Klappir grænar lausnir hf.: Uppgjör 2019


Ágætu hluthafar,

Í byrjun árs 2016 lögðum við af stað með þá sýn að byggja upp fyrirtæki sem þróaði aðferðafræði, þjónustu og hugbúnaðarlausnir fyrir umhverfismál. Við trúðum því að þörfin fyrir heildstæðar hugbúnaðarlausnir á sviði umhverfismála myndi margfaldast á komandi árum. Ýmsir alþjóðlegir samningar um umhverfismál voru í farvatninu, m.a. Parísarsamningurinn, sem myndu að öllum líkindum umbreyta viðhorfum stjórnvalda, almennings og fyrirtækja til umhverfismála.

Sum ykkar hluthafanna hafa verið með okkur allt frá fyrstu stigum og þekkja sögu Klappa út og inn; önnur ykkar bættust síðar í hópinn. Mig langar að þakka ykkur öllum innilega fyrir samfylgdina fram til þessa – án ykkar hefði þessi draumur aldrei orðið að veruleika. Stuðningur ykkar og þolinmæði, ásamt áhuga og samstarfsvilja íslenskra fyrirtækja, stofnana, ríkis og sveitarfélaga, hafa verið okkur ómetanlegt veganesti á skemmtilegu og krefjandi ferðalagi - það er erfitt að ímynda sér hvernig byggja hefði mátt upp fyrirtækið án þess mikla velvilja og trausts sem fyrirtækið nýtur hér á landi.

Við erum saman á þessari vegferð og mér finnst mikilvægt að þið getið fylgst vel með og komið að ykkar sjónarmiðum. Því langaði mig til að rita ykkur nokkrar línur um árin sem eru liðin og stefnu okkar til framtíðar.

Árið 2019

Árið 2019 markaði tímamót hjá Klöppum, því í lok ársins höfðum við náð þeim markmiðum sem við settum okkur fyrir tímabilið 2016 til 2019 - við erum komin með heildstæðan lausnapall fyrir umhverfismál, traustan heimamarkað og farin að dreifa lausnum okkar erlendis. Kaupin á Stika 2019 mörkuðu mikilvægt skref í að klára lausnapallinn en vörur Stika fyrir áhættumat og viðbrögð við áhættu voru nauðsynleg til þess. Annað mikilvægt skref var stigið á árinu þegar ákveðið var að fjárfesta verulega í íslenska markaðnum og tryggja þannig stöðu og forskot Klappa á heimamarkaði - sú fjárfesting kemur til með að skila sér á komandi árum.

Á seinni hluta árs 2019 var svo hafist handa við að endurskipuleggja félagið svo að það yrði í stakk búið til að takast á við framtíðaráskoranir. Með samstilltu átaki náðum við að skila af okkur góðu ári - við reyndumst vel undirbúin og erum staðráðin í að tryggja að svo verði áfram.

Fjárfestingin í að tryggja stöðu og forskot Klappa á heimamarkaði skilaði sér og strax á árinu 2019 fjölgaði þeim lögaðilum, sem tengjast vistkerfi Klappa verulega. Velta félagsins ársins 2019 var 311,9 mkr. sem er 28,7% aukning frá árinu 2018. EBITDA afkoma var  -39,9 mkr. og rekstrarniðurstaðan var -149,6 mkr. Afskriftir óefnislegra eigna voru 76,4 mkr. á móti 32,1 mkr. árinu áður og hlutdeild í afkomu dótturfélaga var -27 mkr.

Við höfum nú lagt traustan grunn að framtíð félagsins og frekari vexti þess. Verkefni næstu ára felast í því að styrkja aðferðafræðina, þjónustuna og hugbúnaðinn og leyfa stafræna vistkerfinu okkar að vaxa og dafna í náinni samvinnu við þá fjölmörgu aðila sem nota nú þegar hugbúnaðarlausnir Klappa og eins þá sem bætast munu við á næstu misserum – jafnt hérlendis sem erlendis.

        Nú er runnið upp árið 2020, við höfum sett í loftið kröftugan lausnapall sem hefur að geyma stafræna innviði sem taka inn, túlka og miðla margvíslegum umhverfisgögnum – svokallað „stafrænt vistkerfi“ (e. digital eco-system) þar sem fleiri en 350 lögaðilar eru tengdir innviðunum og tíu sértækar hugbúnaðarlausnir vinna á lausnapallinum með hundruðum fyrirtækja. Fyrstu mánuðir ársins fara vel af stað og sala hugbúnaðar og þjónustu er í samræmi við áætlanir.


