Nýr sameignarsamningur og breytt eigendastefna Orkuveitu Reykjavíkur


Reykjavík, 2014-04-29 15:20 CEST (GLOBE NEWSWIRE) -- Á eigendafundi Orkuveitu Reykjavíkur, sem haldinn var 25. apríl 2014, undirrituðu fulltrúar sveitarfélaganna þriggja sem eiga Orkuveituna – Reykjavíkurborgar (93,539%), Akraneskaupstaðar (5,528%) og Borgarbyggðar 0,933%) – nýjan sameignarsamning fyrir fyrirtækið. Jafnframt var undirrituð eigendastefna fyrir Orkuveitu Reykjavíkur með lítilsháttar breytingum frá eigendastefnu sem samþykkt var vorið 2012. Sameignarsamningurinn byggir á nýjum lögum  um Orkuveitu Reykjavíkur, sem gengu í gildi 1. janúar 2014. Skjölin tvö höfðu hlotið einróma samþykki í öllum sveitarstjórnum eigenda.

Lög nr. 136/2013 um Orkuveitu Reykjavíkur leystu af hólmi eldri lög og var nokkrum ákvæðum þeirra breytt í samráði við eigendur fyrirtækisins. Með breytingu á lögum, sameignarsamningi og eigendastefnu bregðast eigendur við gagnrýni og ábendingum, sem fram komu í úttekt á vegum eigenda og gefin var út í ýtarlegri skýrslu í október 2012. Á meðal þess sem kveðið er á um er að;

  • Hlutverk fyrirtækisins er skýrt. Hefðbundin veituþjónusta er meginhlutverk þess og öll frávik frá því komi til kasta eigenda.
  • Með einföldun laga eru stjórnhættir fyrirtækisins í auknu mæli færðir til eigenda.
  • Í sameignarsamningi eru hlutverkaskipti eigenda, stjórnar og  stjórnenda skýrð.
  • Eigendur skilgreina kröfu um arðsemi rekstursins, arðgreiðslur og viðmið í þeim efnum.
  • Sú krafa er gerð að arðsemi verð tengd áhættu og fjármögnun einstakra rekstrarþátta.
  • Gerð er krafa um að stjórn fyrirtækisins vísi óvenjulegum, veigamiklum eða stefnumarkandi ákvörðunum til eigenda.
  • Ákvarðanir um nýjar virkjanir og framkvæmdir á óröskuðum svæðum skulu í öllum tilvikum bornar undir eigendur.

Af hálfu eigenda Orkuveitu Reykjavíkur var unnið að breytingunum á vettvangi eigendanefndar, sem skipuð var með erindisbréfi árið 2010. Nefndin hefur nú lokið störfum.

Sameignarsamningur og eigendastefna Orkuveitu Reykjavíkur eru í viðhengjum.


Attachments

SAMEIGNARSAMNINGUR ORKUVEITU REYKJAVÍKUR.pdf EIGENDASTEFNA ORKUVEITU REYKJAVÍKUR.pdf