Kvika banki hf.: Bráðabirgðauppgjör fyrir þriðja ársfjórðung og uppfærð afkomuspá fyrir árið


Við vinnslu á ókönnuðu bráðabirgðauppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung hefur komið í ljós að afkoma Kviku banka hf. (Kvika eða bankinn) á ársfjórðungnum er hærri en gert var ráð fyrir í áætlunum. Afkoma Kviku fyrir fyrstu níu mánuði ársins er áætluð um 1.530 m.kr. fyrir skatta.

Uppfærð afkomuspá bankans sem birt var samhliða birtingu uppgjörs fyrsta ársfjórðungs þann 14. maí s.l. gerði ráð fyrir að hagnaður ársins fyrir skatta yrði 1.700-2.300 m.kr. Ákveðið hefur verið að hækka miðgildi spár um hagnað fyrir skatta um 150 m.kr og að hagnaður ársins fyrir skatta verði á bilinu 2.000 – 2.300 m.kr.

Breyting á afkomuspá fyrir árið skýrist einkum af betri afkomu af eignastýringarstarfsemi, sterkri verkefnastöðu í fyrirtækjaráðgjöf og hækkun hreinna fjárfestingatekna.

Kvika mun birta afkomu fyrir fyrstu níu mánuði ársins samkvæmt fjárhagsdagatali sínu þann 12. nóvember 2020.