Langtímaverðmæti fyrir framtíðina

Það er fararheit Klappa að búa til áþreifanleg langtímaverðmæti fyrir viðskiptavini sína og samfélagið sem við lifum í. Við vinnum að þessu með því að hjálpa skipulagsheildum að verja, varðveita og endurheimta náttúruverðmæti fyrir kynslóðir framtíðar, byggja upp ný og verðmæt störf í grænni nýsköpun og skapa framtíðarkynslóðum vettvang til að takast á við áskoranir í umhverfismálum. Með því að nota stafrænt vistkerfi Klappa og þá stöðluðu aðferðafræði, sem hugbúnaðurinn styðst við, má búa til sameiginlegan vettvang okkar allra til að skilja og takast á við þær miklu áskoranir sem nú horfa við okkur í umhverfismálum.

Í upphafi voru Klappir eingöngu hugmynd að því sem koma mætti í framkvæmd með samstilltu átaki fjölmargra hagaðila sem deildu sömu sýn. Í dag erum við drifkraftur í umhverfismálum á Íslandi. Hundruð fyrirtækja vinna með hugbúnaðarlausnir Klappa og nýta þær til að ná árangri í umhverfismálum. Þá er stafræna vistkerfið okkar farið að teygja sig út fyrir landsteinana og erlendir aðilar byrjaðir að tengjast innviðunum, nota hugbúnaðarlausnirnar og/eða að prófa sig áfram með reynsluaðgang. Það heyrir til undantekninga ef áskrift er sagt upp - frekar stækka skráðir aðilar hugbúnaðarlausnirnar sem þeir eru með.


Vörur og lausnir Klappa

Vöruframboð fyrirtækisins byggist á tveimur stoðum. Önnur er lausnapallurinn sjálfur - með tengingu við lausnapallinn tengjast notendur við stafrænt vistkerfi Klappa og þar með við alla aðra notendur að hugbúnaðinum. Hin stoðin eru hugbúnaðarlausnirnar sem þróaðar hafa verið sem viðbót við lausnapallinn. Hver vara þjónar ákveðnum tilgangi og leysir ákveðna þætti umhverfismála en þær eru:

EnviroMaster: hugbúnaðarlausn sem heldur utan um umhverfismál skipulagsheilda á heildstæðan hátt.

LogCentral og PortMaster: hugbúnaðarlausnir sem hjálpa fyrirtækjum í skiparekstri, höfnum og eftirlitsaðilum að fylgja umhverfislöggjöf á skilvirkan hátt.

HouseMaster, RoadMaster og SeaMaster: hugbúnaðarlausnir sem styðja við skilvirkan og hagkvæman rekstur á rekstrareiningum, s.s. bifreiðum, skipum og húsnæði.

RiskMaster/ RM Studio: hugbúnaðarlausnir sem styðja við gerð áhættumats, hvort sem um er að ræða greiningu á sjálfbærniáhættu eignasafna eða gagna og upplýsinga.

HealthMaster, STPA Master: hugbúnaðarlausnir sem styðja við hönnun sem tekur tillit til áhættu, m.a. vegna veðurfars, slysa og heilsu.

Starfsmenn Klappa

Hjá Klöppum starfar öflugur hópur fólks á ýmsum aldri sem sameinar nútímalega nálgun í viðskiptum, notkun á nýjustu tölvutækni, langa reynslu úr tæknigeiranum og uppbyggingu alþjóðlegra fyrirtækja. Starfsfólk Klappa hefur menntun á sviðum sem mynda þekkingargrunn félagsins, s.s. hugbúnaðarþróun, fjármálum, verkfræði, stjórnmálafræði, sálfræði, lögfræði og skapandi greinum á borð við skrif, miðlun upplýsinga og markaðssetningu.

Klappir eru og verða áfram krefjandi vinnustaður þar sem þörf er fyrir öflugt starfsfólk sem er tilbúið að leggja hart að sér til að þroska fyrirtækið áfram og ryðja því nýjar leiðir til að tryggja að það geti á hverjum tíma mætt þörfum viðskiptavina sinna. Meðal brýnustu verkefna okkar er að tryggja að til Klappa komi starfsfólk með mikla getu og sveigjanleika til að vinna í nýsköpunarumhverfi. Við leggjum ríka áherslu á að hver starfsmaður fái að njóta sín í þeim viðfangsefnum sem honum/henni eru falin hverju sinni.

