Source: Reitir fasteignafélag hf.

REITIR: Viðbrögð við COVID 19, afkomuspá, frestun arðgreiðslu og lok endurkaupa

Stjórn Reita hefur tekið ákvörðun um tilteknar aðgerðir í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru í þjóðfélaginu vegna COVID 19 veirusýkingarinnar og afleiðingar
hennar á efnahagslífið. Aðgerðirnar eru teknar í þeim tilgangi að gæta varúðar hvað varðar útflæði fjármuna úr félaginu að svo stöddu.

Í fyrsta lagi er afkomuspá félagsins sem gefin var út í febrúar síðastliðnum felld úr gildi. Þær forsendur sem hún byggði á hafa raskast verulega. Mikil óvissa er um það hversu víðtæk áhrifin verða á rekstur leigutaka félagsins og því engar forsendur til þess nú að meta nákvæmlega hverjar afleiðingar alls þessa verða á félagið.

Í öðru lagi hefur stjórn ákveðið að fresta arðgreiðsludegi frá því sem áður hefur verið tilkynnt um. Samþykkt var á aðalfundi Reita þann 10. mars síðastliðinn að greiða út arð að fjárhæð 1,65 kr. fyrir hverja krónu nafnverðs útistandandi hlutafjár í félaginu vegna ársins 2019. Stjórn hefur ekki ákveðið nýjan arðgreiðsludag en hann mun í síðasta lagi verða 10. september næstkomandi.

Í þriðja lagi hefur stjórn tekið ákvörðun um að ljúka endurkaupaáætlun sem hefur verið í gildi frá 20. febrúar síðastliðnum. Áætlað var að kaupa allt að 20 milljónir hluta að hámarki fyrir 1.500 milljónir króna en félagið hefur þegar keypt tæpa 11,4 milljónir hluta fyrir 766 milljónir króna.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Auðunsson, sími 660 3320 eða á netfanginu gudjon@reitir.is.