Upplýsingar vegna uppgjörs Sjóvár fyrir árið 2015


  • Breytt reikningsskilaaðferð vátryggingaskuldar
  • Virðisrýrnun óefnislegra eigna
  • Tjónaþungur fjórði ársfjórðungur

Í kynningu Sjóvár á 3. ársfjórðungsuppgjöri ársins 2015 kom fram að við ársuppgjör ársins 2015, yrði breytt um reikningsskilaaðferð við mat á tjónaskuld í tengslum við innleiðingu á löggjöf um vátryggingastarfsemi, Solvency II, sem taka mun gildi skv. frumvarpi til laga um vátryggingastarfsemi 1. mars nk. Reiknað áhættuálag er lægra samkvæmt nýjum reglum og jafnframt breytist með hvaða hætti áhætta er mæld í starfsemi vátryggingafélaga. Þessi breyting hefur áhrif á stöðu eigin fjár, vátryggingaskuldar og tekjuskatts og verða rekstrar- og efnahagsreikningar áranna 2014 og 2015 lagaðir að breytingunni. Vátryggingaskuld í ársbyrjun 2014 lækkar um 2.709 m.kr. og eigið fé hækkar um 2.167 m.kr. vegna þessa.

Það er mat stjórnenda að á árinu 2015 þurfi að virðisrýra að fullu þær eftirstæðu óefnislegu eignir sem voru keyptar og úthlutað við stofnun félagsins á viðskiptasambönd og hugbúnað. Matið byggist m.a. á breytingum sem gerðar voru á lögum um vátryggingasamninga á árinu 2015, sem hafa það í för með sér að viðskiptavinum er gert hægar um vik að skipta um vátryggingarfélag. Umrædd virðisrýrnun leiðir til viðbótargjaldfærslu í rekstrarreikningi á árinu 2015 að fjárhæð 3.199 m.kr. Þessu til viðbótar kemur til gjaldfærsla vegna endurmats á nýtingartíma hugbúnaðar að fjárhæð kr. 202 m.kr. Heildaráhrif á eigin fé vegna þessarar virðisrýrnunar að teknu tilliti til skattáhrifa nema 2.720 m.kr. Óefnislegar eignir eru ekki tækar til þeirra eiginfjárliða sem koma til útreiknings á gjaldþoli og hefur þessi virðisrýrnun því engin áhrif á lykilstærðir, rekstraráætlanir, styrkleikamælikvarða og ákvarðanir um arðgreiðslur samstæðunnar.

Að teknu tilliti til ofangreinds er áætlaður hagnaður ársins eftir skatta um 650 m.kr. með þeim fyrirvara að endanlegt uppgjör liggur ekki fyrir. Áætlaður hagnaður samstæðunnar á árinu 2015 nemur um 3.370 m.kr. fyrir virðisrýrnun óefnislegra eigna. Helgast það af góðri afkomu af fjárfestingarstarfsemi á árinu 2015 en fjórði ársfjórðungur ársins 2015 reyndist Sjóvá tjónaþungur. Samsett hlutfall verður um 103,5% fyrir árið allt og um 112% fyrir fjórða fjórðung.

Hagnaður ársins kemur til hækkunar á eigin fé. Þessu til viðbótar koma kaup félagsins á eigin bréfum í gegnum endurkaupaáætlun samkvæmt heimild hluthafafundar til lækkunar á eigin fé.

  m.kr.
Áður birt eigið fé 1.1.2015 17.810
Hækkun vegna breytingar á mati vátryggingaskuldar 1.1.2014 2.167
Breyting á hagnaði ársins 2014 26
Greiddur arður í apríl 2015 -3.997
Áætlaður hagnaður ársins án virðisrýrnunar 3.370
Virðisrýrnun m.t.t. skattáhrifa -2.720
Keypt eigin bréf -372
Áætlað eigið fé 31.12.2015 16.284

Tafla um breytingu á eigin fé frá 1. janúar til 31. desember 2015 m.v. áætlaðan um 650 m.kr. hagnað ársins.

Ársreikningur verður birtur eftir lokun markaða þann 18. febrúar nk.

Nánari upplýsingar veitir Þórður Pálsson í síma 440-2000 eða fjarfestar@sjova.is