Við reynum að standa okkur í jafnréttismálum og erum nú með einkunnina 8,5 á Gemmaq kynjakvarðanum. Enn hallar á konur og við viljum bæta úr því, til að mynda með því að fjölga konum í forritunarteyminu.

Samfélagsleg ábyrgð og áhrif

Samfélagsábyrgð Klappa birtist í allri starfsemi félagsins, þjónustu, aðferðafræði og hugbúnaðarlausnum þess. Klappir  leggja áherslu á að hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og þróa aðferðafræði, hugbúnaðarlausnir og þjónustu sem hjálpa viðskiptavinum félagsins að ná góðri yfirsýn yfir eigin stöðu og árangur varðandi sjálfbærni, aðallega umhverfisþætti. 

Hugbúnaðarlausnir Klappa hjálpa ólíkum skipulagsheildum að tengjast, miðla margvíslegum upplýsingum sín á milli og skoða hvaða áhrif þær hafa, hver um sig, á umhverfið.

Við vorum stofnaðilar að Hafinu, öndvegissetri um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins, og vinnum náið með setrinu að því að auka skilning á þeirri hættu sem að hafinu steðjar. Klappir hafa verið þátttakandi í Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð, nánast frá upphafi starfsemi sinnar og tekið þátt í margvíslegum fundum og viðburðum á vegum miðstöðvarinnar. Árið 2018 hlutu Klappir umhverfisverðlaun Festu. Einnig gerðist Klappir aðili að UN Global Compact í október 2017 og bættist þar í hóp íslenskra fyrirtækja sem hafa skuldbundið sig til að uppfylla tíu markmið Sameinuðu Þjóðanna um samfélagslega ábyrgð.

Markaðsstarf, sölumál og samstarf

Klappir starfa á markaði sem mun vaxa verulega á komandi árum og er hnattrænn. Grænar lausnir Klappa eru leiðandi hvað varðar tækni og fjölbreytileika og munu því verða eftirsóttar um allan heim í hratt vaxandi markaði - tækifærin til vaxtar verða því mörg.

Aukin áhersla á umhverfislöggjöf, kröfur neytenda um ábyrgan rekstur, upplýsingagjöf og aukin umhverfismeðvitund almennings eykur þörfina fyrir mælingar og samkeyrslu gagna sem staðfesta umfang umhverfisáhrifa. Þá hafa þjóðríki tekist á hendur skuldbindingar um að draga úr losun og þurfa að geta sýnt fram á árangurinn með marktækum hætti.

Nýjar alþjóðlegar kröfur gera einnig ráð fyrir að hægt verði að gera örari spár um áhrif aðgerða í umhverfismálum. Slíkar spár er hægt að gera með hröðum og yfirgripsmiklum hætti í sérhæfðum hugbúnaði enda þurfa þær að byggjast á traustum grunni gagna og aðferðafræði. Hugbúnaður Klappa er hannaður og þróaður til að anna þeirri eftirspurn sem hlýst af breyttum aðstæðum í rekstri fyrirtækja og stofnana.

Hugbúnaðarlausnir Klappa mynda nú margslungið stafrænt vistkerfi þar sem mörg hundruð skipulagsheildir á Íslandi hjálpast að í umhverfismálum. Ísland er því kjörinn vettvangur fyrir félagið til að þróa hugbúnaðarlausnirnar og aðferðafræðina áfram. Ekkert er Klöppum verðmætara en þessi trausti og góði heimamarkaður og sú mikla vinátta, þolinmæði og skilningur sem viðskiptavinirnir á Íslandi hafa sýnt félaginu. Starfsfólk Klappa mun halda ótrautt áfram að styrkja innviði umhverfismála á Íslandi. Fullyrða má að hugbúnaðurinn sé veigamikið framlag til umhverfisinnviða hér á landi.

Viðskiptastefna okkar er skýr og eins leiðarljós okkar inn í framtíðina. Klappir munu dreifa hugbúnaðarlausnum sínum á alþjóðlegum mörkuðum í samstarfi við samstarfsaðila sem hafa þekkingu og reynslu af mörkuðum sem eru annars vegar svæðisbundnir og hins vegar bundnir atvinnugreinum.

Vaxtarfjármögnun

Klappir þurfa að hafa aðgang að vaxtarfjármagni í formi hlutafjár og lánsfjár svo að tryggja megi langtímavöxt félagsins. Þó svo að markaður með skráð skuldabréf og hlutabréf hafi ekki náð sér á strik hér á landi, ólíkt því sem er að gerast á hinum Norðurlöndunum, reiknum við með að fara bæði í almennt hlutafjárútboð og fjárfestaútboð á komandi mánuðum. Við höfum mikla trú á því að bæði almenningur og fagfjárfestar vilji leggja okkur lið með því að fjárfesta í Klöppum og þar með sjálfbærari framtíð. Samið hefur verið við Íslandsbanka um að sjá um útboðið.

