Afkoma Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins


Hagnaður Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins 2013 nam 10,1 milljarði króna eftir skatta samanborið við 14,5 milljarða króna á sama tímabili á árinu 2012. Arðsemi eigin fjár var 10,0% samanborið við 15,9% á sama tímabili árið 2012. Arðsemi af kjarnastarfsemi var 9,2% en var 11,9% á sama tíma árið 2012. Heildareignir námu 936,9 milljörðum króna samanborið við 900,7 milljarða króna í árslok 2012.

Hagnaður á þriðja ársfjórðungi nam 4,2 milljörðum króna samanborið við 3,3 milljarða króna á sama tímabili á árinu 2012. Arðsemi eigin fjár á þriðja ársfjórðungi var 12,2% samanborið við 10,7% á sama ársfjórðungi árið 2012 og arðsemi af kjarnastarfsemi nam 11,2% en var 12,4% á þriðja ársfjórðungi ársins 2012.

Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 23,6% en var 24,3% í árslok 2012.  


Helstu atriði árshlutareikningsins:

  • Hagnaður eftir skatta nam 10,1 ma.kr. samanborið við 14,5 ma.kr. á sama tímabili 2012.
  • Hagnaður á þriðja ársfjórðungi nam 4,2 mö.kr. samanborið við 3,3 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi ársins 2012.
  • Hagnaður af kjarnastarfsemi nam 9,3 mö.kr. samanborið við 10,9 ma.kr. á sama tímabili 2012.
  • Rekstrartekjur lækka milli ára og námu 31,5 mö.kr. samanborið við 34,4 ma.kr. á sama tímabili 2012. Helstu ástæður eru lækkun vaxtamunar, sem m.a. er tilkomin vegna bindingar innlána og skuldabréfaútgáfu. Einnig eru aðrar tekjur lægri vegna minni virðisbreytinga eigna.
  • Hreinar vaxtatekjur námu 18,3 mö.kr. og eru nokkru lægri en á sama tíma 2012 vegna hærri fjármagnskostnaðar og lægri verðbólgu.
  • Hrein neikvæð virðisbreyting á útlánum nemur 0,1 ma.kr. og skýrist mest af niðurfærslu vegna gengislánadóma og töpuðum útlánum sem nema samtals 7,8 mö.kr. en einnig virðisaukningu útlána, einkum til fyrirtækja, sem nemur samtals 7,6 mö.kr.
  • Arðsemi eigin fjár var 10,0% en var 15,9% á sama tímabili 2012. Arðsemi af kjarnastarfsemi var 9,2% samanborið við 11,9% á sama tíma 2012.
  • Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 2,9% á tímabilinu en var 3,3% á sama tímabili 2012.
  • Kostnaðarhlutfall á tímabilinu var 57,6% en var 49,8% á sama tímabili 2012. Hátt hlutfall nú skýrist m.a. af sekt samkeppnisyfirvalda á Valitor og lægri rekstrartekna en á sama tíma 2012. Kostnaðarhlutfall af kjarnastarfsemi nam 56,3% samanborið við 51,3% á sama tímabili 2012.
  • Útlán til viðskiptavina í lok tímabilsins námu 576,2 mö.kr. og hafa aukist lítillega frá áramótum.
  • Heildareignir námu 936,9 mö.kr., samanborið við 900,7 ma.kr. í árslok 2012.
  • Eigið fé bankans í lok tímabilsins var 140,9 ma.kr. en nam 130,9 mö.kr. í lok árs 2012.

   

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

Afkoma Arion banka á þriðja ársfjórðungi er góð og í samræmi við okkar væntingar. Á heildina litið erum við sátt við rekstur bankans þessa fyrstu níu mánuði ársins, ekki síst í ljósi þess að enn gætir nokkurrar óvissu í okkar ytra starfsumhverfi. Góður stöðugleiki einkennir kjarnastarfsemi bankans og afkoman byggir nú í mun ríkari mæli á hefðbundinni bankastarfsemi í stað óreglulegra liða eins og virðisbreytinga.

Það er ánægjuefni að Arion banki mun í næstu viku ljúka endurreikningi gengistryggðra lána til einstaklinga þegar við munum birta um 70 viðskiptavinum niðurstöður endurreikningsins. Þannig er vinnu sem staðið hefur undanfarið ár við endurreiking um 3.700 gengistryggðra lána að ljúka. Aðeins standa eftir fá gengistryggð fyrirtækjalán en þar bíðum við niðurstöðu Hæstaréttar.   

Um þessar mundir eru liðin fimm ár frá því Arion banki var stofnaður. Á þessum árum hefur okkar markmið verið að byggja upp góðan banka sem veitir viðskiptavinum sínum góða þjónustu og holl ráð, banka sem tekur ákvarðanir af ábyrgð en er kjarkmikill þegar þess þarf. Vonandi bera verk okkar undanfarin ár þetta með sér.

 

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka, haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.


Attachments

Afkomutilkynning Arion banka 9M 2013.pdf Árshlutareikningur Arion banka 30.09.2013.pdf