• Heildartekjur námu 248,6 milljónum USD og lækkuðu um 7% á milli ára.
  • EBITDA var neikvæð um 14,7 milljón USD, batnar um 19% á milli ára.
  • Án áhrifa IFRS16 er EBITDA neikvæð um 29,3 milljónir USD.
  • 13% fjölgun farþega til Íslands.
  • Eiginfjárhlutfall í lok mars var 23% samanborið við 32% í lok árs 2018.
  • Án áhrifa IFRS16 er eiginfjárhlutfallið 28%.
  • Handbært fé nam 289 milljónum USD í lok fjórðungsins.

 

Bogi Nils Bogason, forstjóri

„Farþegum félagsins til Íslands fjölgaði um 13% á fyrsta ársfjórðungi, farþegum frá Íslandi um 10% en farþegum milli Evrópu og N-Ameríku fækkaði um 2%. Rekstur félagsins var hins vegar krefjandi eins og við bjuggumst við og var rekstrarniðurstaðan í takt við áætlanir. Þróun fargjalda var neikvæð milli ára, sem skýrist meðal annars af mikilli samkeppni við flugrekendur sem boðið hafa upp á ósjálfbær fargjöld. Jafnframt var áframhaldandi þrýstingur á fargjöld milli Evrópu og N-Ameríku. Innleiðingar- og þjálfunarkostnaður vegna sex nýrra flugvéla sem félagið hafði gert ráð fyrir að taka í notkun hafði neikvæð áhrif auk þess sem einskiptiskostnaður féll til vegna kyrrsetningar B737 MAX flugvéla.

Flugrekstur er í eðli sínu sveiflukenndur og útsettur fyrir snörpum breytingum í markaðsumhverfinu, breytingum á fjármagnsmörkuðum sem og óvæntum atburðum. Icelandair Group hefur því lagt áherslu á að tryggja fjárhagslegan stöðugleika á hverjum tíma með því að viðhalda sterkum efnahagsreikningi. Sterk fjárhagsstaða og sveigjanleiki Icelandair Group gerir félaginu kleift að takast á við krefjandi aðstæður en ekki síður til þess að nýta tækifæri vegna breytinga á samkeppnisumhverfinu. Þær breytingar sem áttu sér stað undir lok fyrsta ársfjórðungs skapa Icelandair Group tækifæri til arðbærs innri vaxtar. Til skamms tíma tefur kyrrsetning B737 MAX vélanna jákvæð áhrif þessara breytinga.

Langtímahorfur félagsins eru góðar og með samstilltu átaki um mótun og innleiðingu heildstæðrar stefnu, er framtíð íslenskrar ferðaþjónustu björt. Það er ánægjulegt að reynslumikill alþjóðlegur fjárfestir deili þessari framtíðarsýn með okkur en kaup bandaríska fjárfestingarsjóðsins PAR Capital Management á 11,5% hlut í félaginu fyrir um 47 milljónir USD (rúma 5,6 milljarða) voru kynnt í apríl sl. Fjárfestingin mun efla félagið enn frekar og styrkja samkeppnishæfni þess til framtíðar.“

 

Kynningarfundur og vefútsending 6. maí 2019

Opinn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn mánudaginn 6. maí 2019 á Icelandair Hótel Reykjavík Natura. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, og Eva Sóley Guðbjörnsdóttir framkvæmdastjóri fjármála munu kynna afkomuna og svara spurningum ásamt öðrum stjórnendum félagsins. Kynningin hefst kl. 8:30 í sal 2. Morgunverður í boði frá kl. 8:00. Kynningarefni vegna fundarins verður hægt að nálgast að honum loknum á heimasíðu Icelandair Group: www.icelandairgroup.is og í fréttakerfi Nasdaq OMX Iceland hf.

Hægt verður að fylgjast með fundinum beint á vefslóðinni:
http://www.icelandairgroup.is/investors/reports-and-presentations/webcast-next/


Upplýsingar:

Markaðsaðilar: Íris Hulda Þórisdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla. Netfang: iris@icelandairgroup.is
Fjölmiðlar: Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi. Netfang: asdis@icelandair.is

Viðhengi