Hagar hf. árshlutauppgjör Q1 // mars - maí 2015


Árshlutareikningur Haga hf. fyrir fyrsta ársfjórðung 2015/16 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 30. júní 2015. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2015 til 31. maí 2015. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, KPMG ehf., hafa hvorki endurskoðað né kannað reikninginn.

 

Helstu upplýsingar

  • Hagnaður tímabilsins nam 811 millj. kr. eða 4,3% af veltu.
  • Vörusala tímabilsins nam 18.668 millj. kr.
  • Framlegð tímabilsins var 24,0%.
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 1.212 millj. kr.
  • Heildareignir samstæðunnar námu 29.272 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Handbært fé félagsins nam 4.814 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Eigið fé félagsins nam 15.575 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Eiginfjárhlutfall var 53,2% í lok tímabilsins.

Þann 4. júní síðastliðinn sendi félagið frá sér tilkynningu, þar sem fram kom að áhrif verkfalla og kostnaðarauki vegna kjarasamninga setti mark sitt á rekstrarniðurstöðu fyrsta ársfjórðungs. Gert var ráð fyrir að hagnaður fyrsta ársfjórðungs yrði um 15% lægri en á síðasta ári. Raunin er að hagnaður fyrsta ársfjórðungs er 13,6% lægri en á síðasta ári. 

 

Sölusamdráttur félagsins var 1,15% og framlegðarhlutfall lækkaði á milli ára um 0,2%-stig

Vörusala tímabilsins nam 18.668 milljónum króna, samanborið við 18.885 milljón króna árið áður. Sölusamdráttur félagsins er 1,15%. Fram kom á kynningu félagsins vegna ársuppgjörs að vörugjöld sem felld voru niður um síðustu áramót hefðu verið um 1,7%-1,8% af veltu félagsins á síðasta almanaksári.  Samdrátt í sölu má því m.a. rekja til niðurfellingu vörugjalda. Hækkun 12 mánaða meðaltals vísitölu neysluverðs milli rekstrarára var 1,56% en hækkun vísitölunnar án húsnæðis var 0,21%. Framlegð félagsins var 4.485 milljónir króna, samanborið við 4.574 milljónir króna árið áður eða 24,0% framlegð samanborið við 24,2% á fyrra ári. Rekstrarkostnaður í heild hækkar um 122 milljónir króna eða 3,8% milli ára en kostnaðarhlutfallið hækkar úr 16,9% í 17,8%. Í maí mánuði var gerð varúðarfærsla vegna launahækkana kjarasamninga. 

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 1.212 milljónum króna, samanborið við 1.405 milljónir króna árið áður. EBITDA framlegð var 6,5%, samanborið við 7,4% árið áður.

Hagnaður tímabilsins fyrir skatta nam 1.014 milljónum króna, samanborið við 1.174 milljónir króna árið áður. Hagnaður eftir skatta nam 811 milljónum króna á tímabilinu, sem jafngildir 4,3% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 939 milljónir.

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 29.272 milljónum króna. Fastafjármunir voru 14.901 milljónir króna og veltufjármunir 14.371 milljónir króna. Þar af eru birgðir 4.951 milljónir króna en birgðir voru 5.105 milljónir króna ári áður.

Eigið fé félagsins var 15.575 milljónir króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 53,2%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 13.697 milljónir króna, þar af voru langtímaskuldir 4.794 milljón króna.

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 2.203 milljónum króna, samanborið við 1.220 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 550 milljónir króna og fjármögnunarhreyfingar 187 milljónir króna. Handbært fé í lok tímabilsins var 4.814 milljónir króna, samanborið við 3.503 milljónir króna árið áður.

 

Staðan og framtíðarhorfur

Ljóst er að áhrif verkfalla og kostnaðarauki vegna kjarasamninga setti mark sitt á rekstrar–niðurstöðu fyrsta ársfjórðungs Haga. Áður hafði verið tilkynnt að hagnaður fyrsta ársfjórðungs væri um 15% lægri en á síðasta ári en endanleg niðurstaða var 13,6% samdráttur milli ára eins og áður sagði. Kostnaðarmat SA á kjarasamningum, sem snýr m.a. að starfsfólki Haga, sem samþykktir voru nú í júní er 2015: 7,3%, 2016: 5,7%, 2017: 3,6% og 2018: 2,3%. Kostnaðarmat SA byggir á meðaltalshækkun, en þegar liggur fyrir að kostnaðarauki Haga er umfram framangreint meðaltal.

Nú í júní festi félagið kaup á fasteigninni Túngötu 1 í Reykjanesbæ en þar er fyrirhugað að opna Bónusverslun á næstu mánuðum. Auk þess verða opnaðar tvær Bónusverslanir á haustmánuðum, líkt og áður hefur verið tilkynnt, í Skipholti annars vegar og Vestmannaeyjum hins vegar.

Í maí sl. var framkvæmd úttekt á Skattaspori Haga. Skattaspor fyrirtækis innifelur allar greiðslur viðkomandi fyrirtækis til ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða auk skatta sem innheimtir eru fyrir hönd yfirvalda og skilað til þeirra. Skattaspor félagsins miðast við síðastliðið rekstrarár, 1. mars 2014 - 28. febrúar 2015, en markmið með birtingu upplýsinga um skattaspor félagsins er að draga fram upplýsingar um þær fjárhæðir sem starfsemi þess skilaði til samfélagsins á tímabilinu, í formi skatta og gjalda. Skattaspor Haga á tímabilinu var 5.202 milljónir króna en þar af voru gjaldfærðir skattar 2.875 milljónir króna og innheimtir skattar 2.327 milljónir króna.

 

Fjárhagsdagatal 2015/16

 

2. ársfjórðungur (1. mars – 31. ágúst): 28. október 2015

3. ársfjórðungur (1. mars – 30. nóvember): 12. janúar 2016

4. ársfjórðungur (1. mars – 29. feb): 12. maí 2016

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.


Attachments

Hagar árshlutareikningur 31 05 2015_m nöfnum.pdf Fréttatilkynning Hagar árshlutareikningur 310515.pdf