Aðalfundur Arion banka 2019


Aðalfundur Arion banka 2019 var haldinn í dag, miðvikudaginn 20. mars, í höfuðstöðvum bankans í Borgartúni. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf þar sem ársreikningur bankans var samþykktur. Breytingar voru samþykktar á launum stjórnar í samræmi við þróun launavísitölu sem fela í sér um 5% hækkun á milli ára. Jafnframt var samþykkt að laun tilnefningarnefndar haldast óbreytt. Einnig var starfskjarastefna bankans samþykkt og ákveðið var að Deloitte ehf. gegni áfram hlutverki sínu sem endurskoðandi bankans.

Tillaga stjórnar um 10 milljarða króna arðgreiðslu, sem nemur 5 krónum á hlut, var samþykkt sem og lækkun á hlutafé til jöfnunar á eigin hlutum bankans. Samþykkt var heimild til stjórnar til að kaupa allt að 10% af hlutafé bankans. Jafnframt fékk stjórn heimild til útgáfu skuldabréfa sem falla undir viðbótar eigin fjár þátt 1.

Á fundinum voru eftirfarandi aðilar endurkjörnir í stjórn bankans: Benedikt Gíslason, Brynjólfur Bjarnason, Herdís Dröfn Fjeldsted og Steinunn Kristín Þórðardóttir. Jafnframt voru Liv Fiksdahl og Renier Lemmens kjörin ný í stjórn bankans en Eva Cederbalk og Måns Höglund sóttust ekki eftir endurkjöri.  Brynjólfur Bjarnason var kjörinn formaður stjórnar og Herdís Dröfn Fjeldsted varaformaður.

Ólafur Örn Svansson og Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir voru endurkjörin varamenn í stjórn bankans. Þá var Þröstur Ríkharðsson kjörinn nýr varamaður.

Í tilnefningarnefnd bankans voru kjörnir Christopher Felix Johannes Guth og Sam Taylor.

Nánar má lesa um samþykktir aðalfundar á vef bankans.

Skýrsla stjórnar 2018:
Eva Cederbalk, fráfarandi stjórnarformaður Arion banka flutti skýrslu stjórnar. Eftirfarandi er úr hennar skýrslu:

„Það er einstaklega ánægjulegt að á árinu 2018 fór fram vel heppnað alþjóðlegt almennt hlutafjárútboð þar sem um 30% hlutur í bankanum var boðinn alþjóðlegum og innlendum fjárfestum. Voru um 70% hlutabréfanna seld til alþjóðlegra fjárfesta. Í kjölfarið var Arion banki skráður á aðallista Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm. Mikilvægur áfangi og góður vitnisburður um þann mikla árangur sem náðst hefur á undanförnum 10 árum.“

„Nýlega stóðu stjórnvöld að útgáfu hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi. […] Ákveðin vonbrigði eru að ekki hafi verið sterkar að orði kveðið varðandi afnám sértækra álagna á bankakerfið og þá sérstaklega bankaskattsins, sem við teljum mikilvægt jafnréttismál. Bankaskatturinn, sem er í raun skattlagning á innlán og skuldabréfafjármögnun íslenskra fjármálafyrirtækja, er um 10 sinnum hærri á Íslandi en tíðkast hjá þeim fáu Evrópulöndum sem leggja á slíkan skatt. Sambærilegir skattar eru því ekki lagðir á önnur fjármálafyrirtæki sem starfa á hinum sameiginlega evrópska fjármálamarkaði.

Bankaskatturinn bjagar stórlega samkeppnisumhverfið og veldur í raun markaðsbresti. Í honum felst að það er m.a. verið að hygla erlendum bönkum sem bjóða í auknum mæli sína þjónustu hér á landi sem og innlendum lífeyrissjóðum sem bjóða sínum sjóðfélögum íbúðalán á kjörum sem bankarnir geta ekki keppt við sökum álagna og krafna sem á þá eru lagðar en lífeyrissjóðir eru undanskildir.

Þegar samkeppnisstaðan er ójöfn með þessum hætti er grafið undan bankakerfinu og samkeppnisaðilum þess og hvers kyns skuggabankastarfsemi hyglt. Við hefðum því viljað sjá sterkar að orði kveðið hvað varðar afnám skattsins og lítum á það sem réttlætismál að þessi skattur verði afnuminn hraðar en fyrirhugað er.”

