Samkomulag um niðurfellingu máls Lífsverks gegn VÍS og fleirum


Vátryggingarfélag Íslands hf. (VÍS) hefur, í samráði við endurtryggjendur, komist að samkomulagi við stjórn Lífsverks lífeyrissjóðs og aðra málsaðila um að fella niður dómsmál sem áfrýjað hafði verið til Hæstaréttar með greiðslu samkomulagsbóta að fjárhæð 835 milljónir kr. Vegna endurtrygginga nemur hlutur VÍS 15% af heildar samningsbótum eða um 125 milljónir kr., sem er innan þess kostnaðar sem gert hafði verið ráð fyrir í tjónaskuld hefði málið tapast fyrir Hæstarétti. Greiðsla VÍS felur í sér heildargreiðslu og uppgjör á öllum kröfum á hendur félaginu vegna málsins.

Lífsverk, sem er lífeyrissjóður háskólamenntaðra, höfðaði mál gegn VÍS og fyrrum stjórnendum lífeyrissjóðsins á síðasta ári. Sjóðurinn krafðist greiðslu skaðabóta úr ábyrgðartryggingu hjá VÍS vegna starfa stjórnar og stjórnenda lífeyrissjóðsins á árinu 2008. Í apríl á síðasta ári komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að VÍS bæri að greiða sjóðnum rúmar 852 milljónir kr. en að auki rúmar 754 milljónir kr. í vexti og dráttarvexti, samtals um 1,6 milljarð króna. 

Við undirbúning áfrýjunar til Hæstaréttar síðasta sumar kom í ljós ákveðin óvissa um afstöðu endurtryggjenda til þátttöku þeirra í greiðslu vaxta umfram hámarksfjárhæð vátryggingarinnar. Þeir töldu sér ekki  skylt að taka þátt í greiðslu vaxta og kostnaði félagsins umfram hámarksfjárhæð vátryggingarinnar, að frádreginni eigin áhættu VÍS sem er 15%. VÍS taldi þó að endurtryggjendum bæri að öllu leyti að fylgja þeim skuldbindingum VÍS sem kynnu að stofnast við dóm Hæstaréttar, samkvæmt ákvæði í endurtryggingasamningi.

Óvissu um endanlega niðurstöðu málsins hefur nú verið eytt og telur VÍS að niðurstaðan sé góð fyrir alla samningsaðila. Með samkomulaginu fallast samningsaðilar á að þeir eigi engar frekari kröfur á hendur hvor öðrum. Samkomulagið felur ekki í sér í viðurkenningu á bótaskyldu eða röksemdum gagnaðila.  

Að öðru leyti er vísað í tilkynningar félagsins til markaðarins þann 25. apríl, 26. apríl, 3. júní og 24. júní 2016 um þetta mál.

Nánari upplýsingar: Guðný Helga Herbertsdóttir, fjarfestatengsl@vis.is.