Í fréttatilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá 5. þ.m. vegna funda HFF34 og HFF44 skuldabréfa sem haldinn verður 10. apríl 2025, kom fram að samþykki 75% „eigenda að kröfuvirði“ þyrfti til að tillagan teldist samþykkt og bindandi fyrir alla eigendur skuldabréfa. Af þessu og öðrum kynningargögnum mátti ráða að tillagan þyrfti að hljóta samþykki 75% með tilliti til heildarfjárhæðar skulda. Það skal tekið fram til skýringar að til þess að fundur skuldabréfaeigenda sé ályktunarbær þurfa að mæta þar fulltrúar þeirra sem hafa yfir 75% af heildarkröfufjárhæðum að ráða. Sé fundurinn þannig ályktunarbær telst tillaga sem fyrir fundinum liggur samþykkt ef skuldabréfaeigendur sem fara samanlagt með að minnsta kosti 75% af nafnverði þeirra bréfa sem greidd eru atkvæði fyrir, styðja hana.
Áréttað er að ógreidd atkvæði - hvort sem eigendur mæta ekki á fund eða sitja hjá í atkvæðagreiðslu - teljast hvorki með né á móti.