Reykjavíkurborg ársreikningur 2014


Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014 var lagður fram í borgarstjórn í dag þriðjudaginn 28. apríl.

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A og B hluta, var jákvæð um 11.106 mkr en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 8.120 mkr. Rekstrarniðurstaðan er því 2.986 mkr betri en gert var ráð fyrir.  Helstu ástæður má rekja annars vegar til tekjufærslu matsbreytinga fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum og hins vegar til áhrifa fjármagnsgjalda hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Þar vegur þyngst lækkun vaxtagjalda vegna lækkunar vaxtaberandi skulda.  Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 15.569 mkr sem er 2.791 mkr lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir sem skýrist meðal annars af hækkun launakostnaðar.

Heildareignir samstæðunnar samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í árslok samtals 504.396 mkr, heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 287.145 mkr og eigið fé nam 217.252 mkr en þar af nam hlutdeild meðeigenda 11.274 mkr.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 2.831 mkr en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 488 mkr á árinu og er niðurstaðan því lakari en gert var ráð fyrir, sem nemur 3.318 mkr.  Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 2.897 mkr en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 852 mkr eða 3.748 mkr lakari en áætlun gerði ráð fyrir.   Lakari rekstrarniðurstaða skýrist meðal annars af minni tekjum af sölu byggingaréttar eða 1.193 mkr undir áætlun, hærri gjaldfærslu lífeyrisskuldbindingar eða 1.012 mkr. yfir áætlun og hækkun launakostnaðar umfram áætlun um 961 mkr. Að teknu tilliti til ofangreindra frávika er rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 335 mkr.

Fjárhagslegur styrkur A-hluta borgarsjóðs er mikill hvort sem litið er til eiginfjárstöðu eða hefðbundinna skuldaþekjuhlutfalla.

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, þ.e. rekstur fagsviða, Eignasjóð og Bílastæðasjóð. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Orkuveita Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgar­svæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Jörundar ehf.

Breytt uppgjör Orkuveitu Reykjavíkur. Þann 1. janúar 2014 kom til framkvæmda það ákvæði raforkulaga sem gerir fyrirtækjum á þeim markaði  skylt að skilja á milli sérleyfis- og samkeppnishluta starfseminnar. Um áramótin tók Orka náttúrunnar ohf., dótturfélag sem er alfarið í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, til starfa á samkeppnismarkaði raforku en félagið var stofnað til að uppfylla þetta lagaákvæði. Veituþjónustan verður áfram rekin undir merkjum Orkuveitu Reykjavíkur, bæði þau lögbundnu skylduverkefni sveitarfélaga sem vatns- og fráveita eru og sérleyfisþjónusta rafmagns- og hitaveitu. Í móðurfélagi breyttrar samstæðu, Orkuveitu Reykjavíkur, verður sameiginleg stoðþjónusta við dótturfélög s.s. fjármál, gæða, umhverfis- og öryggismál auk sameiginlegs þjónustusviðs.

 

Reykjavík, 28. apríl 2015.

Nánari upplýsingar veitir
Birgir Björn Sigurjónsson fjármálastjóri Reykjavíkurborgar sími 693-9321


Attachments

Reykjavíkurborg - skýrsla Fjármálaskrifstofu 2014.pdf Reykjavíkurborg ársreikningur 2014.pdf