Með vísan til fyrri tilkynningar félagsins þann 23. nóvember sl. hefur tilboð Loftleiða Cabo Verde á 51% hluta í ríkisflugfélaginu Cabo Verde Airlines á Grænhöfðaeyjum verið samþykkt. Undirskrift kaupsamnings er áætluð á morgun föstudaginn 1. mars. Icelandair Group telur að miklir möguleikar séu fyrir hendi til að byggja félagið upp sem öflugt tengiflugfélag með Grænhöfðaeyjar sem tengimiðstöð á milli heimsálfa. Mun sú reynsla og þekking sem orðið hefur til í sams konar rekstri Icelandair þar með nýtast Cabo Verde Airlines.

Loftleiðir Icelandic, sem er dótturfélag Icelandair Group, er eigandi að 70% hlut í Loftleiðum Cabo Verde en aðrir hluthafar eiga 30%. Kaupin hafa óveruleg áhrif á reikningsskil Icelandair Group þar sem Cabo Verde Airlines mun ekki verða hluti af samstæðureikningi Icelandair Group. Eignarhluturinn verður færður á meðal hlutdeildarfélaga.

Nánari upplýsingar veitir Erlendur Svavarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Loftleiða Icelandic.

Netfang: esv@loftleidir.com