Eik fasteignafélag hf.: Ársreikningur Eikar fasteignafélags hf. 2019


  • Rekstrartekjur ársins námu 8.656 m.kr.
  • Leigutekjur ársins námu 7.393 m.kr. samanborið við 6.765 m.kr. árið 2018.
  • Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 5.562 m.kr.
  • Heildarhagnaður ársins nam 2.968 m.kr.
  • Handbært fé frá rekstri nam 3.104 m.kr. á árinu.
  • Bókfært virði fjárfestingareigna nam 95.918 m.kr.
  • Eignir til eigin nota námu 4.068 m.kr.
  • Matsbreyting fjárfestingareigna nam 2.170 m.kr.
  • Vaxtaberandi skuldir námu 59.780 m.kr. í árslok.
  • Eiginfjárhlutfall nam 31,7%.
  • Hagnaður á hlut var 0,86 kr.
  • Virðisútleiguhlutfall var 94,9% í lok árs.
  • Vegnir verðtryggðir vextir námu 3,65% í árslok.
  • Stjórn leggur til að greiddur verði út 800 m.kr. arður, 0,23 kr. á hlut.

Ársreikningur Eikar fasteignafélags var samþykktur af stjórn félagsins 10. mars 2020.

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri:

„Rekstur Eikar fasteignafélags gekk vel á árinu 2019. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar og afskriftir var 5.562 m.kr. og heildarhagnaður félagsins var 2.968 m.kr. EBITDA félagsins var um það bil 1% undir áætlunum stjórnenda.

 Félagið endurfjármagnaði allar vaxtaberandi skuldir dótturfélags síns, EF1, við lánastofnanir á árinu og gaf út tvo nýja skuldabréfaflokka samhliða endurfjármögnuninni. EIK 050749 var stækkaður tvisvar á árinu eftir frumútboð og stærð flokksins var 6.000 m.kr. í árslok á ávöxtunarkröfunni 3,077%. EIK 050726 var stækkaður einu sinni eftir frumútboð og var stærð flokksins 1.500 m.kr. í árslok á ávöxtunarkröfunni 2,712%.“

Félagið hefur gefið út ársskýrslu félagsins, sem hefur að geyma ítarlegar upplýsingar um félagið og rekstur þess á árinu 2019 ásamt ársreikningi. Skýrslan er meðfylgjandi þessari tilkynningu og hana má einnig finna á heimasíðu félagsins, www.eik.is.

Ársreikningur Eikar fasteignafélags hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, KPMG ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralaust.

Tillaga um arðgreiðslu

Félagið stefnir að því að greiða út til hluthafa um 35% af handbæru fé frá rekstri hvers árs í annaðhvort arð eða með kaupum á eigin bréfum. Í samræmi við arðgreiðslustefnuna leggur stjórn félagsins til við aðalfund, sem haldinn verður 2. apríl nk., að ráðstafað verði fjármunum að fjárhæð 1.098 m.kr. til hluthafa vegna rekstrarársins 2019. Keypt hafa verið eigin bréf fyrir 298 m.kr. frá síðasta aðalfundi og því er það tillaga stjórnar að greiða út sem nemur 800 m.kr. (0,23 kr. á hlut) í arð til hluthafa.

Horfur

Félagið hefur gefið út ítarlega rekstraráætlun fyrir árið 2020 sem finna má í meðfylgjandi ársskýrslu félagsins og á heimasíðu þess, www.eik.is.

Samkvæmt útgefinni fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 mun EBITDA félagsins verða 5.689 m.kr. m.v. 2,5% jafna verðbólgu sem er 2,3% aukning miðað við niðurstöður ársins 2019. Tekjur samstæðunnar munu verða 8.939 m.kr., gjöld 3.250 m.kr. og viðhald og endurbætur 406 m.kr. Þá ráðgerir félagið að fjárfestingar í núverandi fasteignum félagsins geti numið á bilinu 1.500-2.500 m.kr. á árinu 2020 og að allar fjárfestingar sem félagi leggst í skili því ásættanlegri arðsemi.

Árið 2020 hefur farið vel af stað og eru fyrstu tveir mánuðir ársins í takt við áætlun félagsins, bæði í útleigu og hjá Hótel 1919. Bókunarstaða Hótels 1919 fyrir mars og apríl er góð og í samræmi við áætlanir. Sú staða getur þó breyst fyrirvaralítið.

