Kvika banki hf.: Breytingar á framkvæmdastjórn


Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, sem hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Kviku undanfarin ár, hefur sagt starfi sínu lausu og hætt störfum.

Nafni fyrirtækjasviðs hefur verið breytt í bankasvið og Magnús Ingi Einarsson ráðinn framkvæmdastjóri sviðsins. Magnús Ingi hefur starfað hjá bankanum frá 2006 og gegnt stöðu framkvæmdastjóra fjármála- og rekstrarsviðs síðan 2015.

Ragnar Páll Dyer hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs en hann hefur starfað hjá Júpíter rekstrarfélagi, sem er dótturfélag Kviku, frá 2010 og gegnt stöðu framkvæmdastjóra hjá félaginu síðan 2013. Gert er ráð fyrir því að Ragnar hefji störf í ágústmánuði en fram að því mun Magnús Ingi gegna stöðu framkvæmdastjóra beggja sviða.

Ákveðið hefur verið að ráðast í stefnumótun á eigna- og sjóðastýringarstarfsemi Kviku og dótturfélögum bankans, Júpíter og Gamma. Eignastýringarstarfsemi innan samstæðu Kviku hefur vaxið mikið á undanförnum árum og eru eignir í stýringu nú ríflega 400 milljarðar kr. Í stefnumótuninni verður m.a. skoðaður sá möguleiki hvort sameina eigi eignastýringarstarfsemi samstæðunnar í hluta eða heild með það að markmiði að styrkja eigna- og sjóðastýringu enn frekar. Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku, mun leiða þá vinnu.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri:

„Mig langar að þakka Ásgeiri Reykfjörð fyrir góð störf hjá Kviku og óska honum velfarnaðar í nýjum verkefnum. Ásgeir hefur starfað hjá bankanum og forverum hans frá árinu 2012 og gegnt lykilhlutverki í að byggja upp þann öfluga banka sem Kvika er í dag.

Í breytingum felast ákveðin tækifæri og ég er ánægður með þær breytingar sem nú eru gerðar. Á bankasviði verða auknar áherslur lagðar á fjártækni sem endurspeglar þær breytingar sem eru að verða á fjármálamarkaði. Á fjármála- og rekstrarsviði verður áfram lögð áhersla á að byggja upp innviði bankans enda tel ég að skilvirkir og traustir innviðir séu forsenda áframhaldandi góðs rekstrarárangurs bankans.

Mikilvægi eigna- og sjóðastýringar bankans hefur aukist mikið á undanförnum árum vegna innri og ytri vaxtar. Ég tel að sú þróun haldi áfram og því er mikilvægt að skipuleggja starfsemina með það að markmiði að ná sem bestum árangri í þjónustu við viðskiptavini.“