2006/2007


Á stjórnarfundi félagsins þann 23. maí 2007 var ársreikningur félagsins fyrir
reikningsárið 1. mars 2006 til 28. febrúar 2007 staðfestur af stjórn og
forstjóra félagsins.  Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning
félagsins og dótturfélaga þess.  Aðalfundur félagsins var haldinn sama dag og
var samþykkt að greiða 1.000 millj. kr. arð til hluthafa á árinu 2007. 

Hluthafar félagsins voru 5 í lok reikningsársins og á Baugur Group hf. 95% af
heildarhlutafé félagsins. 
 
Rekstur
Rekstrartekjur félagsins námu 46.513 millj. kr. en rekstrargjöld án afskrifta
námu 44.515 millj. kr. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði
(EBITDA) var 2.074 millj. kr.  Afskriftir námu 918 millj. kr. og hagnaður fyrir
fjármagnsliði og skatta nam 1.156 millj. kr. á rekstrarárinu.  Hagnaður 
félagsins fyrir skatta, að teknu tilliti til fjármagnsliða nam 560 millj. kr.,
en fjármagnsliðir voru nettó neikvæðir um 596 millj. kr. Að teknu tilliti til
reiknaðra skatta nam hagnaður félagsins 417 millj. kr. á rekstrarárinu 2006/07. 

Fyrirtæki Haga eru eftirfarandi:

Bónus                   Debenhams				
Hagkaup                 Ferskar kjötvörur				
10-11                   Noron (Zara)
Aðföng                  Íshöfn
Hýsing                  Res
Útilíf                  Bananar
				
Hlutdeildarfélag
Max						

Stöðugildi hjá félaginu þann 28. febrúar 2007 námu 1.617.

Efnahagur
Heildareignir félagsins námu 23.543 millj. kr. í 28. febrúar 2007. 
Fastafjármunir námu samtals 14.510 millj. kr. og veltufjármunir námu 9.033
millj. kr. en þar af nema kreditkortakröfur 2.667 millj. kr.  Heildarskuldir
félagsins námu  16.403 millj. kr., þar af  námu langtímaskuldir 10.192 millj.
kr.  Eigið fé og víkjandi lán nam 7.140 millj. kr. eiginfjárhlutfall að teknu
tilliti til víkjandi láns var 30% í febrúarlok 2007. 

Staða og horfur

Nokkur bati varð á rekstri Haga á nýliðnu rekstrarári.  Afkoma félagsins er þó
ekki komin í þann farveg, sem getur talist ásættanleg til lengri tíma litið. 
Stjórnendur félagsins hafa því væntingar um betri rekstur á því rekstrarári,
sem nú er hafið.  Þrátt fyrir mikla samkeppni á matvörumarkaði,  hefur dregið
úr því öfgafulla verðstríði sem ríkti árið á undan.  Álagning í matvöru hefur
lækkað ár frá ári, þar sem lágvöruverslanir sinna nú stærri hluta markaðarins,
auk þess sem samkeppni er hörð.  Hlutur lágvöruverslana á Íslandi er kominn
langt umfram hlutdeild slíkra verslana í nágrannalöndum okkar.  Einnig er vert
að benda á að tveir stærstu kostnaðarliðir verslunarinnar, launakostnaður og
húsnæðiskostnaður, hafa hækkað  mikið umfram verðlagsvítitölu matvöru
undanfarin misseri.  Þensla á vinnumarkaði og gjörbreytt umhverfi á
húsnæðismarkaði hefur því mikil áhrif á rekstur verslana. 

Mikil almenn umræða auk umfjöllunar fjölmiðla um matvörumarkaðinn einkenndi
síðastliðið rekstrarár.  Mikil breyting varð á skattlagningu matvæla þann 1.
mars síðastliðinn, sem m.a. var ástæða þeirrar athygli sem matvörumarkaðurinn
fékk, enda um mjög jákvæða breytingu að ræða, sem hafði veruleg áhrif á verðlag
matvöru.  Í aðdraganda 1. mars, þegar virðisaukaskattur á matvæli lækkaði í 7%
og vörugjöld á matvælum voru felld niður átti sér stað ómakleg umræða um aðila
á matvörumarkaði.  Fordæmi slíkrar umræðu sem matvörumarkaðurinn mátti þola er
vandfundin og á sér ekki samsvörun á meðal annarra atvinnugreina.  Umræðan
snérist m.a. um að aðlilar á matvörumarkaði kæmu ekki til með að skila lægri
skattlagningu í lægra vöruverði.  Komið hefur í ljós að lækkun skattlagningar
skilaði sér að fullu í verslunum Haga.  Eðlilegt er að reikna áfram með mikilli
samkeppni á matvörumarkaði.  Umræða um hátt verðlag á matvörum á Íslandi mun
halda áfram, en hún hefur í auknum mæli beinst að háu verði á landbúnaðarvörum,
höftum í viðskiptum með þær vörur og stjórnvöldum, enda fáar þjóðir, sem búa
við jafnmikil höft í verslun með matvöru og tollvernd landbúnaðarvara.  Hagar
fagna yfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar um aukið frelsi með landbúnaðarvörur,
enda er slíkt frelsi forsenda fyrir lægra matvöruverði á Íslandi. 

