Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2013


Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2013 var lagður fram í borgarstjórn í dag þriðjudaginn 29. apríl.

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A og B hluta, var jákvæð um 8.387 mkr en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 7.675 mkr. Rekstrarniðurstaðan er því 711 mkr betri en gert var ráð fyrir.  Helstu ástæður má rekja annars vegar til gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga hjá A-hluta og hins vegar til áhrifa fjármagnsgjalda hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Þar vegur þyngst gengismunur og verðmæti innbyggðra afleiða.  Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 23.579 mkr sem er 4.066 mkr betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir. Niðurstaðan sýnir að rekstur samstæðunnar er að styrkjast.

Frá og með ársbyrjun 2013 breytti Reykjavíkurborg reikningsskilaaðferðum sínum á þann hátt að fjárfestingaeignir Félagsbústaða hf. eru færðar á gangverði í samanteknum ársreikningi Reykjavíkurborgar í samræmi við lög um ársreikninga en þær hafa áður verið færðar samkvæmt kostnaðarverðsaðferð.  Fjárfestingaeignir og eigið fé A og B hluta þann 1. janúar 2013 hækkuðu um 18,1 milljarð kr. vegna þessara breytinga.

Heildareignir samstæðunnar samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í árslok samtals 478.350 mkr, heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 286.332 mkr og eigið fé nam 192.018 mkr en þar af nam hlutdeild meðeigenda 9.837 mkr.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 3.008 mkr en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 304 mkr á árinu og er niðurstaðan því betri en gert var ráð fyrir, sem nemur 2.704 mkr. Gjaldfærsla vegna lífeyrisskuldbindinga veldur þar miklu en hún nam 159 mkr en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 2.600 mkr. Rekstrarniðurstaða ársins var 3.051 mkr betri en árið 2012.  Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 3.658 mkr en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 772 mkr eða 2.886 mkr betri en áætlun gerði ráð fyrir.   Sé litið framhjá gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga er afkoma A-hluta í heild 263 mkr betri en áætlun gerði ráð fyrir sem skýrist einkum af því að aðrar tekjur hækkuðu hlutfallslega meira en annar rekstrarkostnaður.  

Fjárhagslegur styrkur A-hluta borgarsjóðs er mikill hvort sem litið er til eiginfjárstöðu eða hefðbundinna skuldaþekjuhlutfalla. Eiginfjárhlutfall, skuldahlutfall og sjóðstreymi samstæðunnar er einnig að styrkjast.

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, þ.e. rekstur fagsviða, og Eignasjóð.
Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Bílastæðasjóður Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Orkuveita Reykjavíkur, Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins, Slökkvilið höfuðborgar­svæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Jörundar ehf.

 

Nánari upplýsingar veitir

Birgir Björn Sigurjónsson fjármálastjóri Reykjavíkurborgar sími 693-9321

 

 

 

 

 


Attachments

Reykjavíkurborg ársreikningur 2013.pdf Reykjavíkurborg - skýrsla Fjármálaskrifstofu 2013.pdf