Hampiðjan – Ársreikningur 2020


Lykilstærðir

Allar fjárhæðir í evrum og samanburðartölur í sviga.
             

  • Rekstrartekjur voru 161.8 m€ (161,8 m€).
  • EBITDA af reglulegri starfsemi var 27,5 m€ (24,0 m€).  
  • Hagnaður tímabilsins nam 15,1 m€ (13,4 m€).
  • Heildareignir voru 246,6 m€ (228,4 m€ í lok 2019).
  • Vaxtaberandi skuldir voru 90,6 m€ (81,8 m€ í lok 2019).
  • Eiginfjárhlutfall var 52,3% (52,3% í lok 2019).
  • Meðalfjöldi starfsmanna á árinu var 1.159 en var 1.126  árið þar á undan.

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar voru 161,8 m€ og voru nánast óbreyttar á milli ára. Sé leiðrétt fyrir dótturfélögum sem komu inn í samstæðuna á árinu þá drógust tekjur saman um 6,8 m€. Áhrif Covid-19 skýra þennan samdrátt að mestu leiti. Áhrif Covid-19 á rekstrartekjur einstakra félaga innan samstæðunnar voru mjög mismunandi.   

EBITDA félagsins hækkaði um 14,4% á milli ára eða úr 24,0 m€ á árinu 2019 í 27,5 m€ á árinu 2020.

Hagnaður ársins var 15,1 m€ en var 13,4 m€ á árinu 2019 og nemur hækkun á hagnaði samstæðunnar því um 12,9% á milli ára.

Efnahagur

Heildareignir voru 246,6 m€  og hafa hækkað úr 228,4 m€ frá árslokum 2019.

Eigið fé nam 128,9 m€, en af þeirri upphæð eru 12,6 m€ hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga. 

Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í lok tímabilsins 52,3% af heildareignum samstæðunnar sem er sama hlutfall og í árslok 2019.

Vaxtaberandi skuldir námu í árslok 90,6 m€ samanborið við 81,8 m€ í ársbyrjun.    

Helstu tölur í íslenskum krónum

Miðað við meðalgengi krónunnar gagnvart evru á árinu 2020 þá er velta samstæðunnar um 25,0 milljarðar,  EBITDA 4,3 milljarðar og hagnaður 2,3 milljarðar.  Miðað við gengi krónunnar gagnvart evru í lok árs 2020 þá eru heildareignir 38,5 milljarðar, skuldir 18,4 milljarðar og eigið fé 20,1 milljarður.

Aðalfundur

Aðalfundur Hampiðjunnar verður haldinn föstudaginn 26. mars 2021 í fundarsal félagsins að Skarfagörðum 4 í Reykjavík og hefst fundurinn klukkan 16:00.

Tillaga stjórnar um arðgreiðslu

Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2021 vegna rekstrarársins 2020 verði greidd 1,25 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 625 milljónir ISK.  Arðurinn verði greiddur í viku 23.  Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 26. mars 2021, þ.e. viðskipti sem fara fram á þeim degi koma fram í hlutaskrá félagsins á arðsréttindadeginum 30. mars.  Arðleysisdagurinn er 29. mars.

Samþykkt ársreiknings

Ársreikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Hampiðjunnar hf. þann 11. mars 2021. Ársreikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards) og hefur verið endurskoðaður af endurskoðendum félagsins.

Ársreikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu Hampiðjunnar hf.,  www.hampidjan.is.

 

Hjörtur Erlendsson, forstjóri:

„Þrátt fyrir mikla óvissu vegna heimsfaraldursins reyndist árið 2020 gott ár fyrir samstæðu Hampiðjunnar.  Sala samstæðunnar í heild sinni stóð í stað milli ára en mjög mismunandi var hvernig salan þróaðist í einstökum löndum.  Vegna áhrifa Covid-19 dró mikið úr sölu frá Íslandi til Rússlands og sala á Írlandi minnkaði umtalsvert ásamt minni sölu hér á Íslandi.  Í Noregi veldur gengislækkun norsku krónunnar gagnvart evru lægri sölu sem því nemur í uppgjöri samstæðunnar.

Hins vegar jókst sala í Danmörku, Bandaríkjunum, Ástralíu, Færeyjum og á Kanarí.  Einnig skiluðu þau félög sem bættust í samstæðuna á árinu, Jackson Trawl og Jackson Offshore, töluverðri viðbót og vógu upp þá söluminnkun sem annars hefði orðið á milli ára.  Án þeirra hefði söluminnkun numið 4,2%.  Mikil sala var á fiskeldiskvíum á árinu og þá sérstaklega á stærri gerðum þeirra sem eru úr ofurefnum til Færeyja og Skotlands.  Sala á kvíum og þjónusta við fiskeldið hefur vaxið mikið undanfarin ár og er sá þáttur orðinn mikilvægur í starfsemi Hampiðjunnar.

