Icelandair hefur nú uppfært flugáætlun sína fram til 15. september nk. þar sem útlit er fyrir að kyrrsetning Boeing 737 MAX flugvéla muni vara lengur en áður hafði verið áætlað.

Eins og fram hefur komið hefur félagið nú þegar tekið þrjár leiguvélar í notkun til þess að lágmarka áhrif kyrrsetningarinnar á farþega. Þessu til viðbótar er unnið að lokafrágangi  samnings um leigu á einni Boeing 767-300 vél til viðbótar.

Vinna varðandi þessar breytingar mun hefjast á næstu dögum og munu starfsmenn Icelandair hafa samband við viðkomandi farþega.

Við þessar breytingar dregst sætaframboð félagsins á tímabilinu 15. júlí til 15. september saman um 5% frá því sem áður var áætlað. Eftir breytinguna er framboðsaukning milli ára á þessu tímabili samt sem áður 10%. Félagið leggur nú megináherslu á fjölgun farþega á mörkuðunum til og frá Íslandi og eiga rúmlega 30% fleiri farþegar bókað með félaginu til Íslands á tímabilinu júní – ágúst en á sama tíma í fyrra.

Fjárhagsleg áhrif kyrrsetningarinnar eru óviss á þessu stigi, m.a. vegna þess að ekki liggur fyrir hversu mikið af þeim kostnaði sem hlýst af kyrrsetningunni fæst bættur frá framleiðanda.


Upplýsingar:

Markaðsaðilar: Íris Hulda Þórisdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla. Netfang: iris@icelandairgroup.is
Fjölmiðlar: Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi. Netfang: asdis@icelandair.is