Eimskip: Dómur Landsréttar í máli gegn Fjármálaeftirlitinu


Í dag, 21. júní 2019, kvað Landsréttur upp dóm í máli Eimskipafélags Íslands hf. gegn Fjármálaeftirlitinu og íslenska ríkinu.

Bakgrunnur málsins er sá að Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun í mars 2017 um að Eimskip hefði brotið gegn 1. mgr. 122. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti með því að birta ekki innherjaupplýsingar sem Fjármálaeftirlitið taldi að hefðu komið fram í drögum árshlutareiknings fyrir fyrsta ársfjórðung 2016. Lögð var 50.000.000 króna stjórnvaldssekt á félagið.

Eimskip höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem sýknaði Fjármálaeftirlitið og íslenska ríkið af kröfum félagsins með dómi uppkveðnum í apríl 2018. Eimskip ákvað að áfrýja þeim dómi til Landsréttar.

Niðurstaða Landsréttar er sú að hinn áfrýjaði dómur Héraðsdóms Reykjavíkur er staðfestur. Að mati félagsins var öllum undirbúningi við gerð og birtingu árshlutauppgjörs fyrsta ársfjórðungs 2016 hagað í samræmi við lög og góða stjórnarhætti, enda afkoman í samræmi við birta afkomuáætlun fyrir árið 2016. Þess vegna er niðurstaðan félaginu vonbrigði. Eimskip mun nú yfirfara dóminn og forsendur hans og meta hvort sækja skuli um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.

Recommended Reading