PAR Capital Management gerir bindandi samkomulag um kaup á 11,5% hlut í Icelandair Group


Þann 30. nóvember 2018 samþykkti hluthafafundur Icelandair Group að auka hlutafé félagins um allt að 625.000.000 hluti. Icelandair Group og PAR Capital Management, fjárfestingarsjóður í Boston, hafa í dag náð samkomulagi um kaup PAR Capital Management og tengdra félaga á öllum hinna 625.000.000 nýju hluta. Kaupverðið er 9,03 kr. á hlut og heildarkaupverð því 5.643.750.000 kr. Kaupin svara til 11,5% hlutar í Icelandair Group. Kaupverðið samsvarar meðaldagslokagengi síðustu þriggja mánaða. Samkomulagið er bundið fyrirvara um samþykki hluthafafundar og því að hluthafar afsali sér forgangsrétti að hinum nýju hlutum. Icelandair Group mun boða til hluthafafundar sem haldinn verður 24. apríl nk.

Hlutafjáraukningin mun styrkja fjárhagsstöðu félagsins enn frekar og gera því betur kleift að nýta þau vaxtartækifæri sem núverandi aðstæður á flugmarkaði kunna að fela í sér.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group

PAR Capital Management er góð viðbót við sterkan hluthafahóp félagsins og er það mat okkar að aðkoma PAR Capital Management að hluthafahópnum verði verðmæt fyrir Icelandair Group. Það er ennfremur ánægjulegt að svo stór og öflugur fjárfestir deili trú okkar á framtíðarhorfur félagsins.”

Um PAR Capital Management

PAR Capital Management er fjárfestingarsjóður staðsettur í Boston sem hefur 4 milljarða bandaríkjadala í stýringu. Sjóðurinn var stofnaður árið 1990 og leggur áherslu á langtímafjárfestingar í ferðaþjónustu og stafrænum miðlum.

Nánari upplýsingar veitir:
Bogi Nils Bogason, forstjóri.
bogi@icelandairgroup.is; sími: 50 50 300