Kvika banki hf: Tilkynning um nýtingu áskriftarréttinda og hækkun hlutafjár


Stjórn Kviku banka hf. („Kvika“ eða „félagið“) hafa borist þrjár tilkynningar eigenda áskriftarréttinda að hlutum í félaginu, að nafnvirði samtals kr. 29.936.034, um nýtingu réttindanna á genginu 4,16.

Með vísan til samnings um útgáfu áskriftarréttindanna er stjórn skylt að hækka hlutafé til að mæta skuldbindingum samkvæmt réttindunum og grípa til allra annarra ráðstafana sem nauðsynlegar eru til að tryggja skráningu rétthafa sem hluthafa í Kviku, þar með talið að gefa út hlutafé, skrá rétthafa í hlutaskrá og tryggja skráningu þeirra sem rétthafa í verðbréfamiðstöð, sbr. lög nr. 131/1997 um rafræna eignaskráningu verðbréfa.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði III við samþykktir Kviku er stjórn heimilt að auka hlutafé félagsins um allt að kr. 58.635.392 í þeim tilgangi að uppfylla skyldur félagsins samkvæmt útgefnum áskriftarréttindum sem gefin voru út og seld á árinu 2016. Hluthafar hafa ekki forgangsrétt að hinum nýju hlutum.

Stjórn nýtti í dag heimild sína samkvæmt bráðabirgðaákvæði III í samþykktum félagsins til að hækka hlutafé hans í þeim tilgangi að mæta nýtingu framangreindra áskriftarréttinda. Hlutafé bankans hefur því verið hækkað um kr. 29.936.034 og stendur eftir hækkun í kr. 1.874.92.342 að nafnvirði, með útgáfu nýrra hluta. Heimild stjórnar til hlutafjárhækkunar á grundvelli bráðabirgðaákvæðis III mun í kjölfarið vera kr. 28.699.358 að nafnvirði.

Hlutafjárhækkunin verður tilkynnt til og skráð af Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra og nýir hlutir verða gefnir út af Nasdaq verðbréfamiðstöð.

Tveir þeirra aðila sem nýtingin varðar eru félög í eigu aðila í framkvæmdastjórn Kviku. Er þar af leiðandi um að ræða viðskipti aðila fjárhagslega tengda stjórnendum útgefanda sem ber að birta opinberlega. Sérstök tilkynning vegna þeirra viðskipta verður birt samhliða þessari tilkynningu.