• Rekstrartekjur námu 2.135 m.kr.
 • Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 1.326 m.kr.
 • Heildartap nam 235 m.kr.
 • Handbært fé frá rekstri nam 976 m.kr.
 • Bókfært virði fjárfestingareigna nam 95.619 m.kr.  
 • Bókfært virði eigna til eigin nota nam 4.078 m.kr. í lok tímabilsins.
 • Matsbreyting fjárfestingareigna var neikvæð um 771 m.kr.
 • Vaxtaberandi skuldir námu 59.511 m.kr. í lok tímabilsins.
 • Eiginfjárhlutfall nam 31,5%.
 • Tap á hlut var 0,07 kr.

Árshlutareikningur Eikar fasteignafélags hf. fyrir tímabilið 1. janúar til 31. mars 2020 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins þann 29. apríl 2020.

Meðfylgjandi er árshlutaskýrsla sem inniheldur árshlutareikning vegna fyrstu þriggja mánaða ársins ásamt ítarlegri upplýsingum um rekstur félagsins en fram koma í tilkynningunni.

Rekstur félagsins

Rekstur félagsins gekk vel á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020 og var árshlutauppgjörið í takt við upphaflegar áætlanir stjórnenda félagsins. Rekstrartekjur félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020 námu 2.135 m.kr. Þar af voru leigutekjur 1.861 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 1.326 m.kr. Tap fyrir tekjuskatt nam 271 m.kr. og heildartap tímabilsins nam 235 m.kr.

Þann 25. mars sl. birti félagið tilkynningu í Kauphöll Íslands þess efnis að afkomuspá fyrir árið 2020 hefði verið felld úr gildi sökum óvissu um efnahagsleg áhrif COVID-19 faraldursins.

NOI hlutfall (þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir sem hlutfall af leigutekjum) nam 71,4% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020 samanborið við 72,2% fyrstu þrjá mánuði ársins 2019.

Fjárfestingareignir félagsins eru metnar á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og stuðst er m.a. við núvirt framtíðarsjóðstreymi einstakra eigna. Breytingar á gangvirði eru færðar undir matsbreytingu fjárfestingareigna sem voru neikvæðar um 771 m.kr. á tímabilinu.

Efnahagur félagsins

Heildareignir félagsins námu 102.363 m.kr. þann 31. mars 2020. Þar af eru fjárfestingareignir að virði 95.619 m.kr. sem skiptast í fasteignir í útleigu að fjárhæð 92.770 m.kr., leigueignir (nýtingarréttur lóða) 2.066 m.kr., fasteignir í þróun 321 m.kr., byggingarréttir og lóðir 448 m.kr. og fyrirfram greidd gatnagerðargjöld að fjárhæð 13 m.kr. Eignir til eigin nota námu 4.078 m.kr. Eigið fé félagsins nam 32.271 m.kr. í lok mars 2020 og var eiginfjárhlutfall 31,5%. Heildarskuldir félagsins námu 70.092 m.kr. þann 31. mars 2020, þar af voru vaxtaberandi skuldir 59.511 m.kr. og tekjuskattsskuldbinding 7.216 m.kr. 

Virðisútleiguhlutfall

Virðisútleiguhlutfall félagsins var 94,3% í lok ársfjórðungsins og lækkaði um 0,6% frá áramótum.

Endurkaup

Þann 10. mars síðastliðinn tilkynnti félagið að stjórn hefði samþykkt endurkaupaáætlun, sem byggði á heimild sem stjórn var veitt á hluthafafundi félagsins 12. desember 2018 og var Kvika banki hf. ráðinn til að framkvæma áætlunina. Endurkaupaáætluninni var hrint í framkvæmd 12. mars 2020 en þann 25. mars 2020 tilkynnti félagið að stjórn hefði ákveðið að ljúka henni. Félagið keypti eigin hluti að nafnverði 7,5 m.kr. á ársfjórðungnum fyrir samtals 46,2 m.kr. en áætlun hafði gert ráð fyrir kaupum fyrir allt að 500 m.kr. 

Eigin hlutir félagsins námu 50.117.000 kr. í lok fjórðungsins en voru 42.617.000 kr. í árslok 2019. Útistandandi hlutir nema því 3.415 m.kr.

Horfur og áhrif vegna COVID-19

Á þessari stundu er óljóst hvaða efnahagslegu áhrif COVID-19 faraldurinn mun hafa á Eik fasteignafélag til skemmri eða lengri tíma. Félagið býr að því að eiga vel dreift eignasafn, er með rúma lausafjárstöðu, er vel innan lánaskilmála og með góða dreifingu á leigutökum en yfir 400 lögaðilar og einyrkjar greiða leigu til félagsins.

Afkoma ársins mun fyrst og fremst taka mið af því hvernig leigutakar félagsins koma undan faraldrinum og hversu fljótt daglegt líf mun færast í eðlilegt horf. Þeir leigutakar félagsins sem búa við mestu rekstraráhættuna eru tengdir ferðaþjónustu enda ríkir mikil óvissa um hvernig takmörkun á ferðalögum verður aflétt.

