Vátryggingafélag Íslands hf. - árshlutauppgjör

Afkoma fyrstu níu mánuði ársins 2013


Árshlutareikningur félagsins fyrir tímabilið janúar til september 2013 var staðfestur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 19. nóvember 2013. Árshlutareikningurinn hefur ekki verið kannaður eða endurskoðaður af endurskoðendum félagsins.

Helstu niðurstöður:

·   Hagnaður félagsins eftir skatta fyrstu níu mánuði ársins var 2.043 m.kr samanborið við 1.746 m.kr. hagnað á sama tímabili 2012.

·   Iðgjöld tímabilsins námu 12.029 m.kr. samanborið við 12.128 m.kr á sama tímabili árið 2012.

·   Framlegð af vátryggingarekstri nam 461 m.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 400 m.kr. á sama tímabili 2012.

·   Samsett hlutfall var 97,1% á tímabilinu janúar til september samanborið við 97,4% fyrir sama tímabil 2012.

·   Fjármunatekjur námu 2.457 m.kr. samanborið við 2.362 m.kr. á sama tímabili 2012.

·   Heildareignir í lok september námu 47.541 m.kr. samanborið við 43.452 í árslok 2012.

·   Fjárfestingaeignir félagsins námu 37.255 m.kr. samanborið við 34.706 m.kr. í árslok 2012.

·   Eigið fé félagsins nam 16.513 m.kr í lok september samanborið við 14.470 m.kr í árslok 2012.

·   Arðsemi eigin fjár á ársgrunni var 17,6% samanborið við 18,7% á sama tímabili árið 2012.

·   Eiginfjárhlutfall var 34,7% í lok september.

·   Gjaldþolshlutfall móðurfélagsins var 5,4 í lok september 2013 áður en tekið er tillit til mögulegrar arðgreiðslu á árinu 2014.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri

„Rekstur félagsins gekk vel á þriðja ársfjórðungi og nam hagnaðurinn tæpum 950 m.kr. Hagnaður VÍS eftir níu mánuði ársins nam 2.043 m.kr og var um 300 m.kr. hærri en fyrir sama tímabil 2012. Samsett hlutfall fyrstu níu mánuðina 2013 lækkar og var 97,1% samanborið við 97,4% á sama tímabili 2012 sem er jákvætt. Vátryggingareksturinn gekk vel á fjórðungnum og var talsvert betri en á sama fjórðungi 2012.

Eigin iðgjöld samstæðunnar námu 11.541 m.kr. fyrstu níu mánuði ársins og lækkuðu um 166 m.kr. frá sama tímabili 2012 en eigin tjón lækkuðu á sama tímabili um rúmar 250 m.kr. sem skýrir betri afkomu af vátryggingarekstrinum það sem af er árinu 2013 samanborið við 2012. 

Jákvæð þróun er í rekstrarkostnaði félagsins en rekstrarkostnaður á ársfjórðungnum var um 55 m.kr. lægri en hann var á þriðja ársfjórðungi 2012. Rekstrarkostnaður var 2.910 m.kr. fyrstu níu mánuði ársins 2013 samanborið við 2.828 m.kr. 2013og skýrist hækkunin af tilkomu Lífís í samstæðu VÍS og af kostnaði vegna skráningar félagsins.

Fjárfestingastarfsemin gekk einnig vel á þriðja ársfjórðungi og námu fjárfestingartekjur samtals 1.083 m.kr. Alls námu fjárfestingartekjur á fyrstu níu mánuðum ársins 2.457 m.kr. samanborið við 2.362 fyrir sama tímabil ársins 2012. Viðunandi ávöxtun hefur verið af skuldabréfasafni félagsins á árinu og hlutabréfasafn félagsins hefur skilað ágætri afkomu og talsvert umfram OMXI-6, en á móti hefur styrking krónunnar haft neikvæð áhrif á erlendar eignir félagsins það sem af er árinu.

Gjaldþol móðurfélagsins var 16,6 milljarðar króna í lok september og gjaldþolshlutfall 5,4 sem er vel umfram markmið félagsins sem er að vera með gjaldþolshlutfallið yfir 4,0. Í lok tímabilsins nam vátryggingaskuld samstæðunnar 28,1 milljörðum króna, en eignir til jöfnunar vátryggingaskuldar voru 41,7 milljarðar króna, eða 13,7 milljörðum króna hærri sem endurspeglar fjárhagslegan styrk VÍS“.

Vakin er athygli á að Lífís varð hluti af samstæðu félagsins þann 1. apríl 2012 svo tölur eru ekki að fullu samanburðarhæfar á milli áranna 2012 og 2013.

Horfur

Stefna félagsins er að leggja áfram áherslu á áhættumat og verðlagningu vátryggingaráhættu ásamt öflugu forvarnarstarfi til að fækka tjónum. Unnið er markvisst að því að einfalda og auka skilvirkni í starfsemi félagsins. Jafnframt er áframhaldandi áhersla á að ná traustri langtímaávöxtun á fjárfestingar í samræmi við fjárfestingastefnu félagsins.

Um VÍS

VÍS er leiðandi fyrirtæki á sviði vátrygginga á Íslandi. VÍS nýtur sterkrar stöðu á íslenskum vátryggingamarkaði með liðlega þriðjungs markaðshlutdeild. Félagið býður upp á víðtæka vátryggingaþjónustu til viðskiptavina sinna þar sem rík áhersla er lögð á viðeigandi ráðgjöf um vátryggingavernd, gæði í þjónustu, skilvirkni og sveigjanleika.

Meginstarfsemi VÍS er á sviði skaðatrygginga og líftrygginga og starfrækir félagið 40 þjónustuskrifstofur víðsvegar um land. VÍS leggur áherslu á að starfsmenn og umboðsmenn félagsins vinni eftir grunngildum félagsins sem eru umhyggja, fagmennska og árangur.

Hlutverk VÍS

VÍS er traust, leiðandi og framsækið þjónustufyrirtæki sem veitir viðskiptavinum viðeigandi vátryggingavernd og stuðlar að öryggi í samfélaginu með öflugum forvörnum.

Kynningarfundur:

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn hjá VÍS í Ármúla 3, 5. hæð, þann 20. nóvember n.k. kl. 8:30. Þar kynnir Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri VÍS afkomu félagsins og svarar spurningum.

Kynningarefni fundarins verður aðgengilegt að honum loknum á heimasíðu VÍS: www.vis.is

Fjárhagsdagatal

Viðburður                                       Dagsetning:

Ársuppgjör 2013                  25. febrúar 2014

Aðalfundur 2014                      13. mars 2014

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri í síma 560-5000 og í netfangi fjarfestatengsl@vis.is.


Attachments

Samstæðuárshlutareikningur 30.9.2013.pdf Fréttatilkynning um afkomu VÍS 9M 2013.pdf