Alvotech og Teva Pharmaceuticals hefja sölu á líftæknilyfjahliðstæðunni Simlandi í Bandaríkjunum


  • Simlandi er fyrsta líftæknilyfjahliðstæðan í háum styrk með útskiptanleika við Humira á markaði í Bandaríkjunum

Alvotech (NASDAQ: ALVO) og samstarfsaðili þess Teva Pharmaceuticals Ltd. tilkynntu í dag að sala væri hafin í Bandaríkjunum á Simlandi (adalimumab-ryvk), fyrstu líftæknilyfjahliðstæðunni í háum styrk með útskiptanleika við Humira sem hlotið hefur markaðsleyfi frá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA).

„Við erum stolt af því að geta boðið meðferðaraðilum og sjúklingum í Bandaríkjunum aðgang að Simlandi,“ sagði Thomas Rainey, framkvæmdastjóri markaðsaðgengis fyrir Teva í Bandaríkjunum. „Líftæknilyfjahliðstæður draga úr kostnaði við heilbrigðisþjónustu og Simlandi er fyrsta sítratlausa líftæknilyfjahliðstæðan í háum styrk með útskiptanleika við Humira sem í boði er á markaði í Bandaríkjunum. Við munum vinna þétt með tryggingafyrirtækjum og innkaupaaðilum til að tryggja aðgengi sjúklinga að Simlandi, og þeim sex líftæknilyfjahliðstæðum til viðbótar sem við ætlum að setja á markað fram til ársins 2027.“

Simlandi er fyrsta líftæknilyfjahliðstæðan við Humira án sítrats og í háum styrk sem FDA hefur veitt markaðsleyfi með útskiptanleika, og fylgir því einkaréttur til að markaðssetja hliðstæðuna með útskiptanleika í styrkleikanum 40mg/0.4mL. Líftæknilyfjahliðstæður við Humira í lágum styrk og hliðstæður í háum styrk eru þegar komnar á markað í Bandaríkjunum, en um 88% af ávísunum á adalimumab eru fyrir lyfið í háum styrk, samkvæmt gögnum sem safnað er af gagnaveitunni Symphony.

„Það er mikil ánægja að geta boðið sjúklingum í Bandaríkjunum upp á Simlandi. Við hlökkum til þess að halda áfram að auka framboð í Bandaríkjunum af hagstæðum hágæða líftæknilyfjahliðstæðum, þar sem þær geta dregið úr vaxandi kostnaði í heilbrigðiskerfinu og fyrir sjúklinga,“ sagði Anil Okay, framkvæmdastjóri viðskipta hjá Alvotech.

Fyrsti samstarfssamningur Alvotech og Teva var undirritaður í ágúst 2020. Þá var samið um sölu og markaðsetningu fimm líftæknilyfjahliðstæða sem þróaðar verða og framleiddar af Alvotech. Í ágúst á síðasta ári gengu félögin til aukins samstarfs og bættust tvær nýjar líftæknilyfjahliðstæður við samstarfið, auk nýrra útgáfa af tveimur hliðstæðum sem voru hluti af upprunalega samkomulaginu. Alvotech sér um alla þróun og framleiðslu, en Teva sér um sölu og markaðssetningu í Bandaríkjunum og nýtir þar með mikla reynslu og öflugt sölu- og markaðsnet. Simlandi er fyrsta líftæknilyfjahliðstæðan í samstarfinu sem kemur á markað. Í apríl sl. veitti FDA markaðsleyfi fyrir Selarsdi (ustekinumab-aekn) sem líftæknilyfjahliðstæðu við Stelara (ustekinumab) og verður hún önnur hliðstæðan í samstarfinu sem kemur á markað. Gert er ráð fyrir að sala á Selarsdi hefjist í lok febrúar á næsta ári.

Notkun á vörumerkjum
Humira er skráð vörumerki AbbVie Biotechnology Ltd. Stelara er skráð vörumerki Johnson & Johnson.

Um Alvotech
Alvotech, stofnað af Róberti Wessman, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þættir í þróun og framleiðslu í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur meðal annars að þróun líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu,  Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum.  Meðal samstarfsaðila Alvotech eru Teva Pharmaceuticals, dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (markaðsaðili í Bandaríkjunum), STADA Arzneimittel AG (Evrópa), Fuji Pharma Co., Ltd (Japan), Advanz Pharma (EES, Bretland, Sviss, Kanada, Ástralía og Nýja Sjáland), Cipla/Cipla Gulf/Cipla Med Pro (Ástralía, Nýja Sjáland, Afríka), JAMP Pharma Corporation (Kanada), Yangtze River Pharmaceutical (Group) Co., Ltd. (Kína), DKSH (Taívan, Hong Kong, Kambódía, Malasía, Singapore, Indonesía, Indland, Bangladess og Pakistan), YAS Holding LLC (Miðausturlönd og Norður Afríka), Abdi Ibrahim (Tyrkland), Kamada Ltd. (KMDA; Ísrael), Mega Labs, Stein, Libbs, Tuteur and Saval (Rómanska-Ameríka) og Lotus Pharmaceuticals Co., Ltd. (Taíland, Víetnam, Filippseyjar og Suður-Kórea).

Alvotech, fjárfestatengsl og samskiptasvið
Benedikt Stefánsson, forstöðumaður
alvotech.ir@alvotech.com