Reitun bætir lánhæfismat á Orkuveitunni


Reykjavík, 2015-01-19 14:37 CET (GLOBE NEWSWIRE) -- Áframhaldandi styrking á fjárhagsstöðu Orkuveitunnar, trúverðug fjárhagsáætlun ásamt góðum árangri í að ná markmiðum Plansins eru ástæður þess að lánhæfisfyrirtækið Reitun hefur breytt lánshæfiseinkunn fyrirtækisins í þá veru að nú eru horfur metnar jákvæðar. Einkunn Orkuveitunnar er áfram i.A3. Uppfært lánshæfismat er í viðhengi.

Útlit fyrir að lánshæfi styrkist

Í mati Reitunar kemur fram að samhliða batnandi fjárhagsstöðu Orkuveitunnar og minni áhættu sýni fjárhagsáætlun fyrirtækisins að áfram sé unnið að því að styrkja lausafjárstöðu og veltufjárhlutfall. „Lánshæfi Orkuveitunnar ætti að styrkjast samhliða auknu fjárhagslegu svigrúmi,“ segir í matinu.

Alþjóðlega lánshæfisfyrirtækið Moody‘s gerði nýverið samskonar breytingar í mati þess á lánshæfi Orkuveitunnar.

Áætlanir Orkuveitunnar og markmiðin sem sett voru með Planinu hafa gengið eftir og gott betur. Í lok þriðja ársfjórðungs 2014 var uppsafnaður árangur Plansins orðinn 48,2 milljarðar króna. Þannig hefur rekstrarkostnaður lækkað að raungildi frá árinu 2010. Tekjur hafa hinsvegar vaxið um rúm 40% frá árinu 2010, úr 27,9 ma.kr. í 39,2 ma.kr. í árslok 2013, en tveir áfangar við Hellisheiðarvirkjun hafa verið teknir í notkun á þessu tímabili.

Áhættuvarnir skila árangri

Samhliða hefur Orkuveitan unnið í að bæta aðgengi að lausafé og segir Reitun í mati sínu að fyrirhuguð fjármögnun muni styrkja lausafé og draga úr þeirri áhættu sem stafar af lágu lausafjárhlutfalli.

Orkuveitan tilkynnti um það fyrir helgina að fyrirtækið hefði gert áhættuvarnarsamninga vegna þróunar gengis gjaldmiðla. Síðustu mánuði hefur eigið fé Orkuveitunnar styrkst um 2,8 milljarða króna, án áhrifa greiðsluflæðis, vegna gengisþróunar.

         Nánari upplýsingar:
         Ingvar Stefánsson
         framkvæmdastjóri fjármála
         516 6000


Attachments

Lánshæfismat Reitunar - Orkuveitan janúar 2015.pdf