„Arion banki byggir í dag starfsemi sína á traustum grunni. Bankinn nýtur sterkrar stöðu á þeim mörkuðum sem hann starfar á og er í forystu þegar kemur að stafrænni fjármálaþjónustu. Stafræn þjónusta og aukin sjálfvirkni er mikilvægur þáttur í að auka bæði skilvirkni starfseminnar og tekjur. Það er skýrt markmið að halda áfram á þessari braut, auka skilvirkni og samkeppnishæfni bankans, svo fjárhagsleg markmið náist.“

Eva Cederbalk, sem sóttist ekki eftir endurkjöri í stjórn bankans, lauk máli sínu á því að þakka samstarfsfólki í stjórn bankans sem og stjórnendum og starfsfólki bankans fyrir ánægjulegt samstarf á undanförnum tveimur árum.

Uppgjör Arion banka á árinu 2018
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, kynnti afkomu bankans árið 2018. Höskuldur sagði afkomu bankans á árinu 2018 hafa verið undir væntingum þrátt fyrir stöðugleika í kjarnastarfsemi bankans, s.s. í vaxta- og þóknanatekjum og góðan vöxt í tekjum af tryggingum. Niðurfærslur og óhagstæðir verðbréfamarkaðir höfðu hins vegar veruleg neikvæð áhrif. Afkoma ársins nam 7,8 milljörðum króna, og arðsemi eiginfjár var 3,7%. Eiginfjárhlutfall í árslok var 22%.

Höskuldur ræddi þann mikilvæga áfanga sem náðist á árinu þegar haldið var almennt hlutafjárútboð og bankinn í kjölfarið skráður samhliða á markað á Íslandi og í Svíþjóð. Markaðsvirði bankans við skráningu var um 135 milljarðar króna og var bankanum sýndur mikill áhugi í aðdraganda hlutafjárútboðsins. Fór svo að lokum að eftirspurn varð margföld og kom frá innlendum og alþjóðlegum fjárfestum, fyrst og fremst frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Íslandi, Þýskalandi og Svíþjóð.

Höskuldur sagði að áfram yrði unnið markvisst að þeim fjárhagslegu markmiðum sem bankinn hefur kynnt t.a.m. varðandi eiginfjárþátt 1, kostnaðarhlutfall og arðsemi. Unnið sé að því að stilla rekstur bankans af þannig að þessi markmið náist. Í því samhengi er m.a. lögð áhersla á kostnaðaraðhald og þegar hafa verið sett af stað verkefni með það að markmiði að draga úr rekstrarkostnaði. Nýtur bankinn þar m.a. góðs af þeirri stafrænu vegferð sem hann er á.

Á árinu 2018 kynnti Arion banki til leiks níu nýjar stafrænar lausnir og hlaut þrenn alþjóðleg verðlaun fyrir bæði nálgun sína við þróun stafrænna lausna og fyrir lausnirnar sjálfar. Í þessu sambandi ræddi Höskuldur hvernig bankinn væri að aðlaga útibúanet bankans að stafrænni þjónustu. Á árinu var sex útibúum lokað og tvær nýjar afgreiðslur opnaðar með áherslu á stafræna þjónustu. Hefur með því náðst fram margvíslegt hagræði, m.a. hefur dregið verulega úr þeim fermetrum sem fara undir starfsemina og minnkaði fermetrafjöldinn á höfuðborgarsvæðinu um hátt í 40%.

Höskuldur kom jafnframt inn á þau fjölmörgu verkefni sem snúa að ábyrgri fjármálastarfsemi og sjálfbærni. Nefndi hann sérstaklega að bankinn hefði á árinu fengið heimild til að nota jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins, endurskoðun lánareglna bankans, þar sem nú er sérstaklega kveðið á um að við lánaákvarðanir skuli sérstaklega horft til þátta sem snúa að samfélagsábyrgð, og hins vegar vinnu innan eignastýringar bankans þar sem skráð fyrirtæki hafa verið metin út frá samfélags- og umhverfisþáttum.

Fram kom í máli Höskuldar að í undirbúningi væri fyrirhugað söluferli Valitor og að stefnt væri að því að markaðssetning á félaginu myndi hefjast á næstunni.

Að lokum þakkaði Höskuldur fráfarandi stjórnarmönnum, þeim Evu Cederbalk og Måns Höglund, fyrir samstarfið og þeirra framlag á undanförnum árum.

Nánari upplýsingar um aðalfund Arion banka hf. má nálgast á vef bankans og hjá Sture Stölen, forstöðumanni fjárfestatengsla Arion banka, ir@arionbanki.is og Theódóri Friðbertssyni, fjárfestatengslum Arion banka, theodor.fridbertsson@arionbanki.is, s. 856 6760.

Viðhengi


Attachments

Ræða stjórnarformanns Kynning bankastjóra