Kvika banki hf.: Breyting á áætlaðri afkomu ársins


Við vinnslu á bráðabirgðauppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung hefur komið í ljós að afkoma Kviku á ársfjórðungnum mun líklega leiða til þess að að afkoma bankans á árinu verði á bilinu 2.500 – 2.800 m.kr. fyrir skatta. Í upphafi árs var afkomuspá bankans 1.990 m.kr fyrir skatta en hefur verið hækkuð í tvígang síðan. Hún var hækkuð í 2.700 m.kr. samhliða birtingu uppgjörs fyrsta ársfjórðungs og svo í 2.900 m.kr. samhliða birtingu uppgjörs fyrir annan ársfjórðung.

Væntanleg breyting á afkomuspá ársins skýrist einkum af eftirfarandi:

  • Erfiðum markaðsaðstæðum á verðbréfamörkuðum, einkum á hlutabréfamarkaði.
     
  • Einskiptis gjaldfærslum og endurmati á tilteknum eignum GAMMA.
     
  • Lækkun ógreiddra árangurstengdra þóknana hjá GAMMA vegna fasteignasjóða. Breytingin hefur áhrif til lækkunar á hagnaði fyrir skatta, en áhrif eftir skatta eru hins vegar mun minni. Við kaup á GAMMA var samið um að hluti kaupverðs væri háður skilyrði um að þessar þóknanir yrðu greiddar. Á móti lækkun tekna GAMMA kemur því annars vegar lækkun á greiðslu kaupverðs fyrir GAMMA hjá Kviku og hins vegar lækkun á skattskuldbindingu hjá GAMMA. Þar sem áætlun Kviku er kynnt fyrir skatta þá hefur lækkun þessara þóknana áhrif til lækkunar á áætlun þrátt fyrir að hún hafi lítil áhrif á afkomu eftir skatta.

Þann 30. september síðastliðinn tilkynnti Kvika að lækkun gengis tveggja sjóða Gamma hefði ekki þau áhrif að afkomuspá væri endurskoðuð. Gengislækkun þessara sjóða hafði áhrif á afkomu samstæðunar fyrir skatta en þau áhrif voru það lítil að það leiddi ekki til breytinga á afkomuspá.

Ekki hefur verið gerð breyting á eignfærðu yfirfæranlegu skattalegu tapi á árinu. Bankinn hefur eignfært hluta af yfirfæranlegu skattalegu tapi sínu, að því marki sem líklegt er að það nýtist á móti reiknuðum tekjuskatti í framtíðinni, sem frestaða skatteign á efnahag sínum. Frestaða skatteignin verður endurmetin í árslok samhliða áætlunargerð fyrir næsta ár og ársuppgjöri bankans. Þar sem skattskyldir tekjustofnar bankans hafa aukist á árinu er líklegt að það komi til aukinnar eignfærslu á yfirfæranlegu tapi í árslok.

Afkoma Kviku banka fyrir þriðja ársfjórðung verður birt 14. nóvember 2019.