Erfitt rekstrarár að baki


  • Heildartekjur námu 1.511 milljónum USD og jukust um 7% á árinu 2018.
  • EBITDA ársins var 76,5 milljónir USD samanborið við 170,1 milljón USD árið 2017.
  • Tap ársins eftir skatta var 55,6 milljónir USD samanborið við hagnað að fjárhæð 37,5 milljónir USD árið 2017.
  • EBITDA á fjórða ársfjórðungi var neikvæð um 35,0 milljónir USD og lækkar á milli ára.
  • Lág meðalfargjöld, hækkun olíuverðs og kolefnisheimilda og  mun verri afkoma innanlandsflugs skýra lækkun EBITDA milli ára á fjórða ársfjórðungi.
  • Eiginfjárhlutfall í lok ársins er 32%.
  • Handbært fé nam 299,5 milljónum USD.

Bogi Nils Bogason, forstjóri:

„Árið 2018 var erfitt rekstrarár. Rekstarniðurstaðan var mun lakari en lagt var upp með í byrjun árs og endurspeglar harða samkeppni í millilandaflugi, lág og oft ósjálfbær fargjöld og mikla hækkun eldsneytisverðs. Jafnframt höfðu breytingar á sölu- og markaðsstarfsemi félagsins, sem og ójafnvægi í leiðarkerfi neikvæð áhrif á afkomuna, eins og áður hefur verið kynnt.

Markmið okkar er skýrt; að bæta arðsemi og rekstur félagsins til framtíðar. Nú þegar hafa verið gerðar breytingar á skipulagi félagsins sem endurspegla áherslur á kjarnastarfsemina, flugrekstur. Unnið er að  fjölmörgum aðgerðum bæði á tekju- og kostnaðarhlið sem eiga að skila sér í bættum rekstri strax á árinu 2019. Þar má meðal annars nefna breytingu á framboði sem stuðlar að betra jafnvægi milli Evrópu og N-Ameríku í leiðarkerfi félagsins sem auðveldar stýringu þess og hámörkun tekna. Þá höfum við lagt aukna áherslu á hliðartekjur sem þegar hefur skilað árangri, sölu- og markaðsstarf félagsins verið eflt, auk þess sem innleiðing á nýju tekjustýringakerfi er á lokametrunum. Í vor, til viðbótar við núverandi tengibanka, hefst flug í nýjum tengibanka sem mun bæta nýtingu flota og flugáhafna, auka framboð og tekjur félagsins. Þar að auki er unnið að endurskoðun innanlandsflugs félagsins.

Ljóst er að áfram ríkir óvissa í rekstrarumhverfi félagsins auk þess sem breytingar eru að eiga sér stað í samkeppnisumhverfinu. Það býr hins vegar mikill kraftur og þekking í félaginu og starfsfólki okkar. Fjárhagstaðan er sterk og ég er sannfærður um að við séum vel í stakk búin til að takast á við þær áskoranir og grípa þau tækifæri sem framundan eru.“


Frekari upplýsingar veitir:
Bogi Nils Bogason, forstjóri, sími: 5050-100

Viðhengi


Attachments

Fréttatilkynning Q4 2018