Orkuveitan í A-flokk hjá Reitun


Reykjavík, 2014-06-24 17:24 CEST (GLOBE NEWSWIRE) -- Matsfyrirtækið Reitun hefur hækkað lánshæfiseinkunn Orkuveitu Reykjavíkur úr i.BBB1 í i.A3. Horfur eru áfram taldar stöðugar. Sterkur rekstur, árangur af Planinu umfram áætlanir, lækkandi skuldir, batnandi lausafjárstaða, minnkandi markaðsáhætta og traustir bakhjarlar fyrirtækisins eru helstu ástæður betri einkunnar, að því er kemur fram í meðfylgjandi tilkynningu Reitunar.

Aðalfundur Orkuveitu Reykjavíkur vegna ársins 2013 var haldinn í gær, 23. júní 2014. Á fundinum lýsti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri áframhaldandi stuðningi Reykjavíkurborgar við Planið, aðgerðaáætlun í rekstri fyrirtækisins sem gildir til ársloka 2016.

Kjöri nýrrar stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur var lýst á fundinum. Fjórir stjórnarmenn af sex sitja áfram í stjórn. Það eru þau Haraldur Flosi Tryggvason formaður, Brynhildur Davíðsdóttir varaformaður, Gylfi Magnússon og Kjartan Magnússon. Nýir fulltrúar eru Áslaug Friðriksdóttir og Valdís Eyjólfsdóttir auk þess sem Björn Bjarki Þorsteinsson tekur sæti sem áheyrnarfulltrúi Borgarbyggðar eftir nokkurra ára hlé.

Í samræmi við Planið var ákveðið að greiða ekki arð vegna ársins 2013. KPMG verður endurskoðandi Orkuveitu Reykjavíkur í samræmi við niðurstöðu sameiginlegs útboðs Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur.


Attachments

Reitun - Lánshæfismat OR júní 2014.pdf