Hið opinbera stundar umfangsmikinn smásölurekstur.  Hagar vilja á þessum
tímamótum skora á stjórnvöld að draga sig út úr smásölurekstri, m.a.
umsvifamikilli snyrtivöru- og raftækjaverslun í Leifsstöð.  Einnig er mikilvægt
að stjórnvöld heimili sölu á léttvíni og bjór í dagvöruverslunum. 

Úrskurði Neytendastofu um að Hagar mættu ekki nota nafnið Hagar, var snúið af
áfrýjunarnefnd neytendamála.  Högum er því heimilt að nota nafnið Hagar. 

Á árinu opnaði 10-11 þrjár verslanir í Leifsstöð, auk þess sem opnuð var
verslun í miðbæ Akureyrar.  Verslanir 10-11 eru því orðnar 25 talsins.  Ekki
voru opnaðar nýjar verslanir á vegum Bónus en verulegar endurbætur gerðar á
nokkrum eldri verslunum, m.a. í Smáratogi og Holtagörðum, en Bónus rak í lok
rekstrarársins 25 verslanir.  Mikil undirbúningsvinna átti sér stað innan
Hagkaupa, en þar var opnuð ný sérvöruverslun í Borgarnesi nú í maí auk þess sem
ný sérvöruverslun verður opnuð í byrjun júní í Njarðvík.  Hagkaup vinnur auk
þess að opnun 7.600 fermetra verslunar í Holtagörðum fyrir næstu áramót og
nýrrar 4.000 fermetra verslunar í Garðabæ, sem kemur í stað þeirrar eldri. 

Rekstur vöruhúsa félagsins gekk vel.  Vöruhúsin skipa mikilvægt hlutverk í
rekstri félagsins og velgengni þeirra styrkir félagið. 

Markviss sókn hefur verið í sölu á sérvöru, þrátt fyrir að matvöruhluti
félagsins sé enn ráðandi.  Á rekstrarárinu tóku Hagar við rekstri verslana
undir vörumerkjunum Karen Millen, Oasis, Coast, Warehouse, Whistles, All Saints
og Shoe Studio eftir kaup á félögunum RES og Íshöfn.  Auk þess opnaði félagið
verslanir undir vörumerkinu Evans í Smáralind og Kringlunni og nýja verslun
Zara í Kringlunni.  Þá eignaðist félagið helmingshlut í hlutafélaginu Max, sem
rekur raftækjaverslun undir sama merki í Urriðaholti. 

Félagið hefur notið mikillar velvildar viðskiptavina og var Bónus kosið
vinsælasta fyrirtæki ársins fimmta árið í röð, auk þess sem fyrirtækið hlaut
neytendaverðlaun Neytendasamtakanna og Bylgjunnar annað árið í röð.  Á
matvörumarkaði hefur Bónus ávallt boðið lægsta vöruverðið undanfarin 18 ár,
Hagkaup mesta vöruúrvalið og þjónustuna og 10-11 lengstan opnunartíma.  Þessi
þrjú fyrirtæki félagsins hafa forystu á íslenskum markaði, hvert á sínu sviði. 

Staða félagsins er sterk á þessum tímamótum.  Sérvöruhlið félagsins er að vaxa
og styrkjast og vörumerkjasafn félagsins er glæsilegt.  Vörumerki félagsins í
matvöru eru í forystu, hvert á sínu sviði og öll í sókn.  Stór verkefni eru
framundan í uppbyggingu félagsins, m.a. í Holtagörðum, á Akureyri og í Garðabæ.
 Tækifærin eru fjölmörg og spennandi tímar framundan. 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri Haga í síma 530 5500

Attachments

hagar - arsreikningur 2006 2007.pdf hagar - frettatilkynning.pdf