Einhverjir leigutakar félagsins hafa orðið fyrir tekjuskerðingu og leggur félagið áherslu á að aðstoða leigutaka eftir bestu getu. Til að mynda blés félagið til sóknar með leigutökum í hótel- og veitingarekstri með því að framleiða markaðsefni á kostnað félagsins þar sem fólk er hvatt til að nýta þá þjónustu sem er í boði. Þá var Deloitte ráðið til að hjálpa félaginu að aðstoða þá leigutaka sem þurfa til að ná yfirsýn yfir stöðuna og framhaldið, þ.e.  við áætlanagerð, hvaða úrræði eru í boði frá stjórnvöldum ásamt því að Deloitte veitir félaginu ráðgjöf er varðar lausnir við leigutaka. Lausnirnar snúast fyrst og fremst á þessum tímapunkti um frestun á leigugreiðslum hjá þeim leigutökum sem hafa orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu og hafa lagt fram gögn þar að lútandi. Því má leiða líkur að því að staða viðskiptakrafna muni hækka á komandi mánuðum, sem gæti leitt til þess að afskriftir hækki milli ára. Innheimta leigutekna fyrir apríl mánuð hefur gengið ágætlega miðað við ástand en um 80% af útgefnum leigutekjum hafa verið innheimtar. Ekki hafa verið gefnir út leigureikningar vegna veltuleigu í apríl.

Hvað framhaldið ber í skauti sér varðandi aðstoð við leigutaka á eftir að koma í ljós þegar framhald faraldursins fer að skýrast sem og þróun efnahagsmála.

Félagið hefur einnig ráðist í ýmsar aðgerðir til að tryggja enn rýmri stöðu handbærs fjár:

 • Félagið hefur tryggt sér bankafjármögnun að fjárhæð 1.400 m.kr.
 • Endurkaupaáætlun félagsins var stytt og námu endurkaupin 46,2 m.kr. þegar henni lauk, en áætlunin hafði gert ráð fyrir kaupum allt að 500 m.kr.
 • Aðalfundi félagsins var frestað vegna samkomubanns og því hefur tillaga stjórnar um arðgreiðslu ekki verið tekin fyrir en lagt hafði verið til við áður boðaðan aðalfund að greiddar yrðu 800 m.kr. í formi arðs.

Þessu til viðbótar er félagið með óádregna lánalínu að fjárhæð 800 m.kr. og óveðsettar eignir að fjárhæð rúmlega 4.400 m.kr. sem félagið gæti nýtt til að tryggja frekara aðgengi að lausu fé reynist þörf á.  Þá hefur félagið möguleika á því að fresta áætluðum framkvæmdum sem eru ekki tengdar samningum við leigutaka.

Eignasafn félagsins

Fasteignir innan samstæðunnar eru rúmlega 100 talsins og telja rúmlega 310 þúsund útleigufermetra í 600 leigueiningum. Heildarfjöldi leigutaka er yfir 400. Helstu fasteignir félagsins á höfuðborgarsvæðinu eru Borgartún 21 og 21a, Borgartún 26, Suðurlandsbraut 8 og 10, Mýrargata 2-16, Pósthússtræti 2 (Hótel 1919), Smáratorg 3 (Turninn), Smáratorg 1, Álfheimar 74 (Nýi Glæsibær), Grjótháls 1-3 og Austurstræti 5, 6, 7 og 17. Helsta fasteign félagsins utan höfuðborgarsvæðisins er Glerártorg. Stærstu leigutakar félagsins eru Húsasmiðjan, Flugleiðahótel, Fasteignir ríkissjóðs, Rúmfatalagerinn, Landsbankinn, Sýn, Síminn, Össur, Míla og Deloitte.

Stærsti hluti fasteignasafns Eikar eru skrifstofuhúsnæði eða 45%. Næst koma verslunarhúsnæði 24%, lagerhúsnæði 13%, hótel 10%, heilsutengt húsnæði 4% og veitingahúsnæði 4%. Um 91% fasteigna félagsins eru á höfuðborgarsvæðinu, þar af 37% á fjármála- og viðskiptasvæði Reykjavíkur (aðallega innan póstnúmera 105 og 108), 19% í miðbæ Reykjavíkur og 19% í Smáranum - Mjódd. 9% eignasafnsins er á landsbyggðinni, þar af tæplega 8% á Akureyri.

Rafrænn kynningarfundur
Rafrænn kynningarfundur verður haldinn fimmtudaginn 30. apríl 2020 klukkan 8:30. Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri og Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, munu kynna uppgjörið og svara spurningum að lokinni kynningu.

Hægt verður að fylgjast með kynningarfundinum á eftirfarandi vefslóð: https://eik.webex.com/eik/onstage/g.php?MTID=e316fce6bb915478b852c94943c690248

Fjárhagsdagatal 2020

 • Árshlutauppgjör 2. ársfjórðungs 2020           27. ágúst 2020
 • Árshlutauppgjör 3. ársfjórðungs 2020           28. október 2020
 • Stjórnendauppgjör 2020 og áætlun 2021     11. febrúar 2021
 • Ársuppgjör 2020                                            4. mars 2021

Nánari upplýsingar veitir:

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, s. 590-2200
Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, lydur@eik.is, s. 820-8980

Viðhengi