Reginn hf. - Forgangsréttarútboð á nýjum hlutum í Reginn þann 25.-28. september 2020



Stjórn Regins hf. („Reginn“ eða „félagið“) hefur í dag ákveðið að fullnýta heimild í 4. gr. samþykkta félagsins sem samþykkt var á hluthafafundi Regins 9. september 2020 og hækka hlutafé félagsins um  allt að kr. 40.000.000 hluti að nafnverði. Hlutirnir verða boðnir til sölu í forgangsréttarútboði og skulu hluthafar því njóta forgangsréttar um hið nýja hlutafé miðað við hlutafjáreign sína („útboðið“). Heildarfjöldi útgefinna hluta í Reginn fyrir útboðið er kr. 1.783.152.097 og nemur hækkun um 2,2% miðað við núverandi hluti. Andvirði útboðsins hyggst Reginn nýta til að styrkja lausafjár- og eiginfjárstöðu félagsins.


Helstu skilmálar útboðsins:

  • Um er að ræða forgangsréttarútboð til hluthafa og eiga hluthafar rétt á nýjum hlutum í hlutfalli við skráða hlutafjáreign sína í hlutaskrá Regins hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð í lok dags 24. september og þeir aðilar sem fá forgangsrétt framseldan til sín samkvæmt skilmálum útboðsins
  • Útboðsgengi hinna nýju hluta er 15,0 kr. á hlut
  • Áskrifendur munu fyrst fá úthlutað hlutum byggt á hlutfallslegum (pro-rata) forgangsrétti áskrifenda að nýjum hlutum Regins hvort heldur áskrifendurnir njóta slíks réttar á grundvelli hlutafjáreignar sinnar, ellegar þess að hafa fengið forgangsréttinn framseldan til sín í samræmi við skilmála útboðsins. Komi til þess að einhverjir forgangsréttarhafar nýti ekki forgangsrétt sinn, þá verður þeim nýju hlutum sem áskrift fæst þannig ekki fyrir úthlutað til annarra forgangsréttarhafa sem lýst hafa sig reiðubúna til að skrifa sig fyrir hinum nýju hlutum umfram forgangsrétt sinn. Mun úthlutun til slíkra fjárfesta fara fram í réttu hlutfalli við hlutafjáreign hvers og eins þeirra.
  • Engin lágmarksfjárhæð er á áskriftum í forgangsréttarútboðinu
  • Tekið verður við áskriftum á vef Íslandsbanka hf. (www.islandsbanki.is/reginn-utbod) frá kl. 9:00 (GMT) þann 25. september 2020 til kl 17:00 (GMT) þann 28. september 2020
  • Áætlað er að niðurstöður útboðsins verði tilkynntar 29. september 2020. Áætlaður gjalddagi og eindagi er 1. október 2020.
  • Stefnt er að afhendingu og töku nýrra hluta til viðskipta á aðalmarkaði Nasdaq eins fljótt og auðið er eftir útgáfu hlutabréfa hjá fyrirtækjaskrá Skattsins og er áætluð dagsetning 2. október.
  • Upplýsingar og tæknilega aðstoð má nálgast hjá Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf. í síma 440-4000 milli kl. 09:00 og 16:00 dagana 25. september til 28. september 2020 og tölvupóstfanginu reginn-utbod@islandsbanki.is.


Nánari upplýsingar má finna í Skilmálum útboðsins á vefsíðu félagsins www.reginn.is/ og með tilkynningu þessari.


Kópavogur, 14. september 2020

Stjórn Regins hf.

Viðhengi



Attachments

Reginn hf. - Skilmálar útboðs - 14092020