Reginn hf. - Nýr samningur um viðskiptavakt við Landsbankann


Reginn hf. og Landsbankinn hf. hafa gert með sér nýjan samning um viðskiptavakt á hlutabréfum Regins hf. sem skráð eru í kauphöll Nasdaq Iceland. Öðrum samningum félagsins um viðskiptavakt hefur verið sagt upp.

Tilgangur viðskiptavaktarinnar er að efla viðskipti með hlutabréf Regins í því skyni að markaðsverð skapist á hlutabréfum og verðmyndun verði með skilvirkum og gagnsæjum hætti.

Landsbankinn hf. skuldbindur sig sem viðskiptavaki til að setja daglega fram kaup- og sölutilboð á Nasdaq Iceland í hlutabréf Regins hf. að lágmarki 15.000.000 kr. að markaðsvirði. Tilboð skulu endurnýjuð eins fljótt og unnt er, þó ávallt innan 15 mínútna eftir að þeim er tekið að fullu. Hámarksmagn sem Landsbankinn er skuldbundinn til að kaupa eða selja á hverjum degi er nettó 30.000.000 kr. að markaðsvirði sem reiknast sem mismunur á þeim kaup- og sölutilboðum viðskiptavakans sem gengið er að. Sé hámarksmagni dagsins náð, fellur niður skylda viðskiptavakans til að setja fram tilboð á þeirri hlið sem fyllt hefur verið, þar til gengið hefur verið á tilboð viðskiptavakans á mótlægri hlið og nettó viðskiptamagn er aftur komið undir daglegt hámark. Hámarksmunur á kaup- og sölutilboðum mun vera magnveginn auk þess að ákvarðast af 10 daga flökti á verði hlutabréfa Regins hf. eins og það birtist í upplýsingakerfi Bloomberg á hverjum tíma. Sé birt 10 daga flökt minna eða jafnt og 20% skal magnvegið verðbil vera að hámarki 1%, sé birt 10 daga flökt hærra en 20% en lægra en 35% skal magnvegið verðbil vera að hámarki 2%, að lokum ef birt 10 daga flökt er jafnt og eða hærra en 35% skal magnvegið verðbil vera að hámarki 3%.

Samningurinn tekur gildi frá og með 18. febrúar 2020 og gildir til og með 28. febrúar 2021. Samningurinn er uppsegjanlegur af beggja hálfu með 14 daga fyrirvara.

Eftir þessar breytingar mun eingöngu Landsbankinn standa að viðskiptavakt með bréf Regins hf.


Nánari upplýsingar

Helgi S. Gunnarsson – Forstjóri – helgi@reginn.is – S: 512 8900 / 899 6262