Við vonum að stjórnvöld líti til markaðarins sem tækifæris til að draga að nýtt fjármagn sem svo sárlega vantar til að efla nýsköpun á Íslandi. Kraftmikil nýsköpun er undirstaða samkeppnishæfni og verðmætasköpunar til framtíðar, grunnur að fjölgun starfa fyrir vel menntað starfsfólk og öflun gjaldeyris – Ísland þarf á slíku að halda. Skattafrádráttur vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum gæti skapað mikilvægan hvata fyrir einstaklinga og fjölskyldur til að fjárfesta í nýsköpun milliliðalaust. Milliliðalaus samskipti á milli hluthafa í nýsköpunarfyrirtækjum og fyrirtækjanna sjálfra mun auka áhuga almennings á að fylgjast með  árangri sinna eigin fyrirtækja. Að sama skapi langar okkur að sjá fleiri nýsköpunarfyrirtæki koma inn á markaðinn.

Við vonum að útboðinu okkar verði vel tekið, bæði af einstaklingum, fjölskyldum og fagfjárfestum sem hafa áhuga á því að eiga hlut í nýsköpunarfyrirtæki í grænni tækni.

Næstu skref og framtíðin

Ferðalag síðustu ára hefur verið afar lærdómsríkt. Við erum bjartsýn en þurfum um leið að vera auðmjúk og vakandi gagnvart síbreytilegu viðskiptaumhverfi. Þær áskoranir og hindranir, sem við stöndum frammi fyrir til að framtíðarsýn okkar verði að veruleika, eru margar. Atvinnugreinin sem við störfum í er ný af nálinni og þekkingaruppbyggingin þar mjög hröð. Við erum enn að læra hvernig við veitum viðskiptavinum okkar bestu mögulegu þjónustu. Markmiðið er að halda áfram að efla þjónustuna, aðferðafræðina og styrkja hugbúnaðinn. Áframhaldandi fjárfestingar í vöruþróun, þjónustu og sölu til að mæta vaxandi markaðstækifærum verður því áfram brýn.

Við viljum einbeita okkur að því að fylgja eftir erlendum tækifærum en það er ljóst að skipahugbúnaður Klappa, LogCentral, mun verða fyrsta vara Klappa sem nær alþjóðlegri útbreiðslu. Það gerist strax nú á árinu 2020. Markaðurinn fyrir LogCentral nær til um 70.000 skipa á heimsvísu. Ný löggjöf í Evrópu um sjálfbærniuppgjör (e. ESG Reporting) mun opna okkur leið inn á þann markað með Klappir EnviroMaster.

Við sjáum því fram á áframhaldandi vöxt, jafnt hér á Íslandi sem og erlendis. Nú hefur Reitun ehf., sem er með samning við Landsbankann og Landsbréf, byrjað að meta sjálfbærniáhættu um 40 fyrirtækja í gegnum hugbúnaðinn RiskMaster. Landvernd og Klappir innleiða Grænskjái í vor og verða þeir komnir í opinber rými viðskiptavina okkar og grunnskóla úti um allt land fyrir lok árs. LogCentral er komið í notkun hjá erlendum stórfyrirtækjum, s.s. MOL, Scorpio Tankers, OSS og Optimum. Við erum að vinna með Össur, Eimskip og 66°N í að innleiða hugbúnaðinn í starfsstöðvum erlendis, svo sem í Noregi, Hollandi, Mexíkó, Lettlandi, Færeyjum og Bandaríkjunum.

Kæru hluthafar, langtímasýn ykkar hefur verið okkur ómetanlegur stuðningur og gert okkur kleift að gera langtímaáætlanir og forðast skammtímalausnir. Við hjá Klöppum erum óendanlega þakklát fyrir þann stuðning og þá dýrmætu hvatningu sem þið hafið veitt okkur - traustið, þolinmæðina, trúna.

Megi samstarfið halda áfram að vera gjöfult og gott um ókomin ár.

Reykjavík, þann 17. mars 2020,

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa grænna lausna hf.

Viðhengi


Attachments

Klappir grænar lausnir hf. ársreikningur 2019 Bréf til hluthafa 17. mars 2020