Reginn hf.: Tilkynning um framkvæmd endurkaupaáætlunar


Aðalfundur Regins hf., sem haldinn var 14. mars 2019, veitti stjórn félagsins heimild til að kaupa allt að 182.624.396 eigin hluti í félaginu, en það jafngildir 10% af útgefnu hlutafé félagsins, í þeim tilgangi að setja upp formlega endurkaupaáætlun.

Stjórn Regins hf. hefur á grundvelli framangreindrar heimildar tekið ákvörðun um kaup á eigin hlutum samkvæmt endurkaupaáætlun í þeim tilgangi að lækka útgefið hlutafé félagsins. Endurkaupin munu nema að hámarki 21.929.825 hlutum, þó þannig að heildarkaupverð verði ekki hærra en kr. 500.000.000, og að eigin hlutir fari ekki umfram 1,20% af heildarhlutafé félagsins. Gert er ráð fyrir að endurkaup samkvæmt áætluninni hefjist 7. júní 2019 og ljúki í síðasta lagi til og með 30. nóvember 2019.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans hf. mun hafa umsjón með framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar og taka allar viðskiptaákvarðanir er varða kaup á hlutum og tímasetningu kaupanna óháð félaginu.

Framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar verður í samræmi við lög um hlutafélög nr. 2/1995 og viðauka við reglugerð um innherjaupplýsingar og markaðssvik nr. 630/2005.

Kaup samkvæmt endurkaupaáætluninni verða framkvæmd í áföngum, þó þannig að kaup hvers dags munu að hámarki nema 1.250.038 hlutum, eða sem nemur 25% af meðaltali daglegra viðskipta með hlutabréf í félaginu á Aðalmarkaði Kauphallar Íslands hf. í maí 2019. Endurgjald fyrir keypta hluti skal ekki vera hærra en sem nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í þeim viðskiptakerfum þar sem viðskipti með hlutina fara fram, hvort sem er hærra.

Viðskipti félagsins með eigin hluti á grundvelli endurkaupaáætlunarinnar verða tilkynnt eigi síðar en við lok sjöunda viðskiptadags eftir að viðskiptin fara fram.

Reginn hf. á ekki eigin hluti áður en endurkaup samkvæmt endurkaupaáætluninni hefjast.


Nánari upplýsingar

Helgi S. Gunnarsson – Forstjóri – helgi@reginn.is – S: 512 8900 / 899 6262