Nýherji - Ársuppgjör 2006


Tekjur aukast um 37% og EBIDTA nær þrefaldast

"	Tekjur á árinu 2006 nema 8.646 mkr, aukast um 2.353 mkr frá fyrra ári
"	Hagnaður á árinu nam 305.6 mkr, var árið áður 76.5 mkr 
"	EBITDA 682,5 mkr en var 232.7 mkr árið á undan
"	AppliCon stofnar ný dótturfélög í Svíþjóð og Bretlandi
"	Tölvusmiðjan ehf. á Austurlandi keypt
"	Tillaga stjórnar að greiddur verði 45% arður


Á stjórnarfundi Nýherja hf. í dag, 19. janúar, samþykkti stjórn félagsins endurskoðaðan ársreikning þess fyrir árið 2006.

Ágæt rekstararafkoma
Tekjur Nýherja á árinu 2006 námu 8.646 mkr, en voru 6.293 mkr árið á undan og er tekjuaukning því 37,4% milli ára.  Hagnaður Nýherja eftir skatta var 305,6 mkr á árinu 2006, samanborið við 76,5 mkr árið áður.  

Hagnaður Nýherja ásamt dótturfélögum fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir - EBITDA - nam 682,5 mkr, en var 232,7 mkr árið áður.  Hlutfall EBITDA af heildartekjum er því 7,9% á árinu.

Launakostnaður á árinu nam 2.523,3 mkr og hækkar um 54% fyrir samstæðuna í heild. Hækkun launakostnaðar er að mestu tilkomin vegna fjölgunar starfsmanna, einkum við kaup á AppliCon A/S í Danmörku. Meðalfjöldi stöðugilda hjá Nýherja og dótturfélögum var 337 árið 2006, sem er aukning um 45 stöðugildi frá árinu á undan.  Í árslok voru stöðugildi 351 en heildarstarfsmannafjöldi 371. 

Tekjur félagsins af vörusölu og tengdri þjónustu námu 5.723 mkr, en  af ráðgjöf og sölu hugbúnaðar voru tekjur 2.961 mkr á árinu. Tekjur af erlendri starfsemi  voru 1.050 mkr eða 12% heildartekna.

Fjórði ársfjórðungur
Heildartekjur Nýherja og dótturfélaga í fjórða ársfjórðungi námu 2.704,2 mkr og jukust um 27% frá sama tíma árið áður.  Hagnaður í ársfjórðungnum nam 68 mkr samanborið við 25,1 mkr í sama ársfjórðungi árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir - EBIDTA - var 173 mkr samanborið við 102,6 mkr í sama fjórðungi árið áður.

Um rekstur
Stefna Nýherja er að vera markaðsdrifið þekkingarfyrirtæki, sem veitir viðskiptavinum sínum vandaðar lausnir og þjónustu á sviði upplýsingatækni og fyrirtækjarekstrar. Undanfarin ár hefur félagið fjárfest verulega í nýrri þekkingu starfsmanna og þróun á forsniðnum lausnum á sviði hugbúnaðar og þjónustu, mest tengt SAP hugbúnaði. Afkoma undanfarinna ára hefur borið þess merki, þar sem fjárfestingin hefur þegar verið gjaldfærð, en árangur þessarar uppbyggingar er nú farinn að skila sér í bættri afkomu. 

Staða Nýherja á upplýsingatæknimarkaðnum hefur styrkst á árinu 2006 eins og mikill vöxtur tekna og góð afkoma ber með sér. Viðskiptaumsjón og sölustarfsemi eru skilvirk og byggir á nánu samstarfi og ráðgjöf við viðskiptavini.  Áhersla félagsins á þróun og markaðssetningu á ráðgjafar- og þjónustulausnum til ákveðinna atvinnugreina hefur breytt samsetningu tekna og nálgast þjónustutekjur Nýherja nú að vera um 45% heildartekna. 

Samhliða því að starfsemi félagsins efldist á hefðbundnum mörkuðum þá var þjónusta við fyrirtæki á landsbyggðinni aukin með opnun skrifstofu á Akureyri og kaupum á Tölvusmiðjunni ehf. á Austurlandi. 

Gullvottuð þjónusta 
Nýherji náði mjög góðum árangri á árinu í sölu og þjónustu á IBM netþjónum, IP samskiptalausnum, IBM hugbúnaði auk rekstrarþjónustu. Unnið var að viðamiklum innleiðingum á IP símkerfum fyrir íslensk fyrirtæki víða um heim og fyrstu skrefin voru tekin í uppbyggingu á starfsemi á því sviði í Danmörku. Nýherji var fyrsta fyrirtækið á Norðurlöndunum til að hljóta gullvottun frá Avaya, einu fremsta fyrirtæki heims á sviði samskiptalausna. Stöðug uppbygging hefur verið á sviði hýsingar- og rekstrarþjónustu auk hýstrar IP símaþjónustu og eftirspurn hefur einnig verið góð eftir Lotus Workplace hugbúnaðinum.

