Sjóvá: Breyting á framkvæmdastjórn og skipuriti


Ólafur Njáll Sigurðsson, sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra fjármála og þróunar frá árinu 2009, hefur óskað eftir því að láta af störfum hjá félaginu. Ólafur hóf störf hjá Sjóvá á krefjandi tímum og hefur verið þátttakandi bæði í uppbyggingu og sókn félagsins á vátryggingamarkaði undanfarin ár þar sem rekstur félagsins hefur bæði vaxið og eflst. Ásamt starfi framkvæmdastjóra fjármála og þróunar hefur Ólafur gegnt stöðu framkvæmdastjóra Sjóvá-Almennra líftrygginga frá árinu 2010. Er honum þakkað fyrir gott og ábyrgðarmikið starf hjá félaginu og um leið óskað velfarnaðar á þessum tímamótum. 

Sigríður Vala Halldórsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni hjá Sjóvá og tekur sæti í framkvæmdastjórn. Sigríður Vala hefur starfað hjá Sjóvá síðastliðin 5 ár þar sem hún hefur gegnt stöðu forstöðumanns hagdeildar ásamt því að sitja í fjárfestinganefnd félagsins. Sigríður Vala starfaði á árunum 2008-2015 í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og hjá Creditinfo árin 2015-2016 sem forstöðumaður viðskiptastýringar. Sigríður Vala situr í stjórn HS Veitna hf. og SÝN hf. Sigríður Vala er með M.Sc. próf í iðnaðarverkfræði frá University of Minnesota og B.Sc. próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Þá hefur Sigríður Vala lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Skipuriti félagsins verður breytt samhliða breytingum á framkvæmdastjórn og tekur nýtt skipurit gildi frá og með deginum í dag sbr. meðfylgjandi viðhengi. Hermann Björnsson forstjóri Sjóvá-Almennra trygginga mun ásamt því starfi tímabundið gegna starfi framkvæmdastjóra Sjóvá-Almennra líftrygginga.

Viðhengi



Attachments

Sjóvá skipurit apríl 2021