EIMSKIP: Umtalsvert betri EBITDA afkoma á fyrsta ársfjórðungi 2019 samanborið við sama tímabil 2018


Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir fyrsta ársfjórðung 2019 lítur út fyrir að EBITDA afkoma félagsins verði hagstæðari en stjórnendur gerðu ráð fyrir og að afkoman verði á bilinu 10,3 til 10,7 milljónir evra en til samanburðar var EBITDA afkoman á fyrsta ársfjórðungi 2018 7,3 milljónir evra.

Helstu ástæður fyrir betri afkomu milli ára eru aukin umsvif í flutningum í Trans-Atlantic og Færeyjum auk bættrar afkomu í rekstri félagsins í Noregi. Þá hefur afkoma í flutningsmiðlun verið betri en á sama tíma í fyrra og hagræðingaraðgerðir sem farið var í á síðasta ári hafa einnig skilað sér í bættri afkomu.

Í ljósi betri afkomu á fyrsta ársfjórðungi en gert var ráð fyrir og miðað við núverandi forsendur þrengir félagið bilið í afkomuspá sinni og gerir nú ráð fyrir EBITDA á bilinu 51 til 57 milljónir evra samanborið við 49 til 57 milljónir evra sem birt var samhliða ársuppgjöri fyrir árið 2018. Ekki þykir ástæða á þessum tímapunkti til að hækka efri mörk afkomuspárinnar þar sem enn ríkir nokkur óvissa í íslensku efnahagslífi, áhrif loðnubrests eru ekki að fullu komin fram sem og stöðunnar almennt á alþjóðlegum flutningamörkuðum.

Ofangreindar tölur taka ekki tillit til áhrifa reikningsskila staðals IFRS16 á EBITDA afkomu.

Félagið vinnur enn að uppgjöri ársfjórðungsins og afkoman og afkomuspá geta tekið breytingum í uppgjörsferlinu.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sigurðsson í síma 825 7319 og á netfanginu investors@eimskip.is