Fjármál Reykjaneshafnar


Vísað er til tilkynninga Reykjanesbæjar og Reykjaneshafnar um viðræður við kröfuhafa um endurskipulagningu fjárhags Reykjanesbæjar og stofnana hans.

Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem haldinn var þann 7. júní sl. samþykkti meirihluti bæjarstjórnar að óska eftir lengri fresti frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (hér eftir „eftirlitsnefnd“) til þess að reyna til þrautar að ná samkomulagi við þá kröfuhafa sem samþykktu ekki tillögu um fjárhagslega endurskipulagningu.

Reykjanesbær fékk þann 10. júní sl. framlengdan frest af hálfu eftirlitsnefndar 10. júlí nk. til að kanna nýjan grundvöll að samkomulagi.

Fulltrúar Reykjanesbæjar og Reykjaneshafnar hafa ásamt ráðgjöfum nýtt liðnar vikur og fundað með þeim kröfuhöfum Reykjaneshafnar sem samþykktu ekki fyrri tillögu um fjárhagslega endurskipulagningu. Í viðræðuferlinu hefur sjónum verið einkum beint að möguleikum þess hvort grundvöllur væri fyrir samkomulagi um heildstæða endurskipulagningu skulda Reykjanesbæjar og stofnana á öðrum forsendum en þeim sem áður var hafnað af hluta kröfuhafa.

Þar sem viðræðum hefur miðað áfram síðastliðnar vikur telur Reykjanesbær rétt að viðræðum verði framhaldið í þeirri von að ná frjálsum samningum. Þar sem tíma þarf til þess að útfæra frekar og ræða tillögur að heildarendurskipulagningu Reykjanesbæjar og stofnana, sem og að kynna og ræða slíkt hið sama við aðra kröfuhafa, verður óskað eftir við eftirlitsnefnd að frestur sé veittur til 30. september nk. til þess að ljúka framangreindu viðræðuferli.

Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjanesbæjar