Kvika banki hf.: Tilkynning um nýtingu áskriftarréttinda og hækkun hlutafjár


Stjórn Kviku banka hf. („Kvika“ eða „félagið“) hefur síðan á síðasta stjórnarfundi tekið fyrir fjórar tilkynningar eigenda áskriftarréttinda að hlutum í félaginu, að nafnvirði samtals 5.166.667 kr., um nýtingu réttindanna.

Allar tilkynningarnar eru vegna áskriftarréttinda sem gefin voru út og seld á árinu 2017 á grundvelli bráðabirgðaákvæðis IV í samþykktum félagsins. Framangreint felur í sér nýtingu á áskriftarréttindum að samtals 5.166.667 nýjum hlutum. Kaupverð hinna nýju hluta nemur kr. 33.880.002 og því er reiknað meðalgengi 6,557419.

Með vísan til samninga um útgáfu áskriftarréttindanna er stjórn skylt að hækka hlutafé til að mæta skuldbindingum samkvæmt réttindunum og gefa út hlutafé, skrá rétthafa í hlutaskrá og tryggja skráningu þeirra sem rétthafa í verðbréfamiðstöð, sbr. lög nr. 7/2020 um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignaskráningu fjármálagerninga.

Stjórn nýtti í dag heimild sína samkvæmt bráðabirgðaákvæði IV í samþykktum félagsins til að hækka hlutafé þess í þeim tilgangi að mæta nýtingu framangreindra áskriftarréttinda. Hlutafé félagsins verður því hækkað um kr. 5.166.667 og mun eftir hækkun standa í kr. 1.976.215.763 að nafnvirði, með útgáfu nýrra hluta. Heimild stjórnar til hlutafjárhækkunar á grundvelli bráðabirgðaákvæðis IV mun í kjölfar hækkunar vera 507.266.686 kr. að nafnvirði.

Hlutafjárhækkunin verður tilkynnt til og skráð af Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra og nýir hlutir verða gefnir út af Nasdaq verðbréfamiðstöð og óskað verður eftir töku þeirra til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland.

Tilkynning þessi er í samræmi við verklag sem félagið tilkynnti um þann 19. september 2019.