Berjaya kaupir Icelandair Hotels og tengdar fasteignir


Stjórn Icelandair Group hf. hefur skrifað undir kaupsamning við Berjaya Property Ireland Limited („Berjaya“), dótturfélag Berjaya Land Berhad um að Berjaya eignist meirihluta í Icelandair Hotels („félaginu“) ásamt þeim fasteignum sem tilheyra hótelrekstrinum.

Berjaya Land Berhad er fyrirtækjasamstæða sem skráð er á skipulegan verðbréfamarkað í Malasíu. Samstæðan er með starfsemi í fjölda atvinnugreina þar á meðal hótelrekstri, smásölu og fasteignaþróun. Berjaya Land Berhad og tengd félög eru með um 4.000 starfsmenn og árlegar tekjur samstæðunnar nema um 1,6 milljarði USD. Stofnandi og stjórnarformaður Berjaya Group er Tan Sri Dato Vincent Tan.

Icelandair Hotels bjóða fjölbreytta gistimöguleika um land allt og er heildarfjöldi herbergjaframboðs félagsins 1.811. Að auki hyggst félagið, í samstarfi við Hilton Hotels, opna nýtt 145 herbergja glæsihótel á Landsímareitnum árið 2020. Tekjur Icelandair Hotels námu 97 milljónum USD árið 2018 og heildarfjöldi starfmanna var 699. EBITDA hótelrekstrarins var 7 milljónir USD og leigutekjur fasteigna tengdum hótelrekstrinum námu 5 milljónum USD. Heildarflatarmál fasteignanna er 17.738 m2 og samanstanda af Hilton Canopy Reykjavík, Icelandair Hótel Akureyri, Icelandair Hótel Mývatni og Icelandair Hótel Héraði.

Samkvæmt kaupsamningnum mun Berjaya eignast 75% hlut í félaginu háð því skilyrði að Icelandair Group haldi eftir 25% hlut í a.m.k. þrjú ár. Samhliða kaupsamningnum hafa Icelandair Group og Berjaya skrifað undir kaup- og söluréttarsamninga vegna hins eftirstandandi 25% hlutar.

Heildarvirði Icelandair Hotels og tengdra fasteigna er 136 milljónir USD. Viðskiptin munu ganga í gegn í árslok 2019, háð  skilyrðum frá báðum aðilum.

Íslandsbanki og HVS London voru ráðgjafar Icelandair Group.

Taurus SLF voru ráðgjafar Berjaya.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group:

“Hinn mikli vöxtur í komum ferðamanna til landsins hefur leitt til mikillar grósku í ferðaþjónustu á Íslandi undanfarin ár. Icelandair Group hefur leikið lykilhlutverk í þeirri þróun, m.a. með því að vera leiðandi afl í uppbyggingu gæðahótela sem bjóða framúrskarandi þjónustu og sanna íslenska upplifun. Nú þegar Icelandair Group hyggst leggja áherslu á kjarnastarfsemi sína, alþjóðlegan flugrekstur, er það okkur mikil ánægja að fá til liðs við hótelin svo reynslumikinn alþjóðlegan fjárfesti. Kaup Berjaya á Icelandair Hotels eru í senn staðfesting á gæðum og virði félagsins og björtum framtíðarhorfum íslenskrar ferðaþjónustu. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka stjórnendum og starfsfólki Icelandair Hotels fyrir þeirra framúrskarandi starf við þróun og uppbyggingu öflugs hótelfélags sem hefur mikla þýðingu og virði fyrir íslenska ferðaþjónustu“

Vincent Tan, stjórnarformaður Berjaya Group Berhad:

“Kaup Berjaya 75% hlut í Icelandair Hotels eru öflug viðbót við safn þeirra 19 hótela sem samstæðan á og rekur í Malasíu, Víetnam, Japan, á Filippseyjum, Sri Lanka, Seychelles og í Bretlandi. Kaupin á íslenska hótelfélaginu bæta nýjum vörumerkjum og 1,811 herbergjum í fjölbreytt framboð hótela Berjaya og gera okkur kleift að bjóða núverandi jafnt sem nýjum viðskiptavinum okkar í Asíu nýja og spennandi norræna upplifun.

Ég tel að fjárfestingin feli í sér mikið framtíðarvirði fyrir hótelstarfsemi samstæðunnar. Við hlökkum til þess að vinna með nýjum samstarfsaðila okkar að frekari vexti og viðgangi Icelandair Hotels. ”

Frekari upplýsingar veitir:

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group
bogi@icelandairgroup.is

Íris Hulda Þórisdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla,
iris@icelandairgroup.is