Afkoma Sveitarfélagsins Árborgar yfir væntingum


Rekstrarafkoma Sveitarfélagsins Árborgar á árinu 2012 er jákvæð um 175,7 millj.kr. sem er 106,5 millj.kr. betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir. Heildartekjur samstæðu eru 5.584 millj.kr. og heildarútgjöld 4.405 millj.kr. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) er því 1.179 millj.kr. sem er 238 millj.kr. hærra en áætlun gerði ráð fyrir. Fjármagnsgjöld vega þungt eða 614 millj.kr. nettó og afskriftir eru 364 millj.kr. og er rekstrarafkoma samstæðunnar því 200 millj.kr. fyrir skatta eða 131 millj.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Tekjuskattur nemur 25 millj.kr. á árinu.

Skuldahlutfall skv. reglugerð 502/2012 var komið niður í 160,4% í lok árs 2012. Rekstur sveitarfélagsins er í traustum farvegi og hefur reksturinn skilað hagnaði þrjú ár í röð þrátt fyrir erfiða tíð, háar skuldir og mikla verðbólgu. Þetta hefur tekist með samstilltu átaki kjörinna fulltrúa, starfsmanna og íbúa sem hafa sýnt þessu erfiða verki einstaklega góðan skilning.

 


Attachments

Sveitarfélagið Árborg  ársreikningur 2012.pdf