Hröð útbreiðsla COVID-19 mun hafa víðtæk áhrif á atvinnulífið. Félagið er vel í stakk búið til að mæta mögulegum sveiflum af þeim sökum enda leigutakar yfir 400 talsins og eignasafn félagsins fjölbreytt. Um 45% af safni félagsins eru skrifstofur sem er sá markaður sem er sveigjanlegastur þegar kemur að breyttri hegðun leigutaka vegna mögulegrar smithættu eða ráðstafana hennar vegna s.s. samkomubanns eða sóttkvía. Um 11% af safni félagsins eru hótel en ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem mun væntanlega finna mest fyrir veirunni til að byrja með. Þá er félagið með leigusamninga við ólíka aðila í ferðaþjónustu sem leigja skrifstofur, verslanir eða lager af félaginu. Erfitt er að áætla möguleg áhrif á tekjur félagsins að svo stöddu, en í tekjuáætlun fyrir árið 2020 gerir félagið ráð fyrir að tekjur af hótelum nemi 690-710 m.kr. (ef notast er við EBITDAR af Hótel 1919) og að tekjur af aðilum í ferðaþjónustu nemi 110-120 m.kr. Stærsta fasteign félagsins sem leigð er undir hótelrekstur, er Mýrargata 2-16 sem er í langtímaleigu til Icelandair Hotels. U.þ.b. 2/3 leigutekna frá öðrum aðilum í ferðaþjónustu en hótelum koma frá fjárhagslega sterkum leigutökum.

Stækkun skuldabréfaflokka og endurfjármögnun

Um miðjan febrúar síðastliðinn stækkaði félagið skuldabréfaflokkana EIK 050749 og EIK 050726 að nafnverði 1.180 m.kr. EIK 050749 er nú 6.500 m.kr. að nafnverði og EIK 050726 2.180 m.kr. að nafnverði. Samhliða stækkuninni greiddi félagið upp óhagstæð bankalán.

Félagið leitast ávallt eftir því að vera með hagkvæmustu vaxtakjör sem völ er á og um áramót voru vegnir verðtryggðir vextir félagsins 3,65%. Í júní opnaðist heimild til endurfjármögnunar á skuldabréfaflokknum LF 14 1 en flokkurinn ber 3,9% vexti og er rúmlega 12,4 ma.kr. að nafnverði. Því til viðbótar er félagið með sveigjanlega bankafjármögnun að fjárhæð rúmlega 9,2 ma.kr. sem er uppgreiðanleg án uppgreiðslugjalds.

Sameining dótturfélaga

Dótturfélög Eikar, EF12 ehf. og EF14 ehf. hafa verið sameinuð félaginu. Þá hefur LF11 ehf., dótturfélag Landfesta ehf., verið sameinað öðru dótturfélagi Landfesta ehf., LF1 ehf. Samrunarnir miðuðust við 1. janúar 2019.

Eignasafn félagsins

Fasteignirnar innan samstæðunnar eru rúmlega 100 talsins og telja tæplega 310 þúsund útleigufermetra í 600 leigueiningum og eru leigutakarnir á fimmta hundrað. Helstu fasteignir félagsins eru Borgartún 21 og 26, Suðurlandsbraut 8 og 10, Mýrargata 2-16, Pósthússtræti 2, Álfheimar 74 (Nýi Glæsibær), Grjótháls 1-3 og Austurstræti 5, 6, 7 og 17 í Reykjavík, Smáratorg 1 og 3 í Kópavogi og Glerártorg á Akureyri.

Stærsti eignaflokkur félagsins er skrifstofuhúsnæði sem er 45% af virði alls fasteignasafnsins. Annar stærsti eignaflokkurinn er verslunarhúsnæði, eða 24% safnsins. Þriðji stærsti eignarflokkurinn er lager, eða 13% safnsins. Hótel eru 11% safnsins og annað húsnæði 8%.

Félagið keypti tvær fasteignir á árinu og seldi eina og fjölgar fermetrum um 1.300. Kaup og sala félagsins eru í takt við stefnu félagsins um arðsemi umfram vöxt. Eignirnar sem félagið keypti eru lagerhúsnæði við Vatnagarða 14 og skrifstofuhúsnæði við Skólavörðustíg 42. Þá seldi félagið Barónsstíg 11.

Kynningarfundur

Opinn kynningarfundur verður haldinn 11. mars nk., klukkan 8:30 á Hóteli 1919 í fundarherberginu Goðafoss, Pósthússtræti 2, Reykjavík. Boðið verður upp á léttan morgunmat frá kl. 8:00. Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, ásamt Lýð H. Gunnarssyni, framkvæmdastjóra fjármálasviðs, munu kynna uppgjörið og svara spurningum að lokinni kynningu.

Fjárhagsdagatal 2020

Stefnt er að birtingu árshluta- og ársuppgjöra á neðangreindum dagsetningum:

Aðalfundur                                                     2. apríl 2020

Árshlutauppgjör 1. ársfjórðungs 2020           29. apríl 2020

Árshlutauppgjör 2. ársfjórðungs 2020           27. ágúst 2020

Árshlutauppgjör 3. ársfjórðungs 2020           28. október 2020

Stjórnendauppgjör 2020 og áætlun 2021      11. febrúar 2021

Ársuppgjör 2020                                            4. mars 2021

Birtingar fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaða.

Meðfylgjandi er ársskýrsla 2019 sem inniheldur ársreikning 2019. Samfélagsskýrsla félagsins er aðgengileg á heimasíðu þess.

Nánari upplýsingar veita:
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, s. 590-2200
Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, lydur@eik.is s. 590-2200 / 820 8980

Viðhengi


Attachments

Eik Ársskýrsla 2019