Hagar hf. ráða framkvæmdastjóra stafrænnar þróunar og upplýsingatækni


Eiður Eiðsson hefur verið ráðinn framkvæmdarstjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni Haga hf. Hann kemur til Haga frá VÍS þar sem hann var forstöðumaður stafrænna verkefna og hefur leitt þar stærstu stafrænu umbreytingarverkefni sem félagið hefur ráðist í auk þess að hafa umsjón með vef og veflausnum VÍS.

Eiður er viðskiptafræðingur að mennt og hefur áralanga reynslu í upplýsingatækni og stafrænni þróun þar sem hann hefur komið að bæði grunnrekstri í upplýsingatækni og eins stafrænni umbreytingu fyrirtækja eins og Arion banka og VÍS.

Framkvæmdarstjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni er ný staða hjá Högum og er sú breyting liður í stefnu Haga að nýta stafrænar leiðir til að gera verslun bæði einfaldari og þægilegri og bæta stöðugt upplifun viðskiptavina.

Finnur Oddsson, forstjóri Haga hf.
“Það er fengur að því að fá Eið til liðs við öflugt tækniteymi sem fyrir er hjá Högum og dótturfélögum.  Hann þekkir vel til í upplýsingatækni og býr að dýrmætri reynslu af innleiðingu breytinga sem byggja á stafrænum aðferðum og hafa það að markmiði að bæta þjónustu og upplifun viðskiptavina.  Framundan eru fjölbreytt og spennandi verkefni sem tengjast nánara samtali okkar við viðskiptavini og stöðugri aðlögun þjónustu að þeirra þörfum, m.a. einföldun, aukin þægindi og hagkvæmni í kaupum á matvöru, eldsneyti og öðrum nauðsynjum.  Upplýsingatækni og stafrænar leiðir mun gegna lykilhlutverki í þessari vinnu og við bjóðum Eið því sérstaklega velkominn í teymið.”