Landsbankinn hf.: Samruni Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja


·         Fjármálaeftirlitið (FME) hefur tekið ákvörðun um samruna Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja.

·         Samruninn tók gildi sunnudaginn 29. mars kl. 15:00.

·         Frá og með þeim tíma urðu allir starfsmenn sparisjóðsins starfsmenn Landsbankans.

·         Landsbankinn hefur yfirtekið allar eignir og skuldbindingar sjóðsins, þ.m.t. útlán og innlán viðskiptavina.

·         Starfsemi útibúa Sparisjóðs Vestmannaeyja verður óbreytt fyrst um sinn og öll fimm útibú sjóðsins opna á hefðbundnum tíma   mánudagsmorguninn 30. mars.

·         Netbankar eru aðgengilegir viðskiptavinum eins og verið hefur.

·         Landsbankinn er vel í stakk búinn til að taka við rekstri og skuldbindingum sparisjóðsins.

·         Landsbankinn býður viðskiptavini sparisjóðsins velkomna.

Sparisjóður Vestmannaeyja hefur um nokkurt skeið ekki uppfyllt lögbundnar kröfur um eigið fé og þurfti því að finna lausnir á fjárhagsvanda sínum. Stjórn sparisjóðsins leitaði því til Landsbankans eftir að aðrar tilraunir til að endurreisa sjóðinn báru ekki árangur.

Í framhaldi komust stjórn sparisjóðsins og Landsbankinn að samkomulagi um samruna félaganna. Í kjölfarið hefur FME í dag, 29. mars, tekið ákvörðun um samruna þeirra á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI í lögum 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Við samrunann er virði stofnfjár sparisjóðsins metið á 332 milljónir króna. Matið er háð hugsanlegum leiðréttingum en getur þó aldrei orðið minna en 50 milljónir króna og aldrei meira en 550 milljónir króna.  Sem endurgjald fyrir stofnfé sparisjóðsins fá fyrrum stofnfjáreigendur sparisjóðsins hlutabréf í Landsbankanum sem samtals nemur tæplega 0,15% af útgefnu hlutafé bankans, en endanlegur hlutur er háður mati á virði stofnfjár sparisjóðsins.

Sparisjóður Vestmannaeyja er með starfsstöðvar á fimm stöðum á landinu: Í Vestmannaeyjum, á Selfossi, Höfn, Breiðdalsvík og Djúpavogi. Landsbankinn rekur útibú á Selfossi og Höfn og þar verða útibú sameinuð fljótlega.

Lögð verður áhersla á að samruninn efli þjónustu við viðskiptavini og samskipti þeirra við bankann. Öll útibú sparisjóðsins opna á venjubundnum tíma á mánudag og viðskiptavinir geta snúið sér til sinna þjónustufulltrúa að venju. Fyrst um sinn munu reikningar og reikningsnúmer haldast óbreytt.

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir, fráfarandi stjórnarformaður Sparisjóðs Vestmannaeyja segir:

„Stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja hefur að undanförnu leitað leiða til að tryggja rekstrargrundvöll sjóðsins. Með samkomulagi við Landsbankann hefur náðst farsæl niðurstaða sem tryggir hag sjóðsins, eigenda hans og viðskiptavina og almannahag á þeim stöðum þar sem sparisjóðurinn hefur starfsemi. Vegna stöðu sparisjóðsins var óhjákvæmilegt að leita samstarfs við traustan aðila til framtíðar og við viljum þakka Landsbankanum fyrir samstarfið á undanförnum dögum.“

 

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans segir:

„Sparisjóður Vestmannaeyja hefur gengt mikilvægu hlutverki á þeim stöðum þar sem hann hefur haft starfsemi. Landsbankinn mun leggja sig fram um að taka vel á móti viðskiptavinum sparisjóðsins og sinna þeim eins og best verður á kosið. Við leggjum áherslu á að samþætting í kjölfar samrunans gangi vel og hratt fyrir sig til þess að tryggja öfluga fjármálaþjónustu á þessum svæðum. Ég býð viðskiptavini sparisjóðsins velkomna í Landsbankann.“

 

Nánari upplýsingar:

Kristján Kristjánsson, pr@landsbankinn.is 410 4011 eða 899 9352.