Viðauki: Kaup á rúmlega fimmtungs hlut í Kviku banka hf.


Í tilefni af tilkynningu Vátryggingafélags Íslands hf. („VÍS“) frá 5. janúar sl. vill félagið árétta eftirfarandi:

Í tilkynningu frá stjórn Kviku banka hf. („Kvika“) og stjórn Virðingar hf. frá 28. nóvember 2016 um viljayfirlýsingu þeirra um undirbúning samruna félaganna kemur fram, að í aðdraganda sameiningar verði eigið fé Kviku lækkað um 600 m.kr. og lækkunin greidd til hluthafa bankans.

Samkvæmt samkomulagi VÍS við seljendur hlutafjár í Kviku verður gengi hins selda og kaupverðið leiðrétt til samræmis ef arður er greiddur áður en afhending hlutanna fer fram til VÍS. Jafnframt skal leiðrétta fjölda hlutanna, gengi og kaupverð hins selda ef lækkun hlutafjár á sér stað með greiðslu til hluthafa fyrir afhendingu hlutanna til VÍS. Eins og fram kom í fyrri tilkynningu eru kaupin gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins á hæfi VÍS til að fara með virkan eignarhlut í Kviku.

Stjórn VÍS skilgreindi áhættuvilja félagsins í ágúst 2015 með þeim hætti að gjaldþolshlutfall þess sé 1,50. Í lok þriðja ársfjórðungs 2016 var gjaldþolshlutfallið 1,83. Kaupin falla mjög vel að áhættuvilja félagsins.

Frekari upplýsingar: Jakob Sigurðsson forstjóri VÍS, s. 660 5179.