Vöxtur í þjónustu og sölu Notendalausna 
Ágætur vöxtur var í sölu notendabúnaðar eins og fartölvum, ljósritunarvélum, prenturum og hljóð- og myndlausnum og vaxandi áhersla er á ráðgjöf og þjónustu á þessu sviði. Jafnframt hefur sala og uppsetningu á prentsmiðjutækjum og tengdum lausnum styrkst. Nýherji tók á árinu alfarið yfir Canon umboðið á Íslandi, en áður hafði sala og dreifing á myndbandsupptökuvélum og ljósmyndabúnaði fyrir fagaðila verið í höndum annarra. Þá hóf Nýherji innflutning á hraðbönkum frá bandaríska fyrirtækinu Diebold. 

AppliCon til Bretlands og Svíþjóðar á árinu
Árið 2006 var fyrsta heila starfsár AppliCon Holding ehf. sem í ársbyrjun átti dótturfélögin AppliCon ehf. á Íslandi og AppliCon A/S í Danmörku. Bætta afkomu Nýherja má m.a. rekja til þess að rekstur og afkoma AppliCon var með ágætum á árinu, en félagið sérhæfir sig í sölu og þróun  SAP og Microsoft lausna. Ný dótturfélög AppliCon voru stofnuð í Bretlandi, Danmörku og  Svíþjóð og munu þau sérhæfa sig í að veita SAP ráðgjafaþjónustu, einkum með áherslu á fjármálafyrirtæki. AppliCon er orðið eitt öflugasta fyrirtækið á sviði SAP ráðgjafaþjónustu á Norðurlöndum og hefur félagið ítrekað verið valið eitt fremsta fyrirtækið á sínu sviði af viðskipta- og fagtímaritum. 

ParX ehf. í krefjandi ráðgjafaverkefnum
Rekstur ParX ehf., dótturfélags Nýherja, styrktist á árinu og var í samræmi við áætlanir. ParX hefur unnið markvisst að þróun vandaðrar starfsemi á sviði ráðgjafar og rannsókna í takt við ný og krefjandi verkefni og hefur á árinu ráðið til starfa  ráðgjafa með nýja þekkingu til að sinna þeim kröfum. 

Dótturfélögum fjölgar
Nýherji keypti í október allt hlutafé Tölvusmiðjunnar ehf. á Austurlandi, sem annast sölu á tölvum og tækjabúnaði ásamt því að bjóða upp á víðtæka hugbúnaðar- og rekstrarþjónustu. Rekstur Klaks ehf., dótturfélags Nýherja, gekk ágætlega en Klak stóð m.a. fyrir tveimur fjárfestaþingum á árinu ásamt því að taka þátt í ýmsum nýsköpunarverkefnum. Rekstur SimDex ehf. gekk ekki samkvæmt áætlun árið 2006 en jafnvægi náðist í rekstri þess á síðari hluta ársins. 

Aukinn stöðugleiki í rekstri
Aukið hlutfall tekna Nýherja byggir á þjónustu, ráðgjöf og innleiðingu hugbúnaðar. Jafnframt hafa tekjur í erlendri mynt vaxið og eykur hvort tveggja stöðugleika í rekstrarafkomu félagsins. Markmið Nýherja er að auka starfsemi sína enn frekar í þróun og sölu á þjónustu og ráðgjöf á sviði hugbúnaðarstarfsemi, hljóð- og myndlausna, samskiptalausna og samþættingar. Erlendar fjárfestingar félagsins hafa gefið góða raun og mun vera litið frekar til Norður-Evrópu í þeim efnum. 

Horfur
Eftirspurn hefur verið stöðugt vaxandi eftir þjónustu upplýsingatæknifyrirtækja, og eru horfur ágætar á nýbyrjuðu ári. Félagið telur sig eiga ágæt sóknarfæri á erlendum mörkuðum, en einnig hérlendis. Rekstraráætlanir Nýherja fyrir árið 2007 gera ráð fyrir svipuðum rekstrarárangri og á liðnu ári.

Um Nýherja hf.
Hlutverk Nýherja er að skapa viðskiptavinum virðisauka með þekkingu starfsmanna á upplýsingatækni, rekstri fyrirtækja og þörfum viðskiptavina.  Markmið  Nýherja hf. er að veita viðskiptavinum vandaðar lausnir,  fyrsta flokks ráðgjöf og fagþjónustu á sviði upplýsingatækni og fyrirtækjarekstrar.  Nýherji býður vandaðan hugbúnað, tölvu- og skrifstofubúnað og trausta tækni- og rekstrarráðgjafarþjónustu.  Hlutabréf eru skráð í Kauphöll Íslands hf.

Stjórn félagsins skipa Benedikt Jóhannesson, formaður, Árni Vilhjálmsson og Guðmundur Jóhann Jónsson.  Forstjóri félagsins er Þórður Sverrisson og veitir hann nánari upplýsingar í síma 569 7711 / 893 3630.  Heimasíða Nýherja er www.nyherji.is. 



Attachments

Nyherji  12 06.pdf Nyherji - Lykiltolur 12 06.pdf