Landsbankinn hf.: Landsbankinn vinnur að samruna við Sparisjóð Norðurlands


Landsbankinn hf.  hefur í dag, 19. júní 2015, skrifað undir samkomulag við Sparisjóð Norðurlands ses. um að hafinn verði undirbúningur að samruna félaganna. Stjórn sparisjóðsins leitaði til Landsbankans þann 9. júní 2015, til að kanna áhuga á samruna, vegna óvissu um framtíð sjóðsins og hafa viðræður staðið frá þeim tíma.

Samruni lýtur lögbundnu ferli sem tekur að lágmarki fjórar vikur, frá því hann er fyrst auglýstur með formlegum hætti og er háð aðkomu bæði Fjármálaeftirlits og Samkeppniseftirlits.

Sameinað fyrirtæki yrði rekið undir nafni Landsbankans og við hann rynnu allar eignir og skuldbindingar sparisjóðsins inn í Landsbankann og hann tæki við rekstri allra útibúa sjóðsins.

Samkvæmt því samkomulagi sem fyrir liggur munu stofnfjáreigendur í sparisjóðnum fá greitt með hlutabréfum í Landsbankanum. Heildarendurgjald til þeirra yrði 594 milljónir króna með fyrirvara um áreiðanleikakönnun.

Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans segir: „Stjórn Sparisjóðs Norðurlands ses. óskaði eftir afstöðu Landsbankans til samruna félaganna í ljósi þess að sjóðurinn hefur ekki uppfyllt kröfur eftirlitsaðila um eiginfjárhlutfall. Að fengu samþykki eftirlitsaðila teljum við að samruni fyrirtækjanna geti gengið greiðlega fyrir sig og að Landsbankinn geti haldið úti öflugri þjónustu á svæði Sparisjóðs Norðurlands.“

 

Nánari upplýsingar:

Kristján Kristjánsson, pr@landsbankinn.is 410 4011 eða 899 9352.