fyrir allt að 23 milljónir evra til að styðja Stork Technical Services og Fokker Services til frekari vaxtar.

Stork B.V. tilkynnir í dag fjármögnun Fokker Technologies og Stork Technical Services (STS).  Með endurfjármögnuninni er fyrirtækjunum tryggð sjálfstæð fjármögnun hvort í sínu lagi en það er mikilvægt skref til áframhaldandi sjálfstæðs vaxtar hvors fyrirtækis um sig.  Í kjölfar endurfjármögnuninnar er einnig unnt að ljúka fullri samþættingu RBG inn í rekstur STS.

Samhliða endurfjármögnuninni leggja núverandi hluthafar Stork B.V. félaginu til nýtt hlutafé og nemur þátttaka Eyris Invest í hlutafjáraukningunni allt að 23 milljónum evra.  Hluthafar Stork eru sjóðir sem stýrt er af Arle Capital Partners, Eyrir Invest og aðrir alþjóðlegir fjárfestar.  

Hin nýja lánsfjármögnun STS samanstendur af 272,5 milljón evra skuldabréfaútboði með gjalddaga 2017 og rekstrarfjármögnun upp á 100 milljónir evra.  Hluti af nýrri fjármögnun STS er full fjárhagsleg samþætting RBG inn í STS, en kaupin á RBG í maí 2011 voru fjármögnuð sérstaklega.  Sjálfstæð fjármögnun og full samþætting rekstrar STS og RBG leggur traustan grunn að áframhaldandi vexti STS í þjónustu við olíu- og gasiðnað.

Fjármögnun Fokker samanstendur af bankaláni að fjárhæð 150 milljónir evra og rekstrarfjármögnun upp á 50 milljónir evra. Sjálfstæð fjármögnun Fokker gerir félaginu kleift að treista enn frekar stöðu sína sem leiðandi fyrirtæki í flugiðnaði.

Gert er ráð fyrir að endurfjármögnuninni verði að fullu lokið 16 ágúst nk með hefðbundnum fyrirvörum.

 

Um Eyrir Invest

Eyrir er alþjóðlegt fjárfestingarfélag sem leggur ríka áherslu á virka þátttöku í rekstri og stefnumörkun lykileigna sinna. Kjölfestueignir Eyris eru 33% hlutur í Marel og 17% hlutur í Stork BV sem á og rekur iðnfyrirtækin Stork Technical Services og Fokker Technologies. Á síðustu árum hefur Eyrir aukið vægi sprotafjárfestinga í eignasafni sínu sem nú verður gert hærra undir höfði í gegnum félagið Eyrir sprotar slhf. „Kaupa og styðja til vaxtar“ stefna Eyris hefur skilað góðri ávöxtun frá stofnun félagsins árið 2000

  

Um Fokker Technologies

Fokker Technologies er leiðandi fyrirtæki í flugiðnaði með um 4.800 starfsmenn og starfsstöðvar í Hollandi, Tyrklandi, Ameríku og Asíu. Fokker framleiðir æihluti fyrir alla helstu flugvélaframleiðendur heims auk þess að reka umsvifamikla þjónustu fyrir rekstraraðila flugvéla.

  

Um Stork Technical Services

Stork Technical Services er alþjóðlegt fyrirtæki í þjónustu við olíu- og gasiðnað. Hjá STS starfa um 14.300 starfsmenn á starfsstöðvum félagsins í Evrópu, Afríku, Miðausturlöndum, Asíu og Ameríku.