Source: Eimskipafelag Islands hf.

VÖXTUR Í TEKJUM OG MAGNI EN AFKOMA UNDIR VÆNTINGUM

  • Tekjur námu 155,5 milljónum evra, hækkuðu um 12,0 milljónir evra eða 8,4% frá Q1 2017
    • Magn í áætlunarsiglingum jókst um 4,0% og tekjur hækkuðu um 8,5 milljónir evra eða 9,3%
    • Magn í flutningsmiðlun jókst um 10,0% og tekjur hækkuðu um 3,5 milljónir evra eða 6,8%
  • EBITDA nam 7,3 milljónum evra, dróst saman um 2,1 milljón evrur eða 22,1% frá Q1 2017
  • Tap nam 1,6 milljónum evra samanborið við 0,2 milljóna evra hagnað Q1 2017
  • Eiginfjárhlutfall var 49,3% og nettóskuldir námu 115,8 milljónum evra í lok mars
  • Afkomuspá fyrir árið 2018 er 57-63 milljónir evra


GYLFI SIGFÚSSON FORSTJÓRI

„Fyrsti ársfjórðungur ársins 2018 var krefjandi þar sem EBITDA nam 7,3 milljónum evra og tap á fjórðungnum nam 1,6 milljónum evra. Félagið er að fara í gegnum umbreytingarferli með fjárfestingum til framtíðar í nýju vikulegu siglingakerfi. Það mun taka tíma að byggja upp magn fyrir vikulega þjónustu en við erum bjartsýn á áætlanir okkar og útlitið varðandi bókanir er jákvætt. Rekstrartekjur fjórðungsins voru 155,5 milljónir evra samanborið við 143,5 milljónir evra á sama tímabili í fyrra, eða aukning um 12,0 milljónir evra eða 8,4%. Tekjuvöxturinn skýrist aðallega vegna aukins flutningsmagns í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi og í flutningsmiðlun.

Rekstrargjöld félagsins námu 148,3 milljónum evra samanborið við 134,2 milljónir evra á fyrsta fjórðungi 2017 og jukust um 14,1 milljón evrur. Megin ástæða þess að rekstrargjöld eru að hækka umfram aukningu í tekjum er til komin vegna kostnaðar tengdum aukningu á afkastagetu siglingakerfisins en félagið bætti við tveimur skipum í flotann samanborið við sama tímabil í fyrra. Kostnaður tengdur aukinni afkastagetu siglingakerfisins jókst um 2,5 milljónir evra. Hækkun rekstrargjalda má einnig rekja til aukins olíukostnaðar, hærri launakostnaðar og kostnaðar í tengslum við skil á leigugámum. Á öðrum ársfjórðungi er gert ráð fyrir að flutningsmagn aukist í tengslum við samning við CMA CGM á grænu leiðinni á milli Halifax og Portland, Maine. Á öðrum ársfjórðungi er einnig gert ráð fyrir að flutningar hefjist á vöru fyrir nýja verksmiðju PCC á Húsavík.

Magn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 4% á fyrsta ársfjórðungi 2018. Innflutningur til Íslands var hins vegar undir áætlunum, aðallega vegna samdráttar í innflutningi á bílum. Útflutningur frá Íslandi hefur farið vaxandi vegna aukins flutningsmagns á ferskum og frosnum fiski, þrátt fyrir slaka loðnuvertíð. Flutningsmagn í Trans-Atlantic hefur aukist jafnt og þétt en meira þarf til að vinna upp kostnað tengdum aukningu í afkastagetu. Eimskip vinnur stöðugt að því að fínstilla siglingakerfið og finna leiðir til að skera niður kostnað.

Innflutningur til Færeyja jókst á tímabilinu en útflutningur var undir væntingum og Noregur var í samræmi við fyrsta ársfjórðung 2017 með smávægilegum vexti á norðurleiðinni.

Magn í flutningsmiðlun jókst um 10% sem skýrist af auknu flutningsmagni af þurrvöru á meðan kæli- og frystivaran dróst saman sem stafar aðallega af erfiðum aðstæðum á Afríku landssvæðinu.

16% lækkun dollars gagnvart evru samanborið við fyrsta ársfjórðung í fyrra hafði neikvæð áhrif á afkomuna.

Fyrsti ársfjórðungur er sá fjórðungur sem skilar að jafnaði lægstri framlegð í rekstri félagsins, líkt og á almennt við um skipafélög á heimsvísu. Undanfarin fimm ár hefur fyrsti ársfjórðungur í rekstri félagsins skilað að meðaltali 16,5% af afkomu ársins. Félagið vinnur að fjölda umbótaverkefna með það að markmiði að bæta rekstur félagsins og arðsemi. Afkomuspá félagsins er EBITDA á bilinu 57 til 63 milljónir evra.“


FREKARI UPPLÝSINGAR

  • Gylfi Sigfússon forstjóri, sími: 525 7202
  • Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs, sími: 525 7202
  • Hallgrímur Björnsson, fjárfestatengsl, sími: 825 7212, netfang: investors@eimskip.is

Viðhengi