Source: Reitir fasteignafélag hf.

Reitir hafa gert samkomulag um opnun fyrsta Hyatt hótelsins á Norðurlöndunum

Reitir hafa undirritað sérleyfissamning (e. Franchise Agreement) við Hyatt Hotels Corporation um rekstur hótels í fasteign félagsins að Laugavegi 176 í Reykjavík. Hótelið mun verða um 169 herbergja hótel með allri tilheyrandi starfsemi, svo sem veitingastað, bar, fundaaðstöðu og heilsurækt. Mun hótelið verða fyrsta hótelið sem rekið verður undir merkjum Hyatt á Norðurlöndunum. Vörumerkið leggur áherslu á hátt þjónustustig, vandað efnisval, fallega hönnun og nútímaleg herbergi í háum gæðaflokki.

Framkvæmdir við umbreytingu fasteignarinnar í hótel munu hefjast á síðari hluta næsta árs og er áætlað að hótelið hefji starfsemi sína á síðari hluta ársins 2022. Reitir stefna að því að halda eigninni í eignasafni félagsins til lengri tíma litið, en selja rekstrarfélagið til traustra rekstraraðila.

Fjárfesting Reita í endurbyggingu fasteignarinnar er áætluð um fjórir milljarðar króna og mun stærsti hluti hennar falla til á árinu 2022. Verður hún að stærstum hluta fjármögnuð með lánsfé.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, í síma 660-3320 og á netfanginu gudjon@reitir.is