Breytingar á samþykktum – hlutafjáraukning


Hluthafafundur Eyris Invest hf. sem haldinn var í dag, 21. desember 2012, samþykkti breytingar á samþykktum félagsins.

Fundurinn samþykkti að auka hlutafé félagsins um allt að 231.000.000 hluta með útgáfu hluta í nýjum flokki hlutabréfa, B-flokki. B-hlutir eru forgangshlutabréf sem hafa forgangsrétt að arðgreiðslum og eru ávallt breytanleg í A-hluti. B-hlutir eru án atkvæðisréttar en njóta atkvæðisréttar í málefnum er varða breytingar á arðgreiðslustefnu og öllum málefnum er snúa að réttindum B-hluta.

Á fundinum var einnig samþykkt að arðgreiðslustefna félagsins verði hluti af samþykktum.

Fundurinn samþykkti ennfremur að nema úr gildi heimild stjórnar til útgáfu allt að 110.000.000 A-hluta. Heildar fjöldi útgefinna A-hluta nemur 1.108.681.220 og þar af á félagið sjálft 100.000.000 hluti.

Tilgangur hlutafjáraukningar er að styrkja fjárhag félagsins og auka sveigjanleika í rekstri. Stjórn félagsins hefur ráðið Arctica Finance sem ráðgjafa við hlutafjáraukninguna.

Um Eyri Invest

Eyrir er alþjóðlegt fjárfestingarfélag sem leggur ríka áherslu á virka þátttöku í rekstri og stefnumörkun lykileigna sinna. Kjölfestueignir Eyris eru 33% hlutur í Marel og 17% hlutur í Stork BV sem á og rekur iðnfyrirtækin Stork Technical Services og Fokker Technologies. Á síðustu árum hefur Eyrir aukið vægi sprotafjárfestinga í eignasafni sínu sem nú verður gert hærra undir höfði í gegnum félagið Eyrir sprotar slhf. „Kaupa og styðja til vaxtar“ stefna Eyris hefur skilað góðri ávöxtun frá stofnun félagsins.