Nýherji hf. - Uppgjör 1. ársfj. 2017

Kröftugur tekjuvöxtur og ágæt afkoma á fyrsta ársfjórðungi


Tekjur á fyrsta fjórðungi jukust um 20% og EBITDA nam 242 mkr. Eiginfjárhlutfall í 40%. 

Helstu upplýsingar:  

·         Sala á vöru og þjónustu nam 3.996 mkr á fyrsta ársfjórðungi (20% tekjuvöxtur frá F1 2016) [F1 2016: 3.332]

·         Framlegð nam 976 mkr (24,4%) á fyrsta ársfjórðungi [F1 2016: 885 mkr (26,6%)]

·         EBITDA nam 242 mkr (6%) á fyrsta ársfjórðungi [F1 2016: 180 mkr (5,4%)]

·         Heildarhagnaður á fyrsta ársfjórðungi nam 71 mkr (1,8%) [F1 2016: 38 mkr (1,1%)]

·         Eiginfjárhlutfall var 39,7% í lok fyrsta ársfjórðungs, samanborið við 33,7% í lok árs 2016

·         Vaxtaberandi langtímaskuldir voru greiddar niður um 300 mkr á fyrsta ársfjórðungi

·         Starfsmenn innleystu kauprétti að kaupverði 149 mkr á fyrsta ársfjórðungi, kom til greiðslu í byrjun apríl

Finnur Oddsson, forstjóri:

„Rekstur samstæðunnar gekk um margt vel á fjórðungnum og er á áætlun. Við erum ánægð með ágæta afkomu og áframhaldandi tekjuaukningu, um 20% á milli ára. Gott gengi að undanförnu hefur gert okkur kleift að grynnka verulega á skuldum og styrkja eiginfjárstöðu, sem hefur sjaldan verið sterkari. 

Sala á tölvum og hljóð- og myndlausnum er sem fyrr stór hluti af okkar starfsemi en tekjur af hýsingar- og rekstrarþjónustu aukast heldur meira, m.a. vegna nýrra verkefna á borð við upplýsingatæknirekstur fyrir Arion banka frá því í byrjun árs. 

Vöxtur hugbúnaðartengdrar starfsemi dregur vagninn í tekjuvexti félagsins eins og síðustu fjórðunga og áhersla á vöruþróun og sölu eigin lausna hefur aukist. Til marks um það hafa áskriftartekjur í Kjarna, launa- og mannauðslausn Applicon, nálægt þrefaldast á milli ára og vinna við nýsköpunar- og þróunarverkefni lofar góðu. Innleiðing á kjarnabankakerfum fyrir SBAB í Svíþjóð fer vel af stað og felur í sér umtalsverða vinnu fyrir sérfræðinga þar og á Íslandi. Tekjuvöxtur er áfram sterkur hjá TM Software, afkoma góð og unnið að spennandi vöruþróunverkefnum. Hjá Tempo gengur áfram vel og tekjur á fjórðungnum námu 4,4 mUSD, sem er 46% aukning.  Viðskiptavinur númer 10.000 slóst í hópinn, sem er stór áfangi og endurspeglar styrk lausna Tempo. Samstarfs- og söluaðilar Tempo eru nú yfir 100 á heimsvísu, um fimmtungur starfsfólks vinnur nú í Kanada og Bandaríkjunum og stefnt að frekari fjölgun þar. 

Ágæt eftirspurn er á flestum sviðum samstæðunnar, einkum eftir hýsingar- og rekstrarþjónustu og hugbúnaðarlausnum af ýmsu tagi. Horfur eru því góðar.“

Nánari upplýsingar

Finnur Oddsson forstjóri í síma 862-0310 eða fo@nyherji.is og Gunnar Petersen framkvæmdastjóri fjármálasviðs í síma 825-9001 eða gp@nyherji.is.

Sjá viðhengi.


Attachments

2017.04.27 - Fréttatilkynning Árshlutauppgjör F1 2017.pdf Nýherji árshlutareikningur 31.3.2017.pdf