Sýn hf.: Sala og endurleiga farsímainnviða


Sýn hf. hefur í dag náð samkomulagi við erlenda fjárfesta um einkaviðræður og helstu skilmála í tengslum við mögulega sölu og endurleigu (e. sale and leaseback) á óvirkum farsímainnviðum félagsins.

Miðað við þá skilmála sem nú liggja fyrir myndu viðskiptin styrka efnahagsreikning félagsins og gæti væntur söluhagnaður Sýnar numið yfir sex milljörðum króna, gangi viðskiptin eftir. Ráðgert er að gerður verði langtímaleigusamningur til 20 ára, sem tryggja mun áframhaldandi aðgang félagsins að hinum óvirku farsímainnviðum. Allur virkur farsímabúnaður verður áfram í eigu Sýnar. Fjárhæðir og reikningshaldslega meðferð viðskiptanna mun ráðast af endanlegum samningum.

Í samkomulaginu felst engin skuldbinding eða trygging um að af viðskiptunum verði, en þau eru m.a. háð áreiðanleikakönnun og eftir atvikum aðkomu eftirlitsstofnana. Er því enn allmikil óvissa um hvort og hvenær viðskiptin komist á. Frekari upplýsingar verða gefnar í tengslum við uppgjör félagsins þann 4. nóvember nk.

Nánari upplýsingar veitir fjárfestatengill: fjarfestatengsl@syn.is