Samlegðaráhrif vegna kaupa á fyrirtækjum undanfarin ár hefur skilað sér eins og áætlað var og EBITDA hlutfallið hækkaði úr 14,8% í 17,0%.  

Efnahagsreikningurinn hækkaði um tæp 8% á milli ára, úr 228,4 m€ í 246,6 m€ og þar er fyrst og fremst um að ræða fjárfestingar í fyrirtækjum, byggingum og framleiðslutækjum.  

Í byrjun ársins keypti Hampiðjan hf. 80% eignarhlut í skosku félögunum Jackson Trawls Limited og Jackson Offshore Supply Limited. Jackson Trawl er leiðandi í sölu veiðarfæra á Bretlandseyjum og Jackson Offshore selur einkum kaðla, lyftistroffur og járnavöru til olíuiðnaðarins í Skotlandi. Kaupin styrkja stöðu samstæðunnar verulega gegn áhrifum Brexit á fiskveiðar og úthlutun kvóta í breskri lögsögu.

Nokkrum stórum uppbyggingarverkefnum lauk á árinu og er þar fyrst að nefna nýtt og glæsilegt netaverkstæði í Neskaupstað sem tekið var í notkun í ársbyrjun.  Í Strandby í Danmörku var lokið við 1.200 m² stækkun lagers og netaverkstæðis og var sú viðbót tekin í notkun síðastliðið vor. Í Norðskála í  Færeyjum var lokið við 1.500 m² stækkun á fiskeldisþjónustunni með fullkomnum tækjabúnaði til að yfirfara og gera við fiskeldiskvíar og aðstaðan tekin í notkun um áramótin.  Unnið er enn að stækkun fiskeldisþjónustunnar í Finnsnes og Målselv í N-Noregi og verður því verkefni lokið í vor. 

Tvö fyrirtæki fluttu sig um set á árinu og fóru í stærra og fullkomnara leiguhúsnæði.   Hampidjan Australia, sem hefur vaxið hratt á undanförnum árum, flutti úr 1.100 m² byggingu í  sérbúna og afar hentuga 1.750 m² nýbyggingu í Yatala suður af Brisbane.  Hampidjan New Zealand, í Timaru á suðurey Nýja-Sjálands, flutti í árslok í nýja og hentuga byggingu á hafnarsvæðinu og með þeim flutningi skapast möguleikar á meiri og betri þjónustu við útgerðarfyrirtæki og iðnfyrirtæki á staðnum.

Miklu átaki í vélafjárfestingum í framleiðslufyrirtækinu Hampidjan Baltic lauk á árinu með uppsetningu fullkominnar þráðaframleiðslulínu fyrir polyethylene þræði og leysir hún af eldri framleiðslulínur og bætir að auki við töluverðri framleiðslugetu.  Vélalínan var tekin í notkun síðastliðið haust og er nú til staðar nægjanleg framleiðslugeta til að sinna þörf á þráðum fyrir fléttað netagarn.  

Starfsmenn Hampiðjunnar voru að meðaltali 1.159 á árinu og fjölgaði því um 2,9% úr 1.126  árið á undan.  Á síðasta ári störfuðu 76 á Íslandi sem er sami fjöldi og á árinu 2019 eða tæp 7% af heildinni.  Fjölmennustu starfsstöðvarnar eru í Litháen en þar starfa nú 615 í tveim framleiðslufyrirtækjum samstæðunnar, Hampidjan Baltic og Vonin Lithuania, eða 53% af heildarstarfsmannafjölda Hampiðjunnar.   Búið er að tryggja báðum þessum fyrirtækjum nægilegt landsvæði til stækkunar í nánustu framtíð því húsnæði beggja er nánast fullnýtt.  Hins vegar er ennþá töluverður möguleiki á framleiðsluaukningu með núverandi vélakosti og fleiri starfsmönnum.   

Sem fyrr var unnið sleitulaust að vöruþróun og fyrir utan stöðugar endurbætur á efnum og ljósleiðaraköplum til veiðarfæragerðar þá var lögð sérstök áhersla á þróun sérhannaðra ofurtóga fyrir krana og djúpsjávarvindur til nota í olíuiðnaði.  Tekist hefur að hanna mjög beygjuþolið og hitaþolið ofurtóg úr kevlarefnum og hefur það verið nefnt TechIce og sótt hefur verið um einkaleyfi fyrir þá hönnun. Það ofurtóg hefur mun betri eiginleika en þau vindutóg sem við höfum áður þróað og sem hafa hingað til þótt þau bestu sem völ er á í dag."

Nánari upplýsingar

Frekari upplýsingar veitir Hjörtur Erlendsson forstjóri í síma 664 3361.

Viðurkenndur ráðgjafi

Viðurkenndur ráðgjafi Hampiðjunnar á Nasdaq First North er PwC.


Viðhengi



Attachments

Hampiðjan hf.  Ársreikningur samstæðu 2020